Björn Ingimarsson
Björn Ingimarsson
Eftir Björn Ingimarsson: "Færa má rök fyrir því að tekjur sveitarfélaga rýrni vegna þessa auk þess að vegið sé að afkomugrundvelli leiðandi fyrirtækja innan greinarinnar."

Á DÖGUNUM sat ég ágætan fund í Háskólanum á Akureyri þar sem niðurstöður þjóðfunda voru kynntar. Fundirnir voru haldnir víðs vegar um landið undir merki Sóknaráætlunar 20/20, hverrar markmið er að skapa nýja sókn í atvinnulífi og móta framtíðarsýn um betra samfélag með áherslum á verðmætasköpun, menntun, velferð og sönnum lífsgæðum.

Undirritaður átti þess kost að taka þátt í þessari vinnu með setu á þjóðfundi á Akureyri í lok febrúar sl. en þar átti sér stað gagnleg hópavinna sem skilaði sér að hluta til í tillögum að framtíðaráherslum varðandi norðaustursvæðið. Eftir kynningarfundinn hef ég verið hugsi yfir því hvað fái stjórnvöld til að vinna skipulega að því að höggva í þær stoðir er grunnatvinnuvegir þjóðarinnar byggja afkomu sína á og beita sér á sama tíma fyrir því að hvetja almenning, fyrirtæki og sveitarfélög til sóknar.

Nú þegar sýndarveruleika íslenska fjármálageirans hefur verið feykt til hliðar blasir við að það eru náttúrulegar auðlindir til lands og sjávar sem íslenskt efnahagslíf þarf að treysta á til endurreisnar og viðhalds. Á Eyjafjarðarsvæðinu eru öflug matvælaframleiðslufyrirtæki innan landbúnaðar- og sjávarútvegsgeirans sem sinna innlendum sem erlendum mörkuðum. Má þar m.a. nefna Brim og Samherja, Kjarnafæði, Mjólkursamsöluna og Norðlenska. Samfélagslegt mikilvægi þessara fyrirtækja fyrir svæðið er óumdeilanlegt. Þannig námu heildarlaunagreiðslur til framleiðslu, landbúnaðar, skógræktar og fiskveiða á norðaustursvæðinu öllu (Fjallabyggð til og með Langanesbyggð) á árinu 2008 um 12 milljörðum króna. Miðað við að um 80% þessara tekna verði til á Eyjafjarðarsvæðinu nema útsvarstekjur þar, vegna þessa, um 1,3 milljörðum króna.

Hér er eingöngu horft til beinna tekna sem þessi fyrirtæki skapa en ekki er reynt að leggja mat á þau margfeldisáhrif sem tilvist þeirra leiðir af sér á svæðinu (viðhald, ráðgjöf, verslun, afþreying o.fl.). Sóknarfærin í rekstri þessara fyrirtækja eru hins vegar ótvíræð sé rétt á málum haldið og því ber að sporna með öllum ráðum gegn hugmyndum er vega að tilvist þeirra.

Með aðildarumsókn Íslands að ESB er vegið leynt og ljóst að framtíðarmöguleikum íslensks landbúnaðar og sjávarútvegs m.a. með framsali á ákvörðunarrétti og yfirstjórn. Slíkt er með öllu óviðunandi og hreint með ólíkindum að hugmyndir sem þessar skuli vera til umræðu þegar verkefni stjórnvalda númer eitt, tvö og þrjú ættu að vera aukin verðmætasköpun þjóðarbúsins. Fullyrt hefur verið að kostnaður við aðildarumsókn muni nema hátt í tveimur milljörðum króna og hlýtur slíkt að vekja spurningar um hæfi ráðamanna þjóðarinnar til ráðstöfunar á takmörkuðum fjármunum.

Undirritaður hefur lengi verið talsmaður þess að endurbætur þurfi að gera á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, m.a. með tilliti til veiðiskyldu. Þrátt fyrir að núverandi fyrirkomulag sé ekki gallalaust verður þó ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að það hefur öðru fremur leitt til þess að íslenskur sjávarútvegur er sjálfbær í dag. Sú var ekki staðan á níunda áratug nýliðinnar aldar, þegar ákvörðun um núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var tekin. Hugmyndir stjórnvalda varðandi breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu eru til þess fallnar að skapa óvissu um framtíðarrekstrargrundvöll greinarinnar. Þetta leiðir til óróa á veigamiklum mörkuðum sem hæglega getur leitt til þess að markaðir tapist. Handahófskenndar og illa ígrundaðar aðgerðir stjórnvalda, s.s. strandveiðar, eru til þess fallnar að draga úr verðmætasköpun innan greinarinnar. Færa má rök fyrir því að tekjur sveitarfélaga rýrni vegna þessa auk þess að vegið sé að afkomugrundvelli leiðandi fyrirtækja innan greinarinnar. Þannig er vegið að grunnstoðum atvinnulífs og framþróunar tiltekinna svæða.

Um leið og við eigum að fagna og hlúa að hugmyndum er lúta að nýsköpun og sókn til nýrra atvinnutækifæra verðum við að standa vörð um þær atvinnugreinar sem fyrir eru. Þess vegna ber bæði þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum á Eyjafjarðarsvæðinu að mæta hugmyndum sitjandi ríkisstjórnar varðandi landbúnaðar- og sjávarútvegsmál af fullri hörku. Óbreyttar eru þær til þess eins fallnar að rýra framtíðaratvinnumöguleika á svæðinu.

Höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.