Eftir Hlyn Orra Stefánsson hlynurorri@mbl.is SKULDIR Björgólfs Thors Björgólfssonar og tengdra aðila við Glitni og Arion banka nema samtals um 13,5 milljörðum íslenskra króna, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.

Eftir Hlyn Orra Stefánsson

hlynurorri@mbl.is

SKULDIR Björgólfs Thors Björgólfssonar og tengdra aðila við Glitni og Arion banka nema samtals um 13,5 milljörðum íslenskra króna, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Skuldin við Glitni er um 8,5 milljarðar en skuldin við Arion rúmir fimm milljarðar.

Eins og fram kom í greinargerð og yfirlýsingu sem Björgólfur Thor sendi frá sér í fyrradag nema skuldir hans og tendgra aðila við Landsbankann og Straum rúmum 128 milljörðum króna.

Þá eru ótaldar erlendar skuldir Björgólfs og félaga hans. Í frétt Reuters fyrr á árinu sagði að skuld við hinn þýska Deutsche Bank vegna yfirtöku Novators, félags Björgólfs Thors, á Actavis næmi rúmum fjórum milljörðum evra, sem í dag gera um 700 milljarðar íslenskra króna.

Talsvert hefur verið fjallað um áðurnefnda skuld Björgólfs við Arion. Nýja Kaupþing, eins og bankinn hét þá, krafðist þess á síðasta ári að feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor greiddu bankanum skuldina, sem þeir eru í persónulegri ábyrgð fyrir og nam þá um 4,9 milljörðum króna auk dráttarvaxta.

Í umfjöllun fjölmiðla um skuldina var fullyrt að hún væri komin til vegna kaupa Samsonar, eignarhaldsfélags þeirra feðga, á hlut í Landsbankanum árið 2003. Þeim fullyrðingum var í fyrstu ekki mótmælt, en kvittanir sem Morgunblaðið fékk í hendur í síðasta mánuði sýna að Samson greiddi í apríl árið 2005 lánið vegna þeirra kaupa.