Handtak Aðalsteinn Eyjólfsson á milli Gero Schäfer, forseta félagsins t.v., og Karsten Wöhler framkvæmdastjóra í gær.
Handtak Aðalsteinn Eyjólfsson á milli Gero Schäfer, forseta félagsins t.v., og Karsten Wöhler framkvæmdastjóra í gær. — Ljósmynd/Thomas Levknecht
„Ég hef þegar tekið formlega við. Fyrsta æfingin með liðinu verður í kvöld [gær},“ sagði handknattleiksþjálfarinn Aðalsteinn Eyjólfsson sem í gærmorgun var ráðinn þjálfari þýska 2. deildar liðsins Eisenach.

„Ég hef þegar tekið formlega við. Fyrsta æfingin með liðinu verður í kvöld [gær},“ sagði handknattleiksþjálfarinn Aðalsteinn Eyjólfsson sem í gærmorgun var ráðinn þjálfari þýska 2. deildar liðsins Eisenach. Hann hefur undanfarið hálft annað ár verið þjálfari Kassel í 3. deildinni en losnaði strax frá félaginu þar sem forsendur samnings hans við félagið brugðust í haust er aðalstyrktaraðili félagsins varð gjaldþrota.

Eftir Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„ÞAÐ höfðu verið þreifingar milli mín og þriggja til fjögurra annarra liða en ekkert af því var spennandi eða komnar á það stig að geta talist það. Þegar Eisenach kom inn í myndina gat ég ekki hafnaði því. Það er svo spennandi kostur,“ sagði Aðalsteinn í samtali við Morgunblaðið í gær þar sem hann var að koma sér fyrir á skrifstofu sinni hjá Eisenach áður en hann fór á fund með leikmönnum Eiseanch.

Eisenach var innan Austur-Þýskalands þegar það var og hét. Rík hefð er fyrir handknattleik í bænum og hann var með lið í efstu deild á árunum 1997 til 2004. Þá lék íslenski Kúbumaðurinn Julian Duranona með liðinu um þriggja ára skeið. Eftir að það féll í aðra deild lék Rúnar Sigtryggsson með Eisenach í eitt ár, frá 2004 til 2005, og var þjálfari liðsins lengst af þeirri leiktíð.

Aðalsteinn segir að markmiðið fyrir þessa leiktíð hafi verið þriðja til sjöunda sætið í suðurriðli 2. deildar. Það hafi ekki gengið eftir þar sem meiðsli leikmann hafi sett strik í reikninginn.

Markmiðið að ná sæti í nýrri 2. deild

„Eisenach er í 10. sæti og við ætlum að freista þess að ná níunda sætinu, hið minnsta. Það gefur sæti í nýrri annarri 2. deild á næsta keppnistímabili. Þá verður hætt að leika 2. deild í tveimur riðlum. Níu efstu liðin í hvorum riðli þegar upp verður staðið í vor öðlast sæti í sameinaðri 2. deild á næstu leiktíð og þangað stefnum við,“ segir Aðalsteinn. „Auðvitað gera menn sér grein fyrir að það er erfitt að breyta miklu á fáeinum dögum sem líða fram að fyrsta leiknum undir minni stjórn,“ segir Aðalsteinn en fyrsti leikur Eisenach undir stjórn hans verður á heimavelli við Korschenbroich eftir 11. daga.

„Það er mikil áskorun og heiður fyrir mig að félagið skuli treysta mér fyrir liðinu nú þegar svo mikið er undir. Það skiptir miklu máli fyrir framtíð Eisenach að tryggja sér sæti í 2. deildinni þannig að auðveldara verði að horfa fram á veginn.

Langtímamarkmið Eisenach er að komast aftur upp í efstu deild. En það er lengri leið sem þarf að taka í nokkrum skrefum,“ segir Aðalsteinn.

Stoltur og auðmjúkur

„Ég er þessa stundina að koma mér fyrir. Í kvöld hitti ég leikmennina og síðan er málið að koma handbragði sínu á liðið á eins stuttum tíma og hægt er,“ segir Aðalsteinn sem er vitanlega ánægður með að eiga þess kost að starfa áfram við þjálfun í Þýskalandi.

„Ég er bæði stoltur og auðmjúkur yfir því að fá þetta tækifæri til þess að halda áfram. Það er mikil keppni um þær fáu stöður þjálfara sem losna hjá góðum félögum hér ytra og margir yfirleitt sem sækjast eftir hverju starfi.“

Spurður sagðist Aðalsteinn ekkert hafa skoðað möguleika á að fá íslenska handknattleiksmenn til Eisenach.