Eldgos Það gýs af krafti í Eyjafjallajökli. Um framhaldið veit enginn en ummæli forseta Íslands um að Kötlugos sé ekki ólíklegt valda titringi.
Eldgos Það gýs af krafti í Eyjafjallajökli. Um framhaldið veit enginn en ummæli forseta Íslands um að Kötlugos sé ekki ólíklegt valda titringi. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skjálfti greip um sig vegna þeirra ummæla forseta Íslands að Kötlugos væri líklegt. Mikill skaði fyrir ferðaþjónustuna, var sagt. Ísland ekki hættulegt heim að sækja, sagði fjármálaráðherra á Alþingi í gær.

Eftir Sigurð Boga Sævarsson

og Unu Sighvatsdóttur

„UMMÆLI forsetans koma á óheppilegum tíma, nú þegar margir eru að taka ákvörðun um hvert skuli haldið í sumarleyfinu,“ segir Áslaug Pálsdóttir framkvæmdastjóri AP-almannatengsla. Gríðarleg viðbrögð hafa verið við ummælum forseta Íslands á BBC í fyrrakvöld um hugsanlegt Kötlugos og að umbrotin í Eyjafjallajökli séu lítið annað en æfing.

„Ég tel okkur hafa lært að náttúruöflin á þessum landshluta, jökulhlaup og eldfjöllin geti staðið lengi og valdið nútímasamfélaginu miklum skaða. Því miður kann það sem við höfum upplifað undanfarna daga aðeins að reynast byrjunin,“ sagði forseti Íslands í viðtalinu sem í gærdag var næstmest skoðaða fréttin á vefsetri BBC.

Reynt að lágmarka tjón

Yfirvöld og ferðaþjónustan lögðu í gær allt kapp á að koma þeim upplýsingum skýrt á framfæri að hætta á Kötlugosi væri ekki yfirvofandi. Haldnir voru neyðarfundir vegna ummæla forsetans í þeim tilgangi að bæta skaðann og lágmarka tjónið sem þegar er orðið. Stjórnsýslan var virkjuð og skilaboð send til ráðuneyta, sendiráða Íslands erlendis og stóru ferðaþjónustufyrirtækjanna. Stjórnandi eins þeirra sagði að afleiðingarnar af ummælum forsetans væru hrikalegar, þýddu nánast sölustopp og afbókunum rigndi inn.

Mikið álag var í samhæfingarmiðstöð Almannavarna í kjölfar viðtalsins þar sem fyrirspurnir streymdu inn bæði frá erlendum almannavarnastofnunum og jarðvísindastofnunum um hvort Kötlugos væri í vændum.

Fjölmiðlar ekki rétta leiðin

Fjölmiðlaráðgjafar og fleiri komu að starfinu í samhæfingarmiðstöðinni, þaðan sem fengust þær upplýsingar að mikil áhersla hefði í gær verið lögð á að leiðrétta misskilning, en ótti við frekari hamfarir virðist hafa skotið föstum rótum vegna ummæla forsetans. Almannavarnir hafa unnið að því í samvinnu við utanríkisráðuneytið, Ferðamálastofu og Útflutningsráð að veita réttar upplýsingar um gosið og áhrif þess.

„Auðvitað er mikilvægt að ekki sé legið á upplýsingum og þekkingu, til dæmis um það meðal annars að eldsumbrotin eystra séu hugsanlega aðeins upphaf að öðru og meira. Ég efast hins vegar um að fjölmiðlar séu rétti vettvangurinn í þessu tilviki. Aðrar boðleiðir hefðu hentað betur,“ segir Áslaug Pálsdóttir.

Óheppilegt að skapa hræðslu

Ummæli forseta Íslands voru rædd á Alþingi í gær að tilhlutan ríkisstjórnarinnar. Þar sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, að mikilvægt væri að leggja á það áherslu út á við að hlutirnir á Íslandi gengju eðlilega fyrir sig ef undan væri skilið áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli þar sem ástandið væri vissulega alvarlegt. Það væri óheppilegt að sköpuð væri hræðsla með til dæmis vangaveltum um mögulegt Kötlugos.

„Skilaboðin til umheimsins eiga að vera þau, að hér sé full stjórn á öllu, sem mannlegur máttur fær við ráðið. Við megum ekki draga upp þá mynd af landinu út á við að Ísland sé hættulegt land að heimsækja. Það er óþarfi að fjölyrða um hve neikvæð og alvarleg áhrif það getur haft, til dæmis á okkar ferðaþjónustu og fleiri atvinnugreinar og hagsmuni landsins alls,“ sagði Steingrímur á Alþingi. Mál íbúa á áhrifasvæði eldgossins voru einnig rædd á ríkisstjórnarfundi í gær og þar lögð áhersla á að þeim yrði veitt sálgæsla og stuðningur eftir atvikum. Þá verður Viðlagasjóði og Bjargráðasjóði veitt aukið fé.

Reynum að senda skýr skilaboð

„Undanfarna daga hefur í erlendum fjölmiðlum birst fjöldi óheppilegra frétta,“ segir Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri. „Komið hafa myndir af bílum með ösku á sem sagðir eru vera í Reykjavík og við höfum brugðist við með því að fá slíkar myndir leiðréttar og það hefur gengið vel. Við reynum að senda skýr skilaboð til fjölmiðla.“

Hvað ummæli forsetans áhrærir segir hún tímann munu leiða áhrifin í ljós. „Þessi framsetning er óheppileg og ekki í anda þess sem við höfum lagt áherslu á sem er það að veita hlutlausar upplýsingar og yfirvegaðar og láta vísindamenn um að tjá sig um það sem snýr að jarðvísindum. Ísland er eldfjallaeyja sem þýðir að stundum koma hér eldgos. Þrátt fyrir það er mjög mikilvægt að benda á að eitt eldgos þarf ekki endilega að kalla á annað. Það getur auðvitað allt gerst, en það er engin ástæða fyrir okkur að mála það á vegginn að hættan sé yfirvofandi, nú þegar orð vísindamanna benda til annars,“ segir Ólöf Ýrr Atladóttir.