Jakob Fenger trésmiður fæddist í Reykjavík 24. febrúar 1952. Hann fórst er hann var að ferja skútu frá Miami í Flórída til Íslands í júní 2008.

Foreldrar hans voru Kristín Finnsdóttir Fenger sjúkraþjálfari frá Hvilft í Önundarfirði, f. 30.10. 1925, d. 14.12. 1998, og Garðar Emil Fenger stórkaupmaður úr Reykjavík, f. 2.10. 1921, d. 2.11. 1992.

Systkini Jakobs eru Kristjana Fenger, f. 16.2. 1951, í sambúð með Þórði Haukssyni, Emil Fenger, f. 21.4. 1953, d. 1.1. 1984, giftur Ástu Böðvarsdóttur, og Hjördís Fenger, f. 20.10. 1957, í sambúð með Bjarna Hákonarsyni.

Börn Jakobs eru: 1) Ylfa Edith Jakobsdóttir, f. 22.2. 1971, gift Haraldi Teitssyni, börn þeirra eru Hera, f. 2005, og Úlfar, f. 2007. Móðir Ylfu er Helga Mogensen, fyrrverandi eiginkona Jakobs. 2) Olga Hörn Fenger, f. 12.5. 1978, barn hennar er Kolka Fenger, f. 2008, og 3) Emil J. Fenger, f. 10.2. 1986, í sambúð með Ásgerði Egilsdóttur. Móðir Olgu og Emils er Gunnhildur Emilsdóttir, fyrrverandi sambýliskona Jakobs.

Jakob ólst upp hjá fjölskyldu sinni í Reykjavík, fyrst í húsi föðurömmu sinnar á Öldugötu 19 og síðar í foreldrahúsum í Hvassaleiti 67 á meðan það hverfi var að byggjast upp. Nokkur sumur dvaldi fjölskyldan í sumarbústað föðurfjölskyldunnar í Kópavogi og einnig í veiðihúsinu Skugga við Grímsá í Borgarfirði. Á fullorðinsárum bjó Jakob lengst af í Reykjavík en einnig í Kaupmannahöfn, í Ólafsvík og á Búðum á Snæfellsnesi, en hann rak þar hótelið ásamt nokkrum vinum sínum um árabil.

Jakob gekk í Vesturbæjarskóla, Melaskóla, Hlíðaskóla, Iðnskólann í Reykjavík og arkitektaskóla í Kaupmannahöfn. Starfsreynsla hans er víðtæk en lengst af starfaði hann við smíðar og átti eigið smíðaverkstæði við Skólastræti og síðar úti í Örfirisey. Skemmtilegust fannst honum viðfangsefnin sem gerðu kröfu um hönnun, útsjónarsemi og efnisþekkingu, s.s. að sérsmíða stiga, gera upp gömul hús, hanna og smíða innréttingar í búðir og bari og smíða leikmyndir í kvikmyndir. Einnig starfaði Jakob sem ungur maður við landmælingar og síðar við sjómennsku.

Megináhugamál Jakobs voru skútusiglingar og sótti hans sér ýmis réttindi á því sviði m.a. til úthafssiglinga. Hann var mikill grúskari og aflaði sér víðtækrar þekkingar á öllu sem hann hafði áhuga á og tók sér fyrir hendur. Jakob átti skútuna Black Bear frá Kanada í nokkur ár og sigldi á henni um þrjár heimsálfur, bæði einn og með fjölskyldu sinni. Hann eignaðist síðar eikarbát sem hann var að vinna við að gera upp.

Minningarathöfn um Jakob fer fram í Neskirkju miðvikudaginn 21. apríl kl. 15.

Elsku pabbi.

Sá dagur líður vart að þú sért ekki í huga mér. Nú þegar komið er að kveðjustund langar mig að minnast þín og þess sem ég er þakklátust fyrir, það sem einkenndi þig í huga mér og það sem mér þótti einna vænst um í fari þínu. Ein af æskuminningum mínum tengist umhyggju þinni, t.d. þegar ég var lasin og þú flóaðir handa mér mjólk, það var notalegt. Þú gafst heimsins bestu faðmlög, svo hlý og þétt. Ég minnist einlægs hláturs þíns og glettni. Aðrar minningar tengjast fjölmörgum samræðum sem við áttum, heimspekilegum umræðum um betra samfélag, heimsmynd og mannlega hegðun. Áhugi þinn á klassískri tónlist, bókmenntum og kvikmyndum var mikill. Ást þín á náttúrunni, dýrum, ferðalögum, að kanna heiminn, kynnast fólki og framandi menningu var ótvíræð. Ég minnist lestarferðalags okkar til Hollands og Frakklands, einnig að fá að sigla með þér í Miðjarðarhafinu. Þú varst forvitinn að eðlisfari, grúskari og mikill ævintýramaður. Þú varst maður andstæðna, oftar en ekki ríkti eldmóðurinn og ástríðan sem endurspeglaðist í atorkusemi, s.s. reglulegum hlaupum, smíðum eigin kajaks og sumarbústaðar, þú lagaðir skútur og gerðir upp bátinn þinn svo eitthvað sé nefnt. Frásögur þínar voru lifandi, t.d. þegar ég var lítil sagðir þú sögur tengdar veiði og sjómennsku, hvernig öldurnar voru margra metra háar og slíkt. Síðari frásögur tengdust störfum þínum, stolti þínu yfir flóknum stigasmíðum og sviðsmyndum í kvikmyndum. Þær voru að sjálfsögðu ófáar sögurnar tengdar ástríðu þinni á siglingum um heimsins höf, lýsing á frelsistilfinningunni við að sigla upp í storminn með sinfóníur stilltar í botn. Ég dáist að hugrekki þínu að sigla einn þvert yfir úthöfin.

Dóttir mín smíðaði bát á leikskólanum sínum sem hún nefndi „Afi Jakob“. Hún saknar þín mikið, talar oft um þig. Barnabörn þín áttu óskipta athygli og ást þína þegar þú varst nálægt þeim. Ég syrgi þá staðreynd að börnin mín fái ekki að vera oftar með afa Jakob og að samverustundir okkar verði ekki fleiri.

Að geta ekki kvatt þig almennilega, að hafa ekki vitað um afdrif þín, fá að sjá þig í hinsta sinn, allur biðtíminn í von og óvon. Hafa ekki getað haldið athöfn fyrr en nú hefur verið sérstakur og erfiður tími. En nú er loks komið að því að kveðja með formlegum hætti, fá að loka og það er mikill léttir. Ég er sérstaklega þakklát fyrir síðasta símtal okkar. Það síðasta sem þú sagðir er eitt það dýmætasta sem maður heyrir frá ástvini sínum; ég elska þig. Slíkt er ómetanlegt. Takk fyrir allt, pabbi minn, megi almættið blessa þig og umvefja.

Þín dóttir,

Ylfa.

Hrikalega finnst mér erfitt að sitja hérna inni í stofu í húsinu okkar og vera að skrifa minningargrein um þig, á stað sem ég vonaðist til að við gætum setið saman og átt góðar stundir saman í framtíðinni. Það sem ég minnist mest eru öll þau ævintýri sem við áttum saman á ferðalögum okkar um heiminn. Þó stendur ein minning upp úr, þegar við sigldum hafanna á milli alla leiðina frá Kanada til Tyrklands og eru ófáar minningar þaðan, bæði góðar og slæmar – en þó mest góðar. Sjáumst seinna, þinn sonur,

Emil J. Fenger.

Síðasta siglingin og ekki aftur snúið. Ævintýrið sem engan endi tók. Marga ölduna hafði Jakob siglt á lífsleið sinni, ýmist á lygnum sjó í sólskini eða í stórsjó og veðraham. Hann fann alltaf leiðina heim en ekki í þetta sinn. Hann talaði um að komast sem fyrst heim til að líta nýjasta barnabarnið augum, en það fæddist á meðan hann dvaldi í Flórída við að koma skútunni, sem hann ætlaði að ferja heim, í sjófært ástand. Framtíðarsýn hans var að lifa í 15 ár og njóta barna, barnabarna og samvista við vinkonu sína, en ekki fer allt sem ætlað er.

Minningarnar lifa og ylja. Persónuleika Jakobs mátti sjá strax í æsku. Hann var rólegur, brosmildur og sjálfum sér nógur. Hann dundaði sér við að taka hluti í sundur og setja saman aftur, finna út hvernig gangverkið var, grúska. Hann var hjálpsamur og gjafmildur og hafði gaman af fólki en var þó einfari. Hann undi sér ekki vel í skóla en unni tónlist og lærði á klarínett og spilaði í lúðrasveit. Unglingurinn braust svo út með látum, foreldrum okkar til armæðu. Hann varð trymbill í hljómsveit, safnaði hári, djammaði, hætti í skóla, vann ýmis störf og ferðaðist m.a. um England á mótorhjóli. Átján ára varð hann faðir. Fengu foreldrar okkar að taka þátt í vegferð litlu fjölskyldunnar hans.

Sú vinna sem honum var hugleiknust frá þeim tíma er hann var ungur maður voru landmælingar. Hann bjó alla ævi að því sem hann lærði í þeirri vinnu, bæði er hann fór í innanhússarkitektúr til Kaupmannahafnar og er hann hannaði og smíðaði stiga eða leiktjöld fyrir kvikmyndir síðar á lífsleiðinni eða flutti eða gerði upp gömul hús.

Þrátt fyrir að Jakob skreytti sig ekki með prófgráðum var hann víðlesinn og aldrei var komið að tómum kofunum hjá honum. Hann sökkti sér niður í allt sem fangaði áhuga hans og kom það sér vel þegar hann lét skútudraum sinn rætast. Þá hafði hann undirbúið sig í mörg ár, skoðað teikningar af skútum, þekkti til efnis, forms og eiginleika ólíkra gerða og vissi hvað hann vildi. Hann tók hvert námskeiðið á fætur öðru í Sjómannaskólanum til að öðlast réttindi til úthafssiglinga. Hann leitaði á netinu að óskaskútunni og fann hana í Halifax í Kanada, það var Black Bear, með svartan bol og dökkbrún segl, glæsilegt fley.

Nú varð ekki aftur snúið. Jakob kynnti sér hafstrauma áður en lagt var í hann, hvaða veður ríktu á því svæði sem hann ætlaði að sigla um, skiptaumferð og hvaða árstími hentaði best til siglinga um svæðið. Hann átti alls kyns tæki og tól því hann var þúsundþjalasmiður sem gat oftast bjargað sér. Stundum ferðaðist hann einn en oftast var einhver úr fjölskyldu hans með í för, oftast Gunnhildur og Emil en einnig Olga og Ylfa og jafnvel eitt sinn kettlingur. Þessar ferðir þeirra voru uppspretta margra sagna um baráttu við náttúruöflin og samhljóm með þeim, sögur af höfrungum og fuglum sem fylgdu bátnum og klassískum tónverkum sem voru spiluð á fullum styrk fyrir menn og dýr í takt við öldugjálfur.

Náttúruunnandinn og völundurinn Jakob hefur siglt á vit feðra sinna. Farðu í friði.

Kristjana.

Jakob bróðir kvaddi með þeim orðum að hann hlakkaði mikið til að koma heim aftur og sjá litla barnabarnið sitt sem dóttir hans Olga átti von á. Hann var þá á leið í ferðina örlagaríku sem varð hans hinsta. Það síðasta frá honum var sms-svar sem ég fékk eftir að ég óskaði honum til hamingju með nýja barnbarnið hans hana Kolku. Þar sagði hann: „Stoltur afinn.“ Hann sá stúlkuna aldrei.

Jakob fannst mér skapgóður maður og í senn meiningafastur. Hann hafði sterka réttlætiskennd. Umhyggjusamur, hlýr, bóngóður, athugull, glaður og brosmildur bróðir sem var aldrei pirraður við mig á hverju sem gekk. Alltaf viljugur að hugga og leika við litlu systur og hafa ofan af fyrir henni ef foreldrar okkar skruppu út að kvöldi eða fór glaður með mig í tækin í Tívolí í Kaupmannahöfn í fjölskylduferð. Þegar börnin hans voru í foreldrareknum leikskóla vildi hann miklu frekar leysa af meðan á starfsmannafundum stóð með því að njóta samvista við leikskólabörnin heldur en að taka að sér rekstrarhliðina. Þá hikaði hann ekki við að taka sér stund frá vinnu til að aðstoða með dætur mínar ef þannig stóð á.

Handverk voru hans ær og kýr. Handlaginn vandvirkur listasmiður sem fundust flókin erfið verk bæði ögrun og skemmtun. Þar nýttist frjótt ímyndunarafl hans sín vel til að móta lausnir, í verk eins og fínleg snúin handrið og bogadregna veggi. Jakob smíðaði marga leikmyndina fyrir kvikmyndir og móður okkar gróðurhús. Einnig gerði hann upp frá grunni nokkur heimili sín á lífsleiðinni samhliða daglegum störfum. Hann hafði mikinn áhuga á tónlist og lærði ungur á klarinett en á unglingsárunum tók hann trommusettið fram yfir blásturshljóðfærið. Jakob var á þeim tíma í hljómsveitinni Glaumi með nokkrum vinum sínum. Hljómsveitin æfði oft í kjallaranum á æskuheimili okkar sem mér þótti spennandi þrátt fyrir hávaðann sem fylgdi. Á seinni árum var klassísk tónlist honum hugleikin.

Fyrir ferðina örlagaríku hafði Jakob síðustu árin fjölgað ferðum sínum í heimsóknir til mín á æskuheimili okkar í Hvassaleitinu. Þar vildi hann fá sterkt kaffi refjalaust og tala um heimspekilega hluti. Hann var glaður og jákvæður fyrir framtíðinni og hafði til margs að hlakka. Ég kveð bróður minn með þakklæti og söknuði.

Hjördís Fenger.

Í dag kveð ég vin minn og ferðafélaga Jakob Fenger. Ég sit hér í Nausti á Hofsósi með hafið fyrir framan mig í allri sinni dýrð. Þar var Jakob í essinu sínu, fullur sjálfstrausts, sannkallað barn náttúrunnar. Ekkert var honum ómögulegt, hvort sem það var að sigla skútunni okkar Black Bear um öll heimsins höf eða flytja heilu húsin landshornanna á milli.

Hann var hrifnæmur og mikill fagurkeri og mér er það minnisstætt í upphafi sambúðar okkar þegar hann dró mig upp á hanabjálka í húsi við Laugaveg, beint að þakglugga stofunnar og sagði: „Eigum við að kaupa hana?“ Við blöstu Sundin, Esjan og Akrafjallið, ógleymanleg sjón! Húsakynnin skiptu ekki máli heldur vildi Jakob hafa náttúruna og fegurð hennar nálægt sér.

Jakob var mikill hagleiksmaður og léku hlutirnir í höndunum á honum, trésmiður af guðs náð. Hann gerði upp gömul hús og var eftirsóttur til þeirra verka. Jakob átti sína erfiðu tíma, en þrátt fyrir baráttu sína reyndist hann fjölskyldu sinni vel. Hann var góður hlustandi, góður leiðbeinandi, traustur og hjálpsamur og vinur vina sinna. Eitt sinn þegar við sigldum frá Tyrklandi til Möltu urðum við vélarvana. Þá setti Jakob mig við stýrissveifina og kenndi mér að sigla eftir sól og stjörnum. Eftir margra daga velking komumst við á leiðarenda og náðum ströndum Möltu. Ég trúi því að Jakob vísi okkur enn þá veginn.

Hafið, bláa hafið hugann dregur.

Hvað er bak við ystu sjónarrönd?

Þangað liggur beinn og breiður vegur.

Bíða mín þar æskudrauma lönd.

Beggja skauta byr

bauðst mér aldrei fyrr.

Bruna þú nú, bátur minn.

Svífðu seglum þöndum,

svífðu burt frá ströndum.

Fyrir stafni haf og himinninn.

(Örn Arnarson.)

Hafðu þökk fyrir ferðalagið.

Gunnhildur Emilsdóttir.

Jakobs er saknað. Það hefur ekkert heyrst frá honum á þriðja sólarhring. Þetta voru orð sem nístu hugann. Gæti hann hugsanlega hafa lent í vandræðum á skútunni? Næstu dagar urðu örvæntingarfullir fjölskyldu hans og vinum.

Dagar urðu að vikum og þrátt fyrir mikla leit og eftirgrennslan sást hvorki tangur né tetur af skútunni, og með hverjum deginum sem leið, án þess að til hans spyrðist, stirðnuðu andlit okkar allra af sorg við þá tilhugsun að sennilega hefði hann farist í hafi og við sæjum hann aldrei meir.

Í dag minnumst við Jakobs Fenger – eiginmanns, elskhuga, föður, afa, bróður, frænda og vinar, en einnig listasmiðs, sjómanns, veiðimanns, fagurkera, hugsjónamanns, náttúrudýrkanda og lífsnautnamanns.

Við horfum á eftir honum með söknuði, þakklæti og virðingu. Við fjölskyldan eigum honum mikið að þakka frá þrjátíu ára vinskap, og nú þegar hann hefur lagt upp í sína hinstu siglingu vottum við börnum hans, Ylfu, Olgu og Emil, ástvinum hans og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning hans.

Tómas Jónsson, Þórunn Elísabet Sveinsdóttir og börn.