Jón Guðnason fæddist 31.10. 1920 í Hlíð í Hrunamannahreppi, Árnessýslu. Hann andaðist á Landspítalanum 12.04 2010. Foreldrar hans voru Jóna Kristín Jónsdóttir, f. 1892, d. 1988, og Guðni Jónsson, f. 1895, d. 1982. Börn Kristínar og Guðna: Sigurjón, f. 1917, Jón, f. 1920, Davíð Brynjólfur, f. 1922, d. 2003, Guðbergur, f. 1924, d. 2007, Jóhanna, f. 1925, d. 2005, og tvíburarnir Guðrún og Guðmundur, f. 1931.

Jón kvæntist 4.11. 1950 Stefaníu Sigurjónsdóttur, f. 1918, d. 2010, frá Kirkjuskógi í Miðdölum. Hún var dóttir Kristínar Ásgeirsdóttur, f. 1878, og Sigurjóns Jónssonar, f. 1875. Börn Jóns og Stefaníu: 1) Guðni viðskiptafræðingur, f. 1950, maki Guðbjörg Gylfadóttir, f. 1954. Börn Guðna með fyrrv. eiginkonu, Guðrúnu Antonsdóttur, f. 1950, eru a) Jarþrúður, f. 1971, maki Einar Sigurðsson, f. 1970. Börn þeirra: Hugrún Líf, f. 2000, Kjartan Pétur, f. 2006, og Anton Guðni, f. 2006. b) Jón Líndal, f. 1976. c) Barn Guðna með Sigrúnu Sveinsdóttur f. 1963 er Hekla Brá, f. 2000. 2) Kristín bókari og einkaþjálfari, f. 1955, maki Gísli Vilhjálmsson, f. 1954. Þeirra börn: a) Vilhjálmur, f. 1983, d. 1999. b) Anna Ýr, f. 1986, unnusti Benedikt Arason, f. 1979. c) Sindri Freyr, f. 1993. 3) Gunnar bifvélavirki, f. 1965, unnusta Unnur Fríða Halldórsdóttir, f. 1964. Börn hans með fyrrv. eiginkonu, Guðfinnu Kristjánsdóttur, f. 1968: a) Kristinn, f. 1992, d. sama ár, b) Kristján Andri, f. 1994, c) Stefán f. 1996. 4) Stjúpbörn Jóns frá fyrri sambúð Stefaníu með Eiríki Kristinssyni kennara, f. 1916, d. 1994, eru: Kolbrún þjónustufulltrúi, f. 1944. Börn hennar eru: a) Óskar f. 1964, faðir Haraldur Þorsteinsson, f. 1944. Dóttir Óskars og Elfu Báru Bjarnadóttur, f. 1966, er Þórunn Sylvía, f. 1988, unnusti Guðjón Óli Sigurðsson, f. 1984. b) Kolbrún eignaðist með fyrrv. eiginmanni, Bjarna Þorsteinssyni, f. 1942, d. 2001, b) Guðrúnu, f. 1967, maki Karl Helgi Jónsson, f. 1965. Börn þeirra: 1) Diljá Tara, f. 1989, dóttir hennar og Sigurðar Þórs Jónssonar, f. 1986, er Aníta Mjöll, f. 2009. 2) Aldís Mjöll, f. 1990, unnusti Jökull Júlíusson, f. 1990. c) Þorsteinn, f. 1971, maki Fjóla Aronsdóttir, f. 1977. Börn þeirra: 1) Bjarni, f. 2001, 2) Helga Björg, f. 2002, 3) Guðrún María, f. 2008. 5) Kristinn verslunarmaður, f. 1946, d. 1991.

Jón ólst upp á Jaðri við almenn sveitastörf. Hann lauk prófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni 1940. Hann lærði múraraiðn og tók sveinspróf 1951 og lauk einnig meistaraprófi. Hann starfaði við múrverk um margra ára skeið. Hann var félagi í Múrarafélagi Rvk. frá 1951 og í stjórn Sveinasambands byggingarmanna 1955-1958. Hann var fyrsti varamælingafulltrúi. Starfaði þar síðan sem mælingafulltrúi uns hann lét af störfum 1990. Hann var í ritnefnd er saga Múrarafélags Rvk. 1950-1975, Líf og hugur, var rituð. Í stjórn Múrarasambands Íslands frá stofnun þess 1973 og sat í ritnefnd Múraratalsins sem kom út 1993. Hann var kjörinn heiðursfélagi 1987.

Jón og Stefanía bjuggu lengst af í Reykjavík í Álfheimum og Goðheimum en síðustu 18 árin bjuggu þau í Árskógum 8 í Reykjavík.

Útför Jóns Guðnasonar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 21. apríl, kl. 15.

Þegar ég heyri góðs manns getið

glaðnar yfir mér um sinn.

Þá er eins og dögun dafni,

drýgi bjarma um himininn,

vonum fjölgi,veður batni,

vökni af döggum jarðar kinn.

Jafnvel þó í fótspor fenni,

fjúki í skjólin heimaranns,

gott er að signa göfugmenni,

gjalda blessun minning hans,

dreifa skini yfir enni,

ilmi um brjóst hins fallna manns.

(Guðmundur Friðjónsson frá Sandi.)

Hinsta kveðja frá börnum þínum,

Guðna, Kristínu og Gunnari.

Í örfáum orðum vil ég minnast stjúpa míns, Jóns. Það er skammt á milli mömmu og hans, og kom það ekki á óvart. Hann saknaði hennar mikið og var farinn að heilsu, enda tæplega níræður. Samfylgd þeirra mömmu var orðin löng, rúmlega 60 ár, og sterk voru böndin sem þau bundu. Það var gæfa móður minnar að kynnast Jóni, þeim góða manni. Hún var einstæð með tvö börn er þau kynntust og Kristinn heitinn bróðir minn ólst upp hjá þeim og var þar allt sitt líf. Jón reyndist honum sem besti faðir alla tíð.

Börnin mín hafa aldrei litið á hann öðruvísi en sinn afa því ætíð reyndist hann þeim þannig.

Það voru mörg handtökin sem hann átti, þegar eitthvert okkar þurfti hjálp. Það var mætt með borinn og hamarinn, já, eða múrskeiðina, og aldrei var neitt talið eftir eða höndum kastað til verksins því hann var einstaklega vandvirkur og samviskusamur. Er ég keypti íbúð á Mánagötu fyrir 15 árum var ófullgert herbergi í kjallaranum. Hann unni sér ekki hvíldar fyrr en hann var búinn að gera það allt upp, frá einangrun til málningar. Sigurjón bróðir hans kom einnig að því verki og það var vel til vandað hjá þeim bræðrum. Jón var afar barngóður maður og öll börn hændust að honum. Mín börn eiga öll skemmtilegar minningar um veiði- og berjaferðir með ömmu og afa, að ógleymdum ferðunum í sumarbústaðinn.

Ég óska stjúpa mínum góðrar ferðar og efast ekki um að hann hefur nú hitt mömmu og aðra ástvini sína sem farnir eru á undan. Hafi hann að leiðarlokum hjartans þakklæti mitt fyrir allt er hann gerði fyrir mig og mína. Ég veit að hann er hvíldinni feginn.

Ég legg á stað án leiðsagnar og mals,

mér lokast hvergi vegur austanfjalls,

ég sigli hraðbyr sumarloftið blátt

í sólarátt.

Ég held sé best að hugur ráði leið.

Svo heima er lent. Ég kem um óttuskeið.

Þinn daggarsvala þreyttur þigg ég, jörð,

með þakkargjörð.

(Eiríkur Einarsson frá Hæli.)

Guð blessi minningu Jóns Guðnasonar.

Kolbrún Eiríksdóttir.

Í dag kveðjum við tengdaföður minn, Jón Guðnason.. Það væri hægt að skrifa langt mál um þann frábæra, yndislega og skemmtilega mann, en ég læt nægja að minnast hans með fáum orðum.

Það var jákvæður tengdafaðir sem tók mér opnum örmum þegar Guðni, sonur hans, kynnti mig fyrir honum. Frá þeim degi var eins og ég hefði alltaf verið í þessari góðu fjölskyldu.

Sorgin er ekki minni þótt aldurinn hafi verið hár, minningarnar koma hver af annarri og allar eru þær góðar og skemmtilegar. Margar sagði Jón sögurnar frá Jaðri þar sem hann ólst upp. Ein af þeim var þegar Jón keypti fyrir fyrstu launin sín hestinn Lýsing sem hann var afar stoltur af. Jón gaf föður sínum hestinn þegar hann flutti til Reykjavíkur . Einnig skemmtilegar sögur um það hvernig hann náði oft við erfiðar aðstæður laxinum upp úr Hvítá með ótrúlegum hætti. Og síðan hvernig hann og Sigurjón reyndu með sér í klifri í Hrafnabjörgunum við Hvítá.

Síðastliðið sumar fórum við Guðni með þeim hjónum að Jaðri og í þeirri ferð var rifjað upp margt skemmtilegt. Við fengum leyfi til að keyra inn fyrir Jaðar á móts við Nautavíkina. Þar dreif sá gamli sig út úr bílnum og virtist vera léttari á fæti en nokkru sinni. Benti okkur með stolti á helstu kennileiti og sagði gamlar sögur. Ég var heppin að fá að kynnast þessum yndislega manni en á þeim stutta tíma var hlegið, mikið spjallað og hafði Jón gaman af að fara með ljóð og gátur frá liðinni tíð. Jón var afar stoltur af börnum sínum sem hann dáði af einlægni. Hann gerði allt fyrir alla og þau eru ófá handtökin sem Jón hafði fyrir vini og ættingja. En hann vildi aldrei tala um þau því ekkert var sjálfsagðara og mátti hann ekkert aumt sjá.

Er ég hugsa til Nonna koma upp í hugann miklir mannkostir hans svo sem vandvirkni, rík kímnigáfa, trúmennska, hjálpsemi og heiðarleiki. Aldrei heyrði ég hana tala illa um nokkra manneskju.

Mikið erum við Guðni glöð að hafa eytt síðustu jólum með ykkur, Nonna og Stebbu, en þau jól verða okkur ógleymanleg. Hvað við hlógum og höfðum gaman. Þegar leiðir skiljast er mér efst í huga ómælt þakklæti fyrir vináttu og fyrir að hafa fengið að kynnast þessum stórbrotnu góðu hjónum og þakka fyrir allar ljúfu minningarnar. Guð blessi minningu Jóns Guðnasonar.

Guðbjörg Gylfadóttir.

Jón tengdafaðir minn er nú látinn. Fyrir stuttu lést Stefanía eiginkona hans til nærri 60 ára. Eins og gengur og gerist þá eignast flestir tengdaforeldra um leið þeir eignast maka. Oft er gert grín að því í skopsögum hvað samskipti við tengdaforeldra geta verið brösótt. Síðan ég kynntist Jóni og Stefaníu fyrir um það bil 35 árum síðan þá man ég ekki eftir að okkur hafi nokkurn tíma orðið sundurorða. Jón var einstaklega þolinmóður maður og gott að leita til hans. Hann var múrari að mennt og leitaði ég oft til hans um tæknileg atriði þegar ég fór að byggja. Þrátt fyrir að Jón væri sjálfur í fullri vinnu þá stóð ekki á því að hann legði hönd á plóginn í frítíma sínum, ekki bara hjá okkur Kristínu heldur öllum sem til hans leituðu. Við áttum margar ánægjustundir saman í múrverkinu, hlóðum saman vikurveggi og einangruðum með steinull. Alltaf var stutt í grínið hjá Jóni og mest hafði hann gaman af að spjalla um stangaveiði og segja skopsögur á milli.

Ég var Jóni afar þakklátur fyrir aðstoðina við bygginguna, en þolinmæði hans og manngæska laðaði einnig að honum börnin okkar. Þau eru enn í dag að rifja upp skemmtilegar samverustundir hjá afa og ömmu. Jón og Stefanía voru afskapleg hjálpleg við umönnun barna okkar og sérstaklega á meðan fatlaður sonur okkar hjóna var enn á lífi þá voru þau alltaf boðin og búin að hjálpa til og erum við þeim innilega þakklát fyrir það. Jón var sannur afi og öll barnabörn hans hafa örugglega sömu sögu að segja. Hann gaf sér tíma til að segja sögur, mata á matmálstímum og spila eins og sannur afi á að gera.

Jón hafði mikið gaman af stangveiði. Ég á honum það að þakka að hafa endurnýjað veiðieðlið í mér. Þegar ég var strákur stalst ég niður á höfn í Keflavík og veiddi þar marhnút mér til mikillar ánægju. Síðan liðu mörg á og þegar ég varð hluti af fjölskyldu Jóns gaf hann mér veiðistöng og bauð mér til veiða í Blöndu. Það voru ævintýralegar ferðir sem skópu margar ánægjulegar samverustundir. Alltaf gátum við rifjað upp þessar ferðir þegar við hittumst. Þessir veiðitúrar urðu til þess að við Kristín höfum átt sameiginlegt áhugamál til þessa dags, sem er stangveiðin. Síðari árin, eftir að Jón var hættur að geta farið einn, fórum við stundum saman í Elliðaárnar. Þó að við værum nú ekki miklar veiðiklær þar þá nutum við þess að reyna. Alltaf höfðu þau Jón og Stefanía gaman af að heyra veiðisögur úr veiðitúrum okkar Kristínar og var sjálfvirk tilkynningaskylda í gangi þegar vel gekk. Þegar ég hitti svo Jón á dánarbeðnum þá var hann samur við sig og hóf að spyrja um veiðitúr sem við vorum nýkomin úr. Ég er ekki frá því að ég sæi glampa í augunum á honum þegar umræðuefnið snerist að veiðinni, þrátt fyrir mikil veikindi. Hann var samur við sig fram í lokin.

Mér hefur hlotnast mikil gæfa að hafa átt þau Jón og Stefaníu að sem tengdaforeldra, vini, veiðifélaga og hjálparhellur. Jákvæðar minningar um allar góðu samverustundirnar munu lifa lengi.

Gísli Vilhjálmsson.

Ég var vart sest niður á rósótta bekkinn við rúmið ykkar þegar amma arfleiddi mig að fölbleika skartgripaskríninu sínu sem ég var svo hrifin af. Amma var mjög lasin og þú varst frekar slappur líka. Fyrst þá áttaði ég mig á því að kannski væri ekki svo langt þangað til þið færuð frá okkur. Samstundis bægði ég þeirri hugsun frá því ég var engan veginn tilbúin að kveðja ykkur og nú þegar þið eruð bæði sofnuð hinum langa ljúfa svefni þá er ég alveg jafn óreiðubúin og þá, nokkrum árum síðar, að kveðja þig líkt og ömmu í hinsta sinn.

Í gamla daga þegar ég var í pössun hjá ykkur ömmu var þolinmæði þín óviðjafnanleg. Mér fannst svo voðalega gaman að spila og stundum spilaðirðu við mig í margar klukkustundir í senn. Ég var alveg svakaleg í rommý og vann yfirleitt með þvílíkum yfirburðum en núna þegar ég lít til baka grunar mig að að þú hafir e.t.v. laumað nokkrum tvistum til mín þegar ég sá ekki til, enda varstu besti afi í heimi.

Ein eftirminnilegasta afmælisgjöf sem ég hef nokkurn tíma fengið var frá þér elsku afi minn. Ég á hana enn þann dag í dag. Mamma mín geymir hana reyndar fyrir mig. Hún er í eldhúsinu, hjá hinum pönnunum og pottunum. Þú gafst mér pínulitla steikarpönnu, sem var einmitt sniðin fyrir eitt egg. Því spæld egg voru í svo miklu uppáhaldi hjá mér. Þú hugsaðir alltaf svo vel um mig og Sindra. Gerðir allt sem í þínu valdi stóð til að okkur liði vel. Jafnvel lagðirðu á þig að koma ofan í mig fiskmeti í Goðheimunum. Stappaðir saman fiskinn og kartöflurnar og bjóst til lítið hús og á meðan sagðir þú mér sögur af kisunum í sveitinni sem ég bý að alla ævi og get svo sagt börnum mínum þegar þau vilja ekki borða fiskinn sinn í framtíðinni.

En umfram allt mun ég ætíð muna hversu innilega góður maður þú varst og ég er svo þakklát fyrir hvað þú varst lengi hjá okkur. Ég veit að nú þegar amma hefur sótt þig til sín líður þér vel. Þú óskaðir þess heitast að fá að liggja við hlið hennar um alla eilífð. Ég er sorgmædd yfir missi mínum en um leið hlýnar mér um hjartaræturnar að vita til þess að nú eru tvær kærar sálir saman á ný á góðum stað.

Einhvern tíma las ég að „þeir deyja ungir sem guðirnir elska“. Ég tel að þeir sem lifi lengst séu þeir sem mannkynið þarf mest á að halda. Við þurftum svo sannarlega á þér að halda afi minn. Þú hefur hjálpað svo mörgum, bæði fjölskyldu og vinum og alltaf verið til staðar með útrétta hönd. Ég mun alltaf sakna þín.

Hvíl í friði elsku hjartans afi minn.

Anna Ýr.

Hann afi minn er dáinn, aðeins 10 vikum eftir fráfall ömmu. Hann saknaði hennar svo mikið eins og við öll hin. Nú eru þau saman aftur á fallegum og góðum stað. Þau voru mér svo miklu meira en bara afi og amma. Í Goðheimunum var lengi mitt annað heimili og þaðan á ég margar mínar bestu æskuminningar. Þar leið mér alltaf vel.

Með afa og ömmu fór ég fyrstu veiðiferðirnar. Ég stóð sjálfan mig að því í fyrrasumar að leita að litlu vatni að fjallabaki sem við tjölduðum við og veiddum tugi silunga á einni helgi. Ég fann ekki vatnið, enda best að geyma það með minningunni um afa minn og ömmu. Ferðirnar voru margar og allar skemmtilegar. Með þeim fór ég í fyrsta skipti hringveginn. Afi sagði okkur guttunum hvað fjöllin og bæirnir sem við ókum framhjá hétu. Þegar ég keyri um á þessum slóðum í dag, áratugum síðar, rifjast þessi nöfn upp fyrir mér. Þarna fékk ég áhugann á að ferðast um fallega landið okkar og að bera virðingu fyrir náttúrunni.

Með þeim fór ég líka í mína fyrstu utanlandsferð. Það var til Kaupmannahafnar. Ég hef komið þangað ótal sinnum síðan en alltaf kemur þessi ferð fyrst upp í hugann.

Afi kenndi mér annað sem síðan hefur fylgt mér, það var að tefla. Það þarf þolinmæði til að kenna smáguttum skák. Þá þolinmæði hafði afi. Hann var einstaklega barngóður. Afi og amma voru eins og afar og ömmur eiga að vera, eins og þau eru í bestu sögum. Elsku afi og amma ég þakka fyrir mig. Ég á engin orð til að tjá allt það þakklæti sem er í huga mínum. Allt sem þið gerðuð fyrir mig mun fylgja mér alla ævi og ég mun aldrei gleyma ykkur.

Óskar.