NÝR GEISLADISKUR með flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands á tónverkum eftir franska tónskáldið Vincent d'Indy, sem Chandos gefur út, fær fimm stjörnur í nýjasta hefti tónlistartímarits BBC.

NÝR GEISLADISKUR með flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands á tónverkum eftir franska tónskáldið Vincent d'Indy, sem Chandos gefur út, fær fimm stjörnur í nýjasta hefti tónlistartímarits BBC. Á diskinum er að finna þriðju sinfóníu tónskáldsins auk smærri verka. Stjórnandi á diskinum er Rumon Gamba, aðalstjórnandi SÍ.

Þegar hefur birst jákvæð gagnrýni um diskinn í fjórum tónlistarblöðum og tímaritum og í nýjasta hefti BBC Music Magazine fær diskurinn fimm stjörnur fyrir flutninginn og hljóðritunina sem Georg Magnússon stýrði. Í umsögninni segir Roger Nichols að Rumon Gamba nái að laða fram sérlega skilningsríka spilamennsku úr hljómsveitinni og hrósar sérstaklega smærri verkunum sem hann segir að sýni best lagræna gáfu tónskáldsins.

Fyrsti diskur Sinfóníunnar í röðinni með hljómsveitarverkum Vincents d'Indys var tilnefndur til Grammy-verðlauna í desember 2008, og sá næsti var valinn einn af diskum mánaðarins í hinu virta tímariti Gramophone. Áformað er að Sinfóníuhljómsveit Íslands hljóðriti fjórða diskinn í röðinni í september næstkomandi.