Hólmfríður Pálmadóttir fæddist hinn 28. ágúst árið 1919 í Árbakka í Glerárþorpi á Akureyri. Hún lést á Hrafnistu Reykjavík 11. apríl síðastliðinn.

Hún var dóttir Pálma Gíslasonar frá Hrísgerði í Fnjóskadal og Sigrúnar Sigurðardóttur frá Hraunshöfða í Öxnadal. Pálmi starfaði sem farkennari og Sigrún var húsmóðir. Alsystkini Hólmfríðar voru Jónína Sigrún Pálmadóttir og Gísli Kristján Pálmason, sammæðra átti hún bróðurinn Hilmar Steingrímsson og samfeðra átti hún systkinin Sigurð Pálmason og Sigurlínu Pálmadóttur. Pálmi faðir Hólmfríðar lést er hún var á fyrsta ári, fósturfaðir hennar hét Steingrímur Júlíus Sigvaldason.

Hólmfríður fór 15 ára gömul í vist vestur á Drangsnes á Ströndum. Þar kynntist hún lífsförunaut sínum og eiginmanni, Einari Jónssyni, f. 14. júlí 1914, d. 18. janúar 2007. Þau eignuðust sex börn: 1) Kristjana, f. í september árið 1939, hún lést tveggja vikna gömul. 2) Steingrímur, f. 25. apríl 1941. Eiginkona hans var Inga Jóna Steingrímsdóttir, hún lést árið 2002. Steingrímur og Inga Jóna eignuðust saman einn son en fyrir átti Inga Jóna tvö börn sem Steingrímur gékk í föðurstað. Sambýliskona Steingríms er Sigrún Jóhannsdóttir. 3) Jón Kristján, f. 8. apríl 1943. Eiginkona hans er Ingibjörg Hjörvar og þau eiga tvær dætur. 4) Sigurður Pálmi, f. 18. apríl 1946. Fyrri kona hans er Gyða Jóhannesdóttir og saman eiga þau tvö börn. Seinni kona Pálma er María Teodora GeMúnoz og á hún fyrir einn son. 5) Garðar, f. 11. nóvember 1948. Eiginkona hans er Guðbjörg Bárðardóttir og eiga þau einn son. 6) Smári, f. 20. október 1950. Eiginkona hans er Bára Reynisdóttir. Saman eiga þau tvær dætur en fyrir á Bára tvö börn.

Hólmfríður starfaði alla tíð við fiskvinnslu á Drangsnesi þar sem hún bjó ásamt eiginmanni sínum til ársins 1984, en þá fluttu þau til Akureyrar. Árið 1995 fluttu þau á Hrafnistu í Reykjavík þar sem þau bjuggu til dauðadags.

Útför Hólmfríðar verður gerð í dag, miðvikudaginn 21. apríl 2010, frá Grafarvogskirkju og hefst athöfnin klukkan 13.

„Hún Fríða amma er búin að fá hvíldina,“ voru orðin sem ég heyrði þegar hringt var í mig til þess að tilkynna mér andlát elskulegrar ömmu minnar, Hólmfríðar Pálmadóttur. Ég sá ömmu mína í hinsta sinn föstudaginn 9. apríl síðastliðinn og þá vissi ég að þetta yrði líklegast í síðasta sinn sem ég sæi hana á lífi. Amma var orðin fullorðin og veik og því má með sanni segja að hún hafi fengið langþráða hvíld, södd lífdaga.

Fríðu ömmu minnist ég fyrst og fremst með afskaplega mikilli hlýju og þakklæti. Faðmurinn hennar stóð mér alltaf opinn, mjúkur, hlýr og elskandi. Þegar ég var lítill gutti hlakkaði ég alltaf mikið til að fara í ferðalag vestur á Drangsnes til ömmu og afa, því þar var alltaf svo gott að vera. Gleðin var því mikil í hjarta mínu þegar amma og afi fluttu til Akureyrar þar sem ég bjó. Var það ósjaldan sem ég hjólaði til ömmu og afa og fékk þar ískalda mjólk og nýsteiktar kleinur, það var uppáhaldið.

Oft fékk ég líka að gista hjá ömmu og afa og þá spilaði ég ýmist ólsen ólsen eða veiðimann við ömmu eða tefldi við afa. Já, amma gaf barnabörnunum sínum alltaf góðan tíma og veitti okkur óþrjótandi þolinmæði.

Eftir að ég fullorðnaðist fækkaði því miður skiptunum sem ég fór í heimsókn til gömlu hjónanna. En alltaf var samt gott og hlýtt að koma til þeirra og þau tóku ástfóstri við Erlu eiginkonu mína eftir að hún kom til sögunnar og börn okkar hjóna.

Það hefur ekki verið auðvelt líf að búa og starfa á Ströndum hér áður fyrr. Fyrsta barnið þeirra hjóna lést aðeins tveggja vikna gamalt. Það hefur verið mikill harmur fyrir ungu hjónin að bera. En í þá daga bar fólk ekki tilfinningar sínar á torg heldur bar harm sinn i hljóði. En amma lét ekki bugast og eignaðist fimm drengi eftir þetta.

Í síðasta sinn sem ég sá ömmu á lífi varð mér einmitt hugsað til þessa, þegar ég leit í blíða andlitið hennar, sem var rúnum rist eftir langa og viðburðaríka ævi. Andlitið sem var samt svo fallegt, góðlegt og hlýlegt, þá sannaðist það sem ég þegar vissi, að hún amma bjó yfir ást, von og trú sem var öllu öðru sterkari. Elsku amma, ég mun ávallt muna þig og elska. Takk fyrir að elska mig.

Guð alheims faðir, allra skjól,

þér einum lýtur jörð og sól.

Í geislum dagsins dýrð þín skín

er dimmir vakir náðin þín.

Þá minnist líkn þín lúins manns

og lætur svefninn vitja hans

og styrkja hug og hýrga brá

og hryggð og angri víkja frá.

Þinn ömmustrákur,

Gunnar Einar.

Til þín amma og tengdamamma.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Grátnir til grafar

göngum vér nú héðan,

fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.

Guð oss það gefi,

glaðir vér megum

þér síðar fylgja' í friðarskaut.

(Vald. Briem.)

Bára, Hólmfríður, Berglind og Ingibjörg.

Þegar ég lít til baka á æskuár mín er tíminn sem ég eyddi á Akureyri hjá ömmu og afa einn sá allra besti. Ég var svo lánsöm að fá að eyða páskafríum og hluta af sumarfríum mínum hjá þeim á Akureyri.

Tilhlökkunin var mikil í hvert skipti, dagarnir taldir niður og reglulega hringt í ömmu til að ákveða hvað við ætluðum nú að gera saman. Það var alltaf tvennt ákveðið sem við gerðum, það var að spila og skoða gamlar ljósmyndir. Við gátum setið tímunum saman við ljósbláa eldhúsborðið hennar í Smárahlíðinni og spilað mörg spil. Amma átti einnig fullt af gömlum ljósmyndum sem hún var alltaf til í að sýna mér og segja mér sögur af fólkinu sem á þeim var þó svo að hún hefði gert það svo oft áður að ég var farin að þylja sögurnar upp á undan henni.

Amma mín var yndisleg í alla staði og alveg ekta amma. Hún var svo mjúk og hlý, fyndin og ótrúlega þolinmóð gagnvart prakkaraskapnum í Jönu sinni. Hún var meistari í að baka og voru kökudunkarnir ávallt fullir inni í búri þegar von var á okkur systrum í heimsókn.

Elsku amma, takk kærlega fyrir alla ástúðina og góðu minningarnar sem þú veittir mér, ég mun geyma þær og þig í hjarta mínu um ókomna tíð. Við sjáumst hressar hinum megin með spilastokkinn.

Þín

Kristjana Mjöll.