Gekk í augun á áhorfendum Nick Clegg, fyrir miðju, ræðir við blaðamenn á kosningaferðalagi á Englandi í gær.
Gekk í augun á áhorfendum Nick Clegg, fyrir miðju, ræðir við blaðamenn á kosningaferðalagi á Englandi í gær. — Reuters
Eftir Boga Þór Arason bogi@mbl.is STUÐNINGURINN við Frjálslynda demókrata, þriðja stærsta flokkinn í Bretlandi, virðist hafa aukist verulega eftir sjónvarpskappræður leiðtoga þriggja helstu stjórnmálaflokka landsins í fyrrakvöld.

Eftir Boga Þór Arason

bogi@mbl.is

STUÐNINGURINN við Frjálslynda demókrata, þriðja stærsta flokkinn í Bretlandi, virðist hafa aukist verulega eftir sjónvarpskappræður leiðtoga þriggja helstu stjórnmálaflokka landsins í fyrrakvöld.

Nick Clegg, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, þótti hafa staðið sig best í kappræðunum og sigrað Gordon Brown forsætisráðherra og David Cameron, leiðtoga Íhaldsflokksins. Clegg komst út úr skugga turnanna tveggja og sýndi að baráttan stendur ekki aðeins á milli Verkamannaflokksins og Íhaldsflokksins sem hafa skipst á um að stjórna Bretlandi frá árinu 1922 með örfáum undantekningum.

Þótt Clegg eigi litla möguleika á að verða næsti forsætisráðherra Bretlands er líklegt að flokkur hans geti ráðið úrslitum um hvort Brown eða Cameron myndar næstu stjórn.

Skoðanakönnun, sem ITV -sjónvarpið birti í gær, bendir til þess að fylgi Frjálslyndra demókrata sé nú 24% og hafi aukist um þrjú prósentustig frá samskonar könnun sem gerð var tveimur dögum fyrir kappræðurnar. Fylgi Íhaldsflokksins mældist 35% og 28% aðspurðra sögðust styðja Verkamannaflokkinn. Um 4.000 manns tóku þátt í könnuninni.

Viðaminni skyndikannanir, sem gerðar voru í fyrrakvöld, bentu til þess að fylgi Frjálslyndra demókrata hefði aukist enn meira, um allt að 14 prósentustig.

Clegg er 43 ára að aldri og varð leiðtogi Frjálslyndra demókrata í desember 2007.

Hann hefur einkum vakið athygli fyrir andstöðu við aðgerðir sem hann telur grafa undan borgaralegum réttindum og fyrir að rjúfa pólitíska bannhelgi með því að gagnrýna framgöngu breska hersins í Afganistan og krefjast þess í fyrra að forseti neðri deildar þingsins segði af sér vegna hneykslismála þingmanna.

36% þekktu hann ekki

Clegg hefur þó reynst örðugt að komast út úr skugga Browns og Camerons – þar til nú – og skoðanakönnun BBC í september benti til þess að 36% kjósenda þekktu hann ekki.

Nick Clegg nam félagsmannfræði við Cambridge-háskóla og starfaði við blaðamennsku og pólitíska ráðgjöf áður en hann hóf störf fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Hann sat á Evrópuþinginu á árunum 1999-2004 og var kosinn á breska þingið árið 2005.

Móðir Cleggs er hollensk, faðir hans hálf-rússneskur og kona hans spænsk. Hann talar fimm tungumál, hollensku, frönsku, þýsku og spænsku, auk ensku.

» Líklegt er að Verkamannaflokkurinn og Íhaldsflokkurinn geri nú harða hríð að Nick Clegg og gagnrýni umdeildar tillögur hans, m.a. um að Bretar taki upp evruna.

» „Við þurfum að koma honum niður úr heiðhvolfinu, niður fyrir gjóskuskýið,“ hafði fréttavefur The Times eftir einum forystumanna Verkamannaflokksins