Upphafstónleikar Tónleikar Óskars Guðjónssonar og hljómsveita opna Jazzhátíð í Garðabæ annað kvöld. Ómar, bróðir hans, leikur með honum og einnig Ingibjörg systir þeirra.
Upphafstónleikar Tónleikar Óskars Guðjónssonar og hljómsveita opna Jazzhátíð í Garðabæ annað kvöld. Ómar, bróðir hans, leikur með honum og einnig Ingibjörg systir þeirra.
Eftir Árna Matthíasson arnim@mbl.is JAZZHÁTÍÐ Garðabæjar hefst á morgun en hún er nú haldin í fimmta sinn.

Eftir Árna Matthíasson

arnim@mbl.is

JAZZHÁTÍÐ Garðabæjar hefst á morgun en hún er nú haldin í fimmta sinn.

Á hátíðinni er jafnan lögð sérstök áhersla á listamenn sem tengjast Garðabæ á einhvern hátt en á hátíðinni koma einnig fram fjölmargir listamenn frá öðrum bæjarfélögum. Hátíðin fer fram á þremur ólíkum tónleikastöðum; í Urðarbrunni, sal Fjölbrautaskólans í Garðabæ, í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, og í Vídalínskirkju sjálfri.

Hátíðin er haldin á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar og listrænn stjórnandi hennar er Sigurður Flosason saxófónleikari. Aðalstyrktaraðili Jazzhátíðarinnar er Íslandsbanki í Garðabæ og ókeypis er á alla tónleika.

Systkinasveifla í Urðarbrunni

Upphafstónleikar Jazzhátíðarinnar verða tónleikar Garðbæingsins Óskars Guðjónssonar og hljómsveita í Urðarbrunni, hátíðarsal Fjölbrautaskólans í Garðabæ kl. 20.30 að kvöldi sumardagsins fyrsta. Annarsvegar leikur Óskar með hljómsveit sinni, sem meðal annars er skipuð Ómari bróður hans, og hinsvegar með hljómsveitinni Mezzoforte.

þeirra Óskars og Ómars, óperusöngkonan og kórstjórinn Ingibjörg Guðjónsdóttir, kemur fram sem gestur á tónleikunum.

Stórsveit Tónlistarskóla Garðabæjar leikur í 15-20 mínútur undir stjórn Braga Vilhjálmssonar áður en formleg dagskrá hefst.

Á föstudag verða tvennir tónleikar, þeir fyrri í Jónshúsi, félags- og þjónustumiðstöð við Strikið 6, kl. 14, en þá flytur danska djasssöngkonan Cathrine Legardh vinsæla djassstandarda ásamt íslenskum meðleikurum.

Um kvöldið verða síðan tónleikar í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, kl. 20.30 og þá heldur Agnar Már Magnússon píanóleikari einleikstónleika þar sem hann blandar saman djasstandördum og eigin tónsmíðum.

Sálmar og danskur djass

Á laugardag leikur Cathrine Legardh öðru sinni með hljómsveit íslenska djassara í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, kl. 20.30.

Lokatónleikar Jazzhátíðarinnar verða svo í Vídalínskirkju á sunnudag kl. 20.30, en þá flytja Kór Vídalínskirkju og Gospelkór Jóns Vídalín ásamt gestum djassblandaða kórtónlist. Í fyrri hluta tónleikanna flytur Kór Vídalínskirkju, undir stjórn Jóhanns Baldvinssonar, ásamt saxófónleikaranum Sigurði Flosasyni sálma frá ýmsum tímum, þar á meðal nokkra nýja sálma eftir Sigurð og Aðalstein Ásberg Sigurðsson.

Á síðari hluta tónleikanna flytur Gospelkór Jóns Vídalín ásamt hljómsveit síðan hressilega gospeltónlist undir stjórn Maríu Magnúsdóttur.