Ingibjörg Sigríður Hjörleifsdóttir fæddist á Sólbakka í Önundarfirði 20. ágúst 1928. Hún lést á Fjórðungssjúkrahúsinu Ísafirði 5. apríl 2010.

Foreldrar hennar voru Gunnjóna Sigrún Jónsdóttir, frá Ytri-Veðrará í Önundarfirði, f. 7.9. 1899, d. 9.9. 1974, og Hjörleifur Guðmundsson frá Görðum á Hvilftarströnd, f. 1.10. 1896, d. 12.11. 1984.

Hjörleifur og Sigrún eignuðust 6 börn auk Ingibjargar; Hjördísi Hjörleifsdóttur, f. 25.2. 1926, Ádísi Hjörleifsdóttur, f. 21.4. 1930, Kristjönu Hjörleifsdóttur, f. 10.2. 1932, Hring Hjörleifsson, f. 30.6. 1933, d. 30.1. 2007, Finn Torfa Hjörleifsson, f. 7.11. 1936, og Örn Hjörleifsson, f. 11.9. 1939. Ingibjörg var önnur í röð systkinanna en látinn er Hringur árið 2007.

Ingibjörg giftist Hirti Kristjánssyni sjómanni í janúar 1953 og hófu þau búskap á Ísafirði og stóð heimili þeirra þar síðan meðan þau voru samvistun. Ingibjörg og Hjörtur slitu samvistum 1991. Hjörtur lést 1992. Þau eignuðust tvo syni: 1) Hrafn, f. 8.9. 1954, búsettur á Ísafirði og 2) Hjört, félagsmálastjóra á Siglufirði, f. 28.3. 1961. Hann er kvæntur Jóhönnu Jónsdóttur, f. 13.9. 1960. Börn þeirra eru Ingibjörg Sigríður, f. 23.8. 1984, Hjörtur, f. 16.3. 1988, og Hrafnhildur Jóna, f. 27.5. 1995. Fyrir hjónaband eignaðist Ingibjörg soninn Steinþór Tryggvason, f. 4.8. 1950, bónda í Kýrholti, Skagafirði. Kona hans er Sigurlaug Stefánsdóttir, f. 26.9. 1949. Börn þeirra: Arndís, f. 19.7. 1970, Stefán, f. 9.11. 1972, og Gísli, f. 6.8. 1980.

Ingibjörg ólst upp á Sólvöllum í Önundarfirði hjá foreldrum sínum til unglingsára og fór þá norður í Eyjarfjörð í vist. Fór svo í Húsmæðraskólann á Akureyri og lauk þar skólavist árið 1949.

Útför Ingibjargar fer fram frá Holtskirkju í Önundarfirði, 21. apríl 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Ingibjörg Sigríður, systir mín, er dáin. Hún var næstelst sjö systkina. Átta ára aldursmunur var á okkur, en þó urðu milli okkar sérstök tengsl þegar ég var smástrákur og hún unglingsstúlka. Mér varð snemma ljóst að hún var mjög sérstök í lund og hátterni. Það var stundum eins og hún væri ekki af þessum heimi, hún var viðutan og ef til vill svolítið hjárænuleg og hlaut fyrir það aðfinnslur. Ég fann til með henni. Áhugavert þótti mér, barninu, hve hugur hennar hneigðist að því sem fagurt var, hún unni blómum og söng. Ekki þótti mér síður merkilegt þegar ég komst að því að hún vissi í aðra heima. Hún sagði mér frá álfkonunni í urðinni fyrir ofan túnið okkar, og hún vissi hvað hún hét. Ég átti trúnað hennar þá og oft síðar.

Inga systir hlaut litla skólamenntun í því sem hugur hennar hneigðist til. Hlutskipti hennar var að leitast við að þroska andlega hæfileika sína í efnisheimi sem oft var harður og sljór. Hún orti ljóð, samdi lög, óf og málaði myndverk. Árið 1992 kom út lagasafn henna. Ljósbrot, einsöngslög, kórverk og píanólög. Ljóðabók hennar, Glóey, kom út 2004. Sú bók er reyndar meira en ljóðakver, því að þar er kafli sem nefnist Fjöll Íslands í ljósi andans. Þar var ortur kærleikur hennar til Íslands fjalla, sem vitruðust henni í einhvers konar fjarsýn. Þar er einnig að finna sýnishorn af málverkum hennar, m.a. mynd af indíánastúlkunni, sem Ingu var hugleikin.

Í bókinni Glóey er eftirmáli eftir Helga Hallgrímsson náttúrufræðing. Þar segir hann í lokin: „Skyggnt fólk getur séð eða skynjað hin ýmsu svið alheimsins sem flestum eru dulin. Tími og rúm eru því engin hindrun. Það getur kynnst persónum, lífs og liðnum, sem hafa visku að miðla. Dæmi um það er indíánastúlkan sem Ingibjörg hefur lýst í ljóði, litum og tónum. Boðskapur hennar á brýnt erindi til nútímamanna. Sá boðskapur kristallast reyndar í allri listsköpun Ingibjargar.

Mér þykir við hæfi að birta hér eitt ljóð Ingibjargar, Hvíta kaktusblómið.

Indíánastúlkan mín.

Af kristalfleti sálar hennar

stafar mikið og fagurt geislaflóð.

Sál hennar er fögur

sem heiður himinninn,

kyrr sem sléttur flötur vatnsins.

Kærleikur hennar er

sem geislar sólarinnar.

Inga systir elskaði landið okkar. Heita ást bar hún til átthaganna í Önundarfirði. Hún var líka ættfróð og kunni að miðla öðrum glögglega sögnum af frændfólki okkar, lífs og liðnu. Hún verður í dag borin til grafar í Holti í Önundarfirði þar sem foreldrar okkar og móðurafi og amma hvíla. Hvíli hún í friði.

Finnur Torfi Hjörleifsson.

Föðursystir mín Ingibjörg Hjörleifsdóttir, Inga frænka, er látin. Inga var næstelst systkinanna sjö frá Sólvöllum í Önundarfirði en pabbi minn er þeirra næstyngstur. Á Sólvöllum sleit Inga barnsskónum en lengst af bjó hún á Ísafirði.

Inga frænka hélt á mér undir skírn og tók guðmóðurhlutverk sitt ætíð hátíðlega. Sem krakki og unglingur dvaldi ég oft á Ísafirði og heimsótti þá ætíð Ingu frænku. Mín fyrsta minning af henni er frá því ég var á fimmta ári og Inga og Hjörtur fóru með mig yfir í Önundarfjörð að heimsækja afa á Sólvöllum. Þannig á ég Ingu að þakka að eiga minningar frá Sólvöllum áður en afi fór þaðan alfarinn. Á síðari árum urðu ferðirnar vestur færri og því lengra á milli okkar funda. Síðast hitti ég Ingu þegar við fórum fjórar úr fjölskyldunni vestur sumarið 2006. Þá tók Inga á móti okkur á Bjargi hin hressasta. Stuttu síðar varð hún fyrir því óhappi að brotna og leggjast inn á sjúkrahús. Hún átti ekki afturkvæmt heim eftir það.

Inga var mikil smekkmanneskja og listfeng. Heimili hennar á Bjargi við Seljalandsveg bar þess merki að þar bjó kona sem naut þess að hafa fallega hluti í kringum sig og hafði auga fyrir gersemum fyrri tíma. Það sama má segja um garðinn sem Inga lagði mikla vinnu í að halda sem fallegustum. Húsið og garðurinn voru hennar stolt og henni ávallt til sóma. Sem lítil stelpa var ég næstum pínu smeyk við Ingu og allt þetta fínirí. Hún gat líka verið svolítið ströng, vildi að maður sæti fallega og bæri sig vel. Þegar ég eltist naut ég þess að heimsækja Ingu og berja alla dýrgripina augum.

Inga var alltaf vel til fara og glæsileg. Ég hef séð á myndum að hún var gullfalleg ung stúlka en hún var ekki síður glæsileg fullorðin kona og hélt sér alltaf vel til. Mér er t.d. minnisstætt þegar Arndís, sonardóttir hennar, útskrifaðist sem tónmenntakennari fyrir rúmum tíu árum og Inga kom suður í útskriftarveisluna. Hún var að vanda vel til höfð, klædd í fallega aðsniðna svarta dragt og var allra kvenna glæsilegust í veislunni þó að orðin væri sjötug.

Í dag, síðasta vetrardag, verður Inga frænka kvödd frá Holti í Önundarfirði. Ferðinni lýkur ekki langt frá þeim stað þar sem fyrstu sporin voru tekin fyrir rúmum 80 árum. Því miður kemst ég ekki til að fylgja Ingu síðasta spölinn en hugurinn verður með fjölskyldunni fyrir vestan. Ingu, frænku minnar, minnist ég með þakklæti fyrir allt það góða sem hún lagði mér til í gegnum árin. Frændum mínum Steinþóri, Hrafni og Hirti og þeirra fjölskyldum sendi ég samúðarkveðjur.

Glóey Finnsdóttir.