Júlíus Óskar Þórðarson fæddist 29. apríl 1921 í Haga á Barðaströnd en ólst upp á Innri–Múla í sömu sveit. Hann lést á hjúkrunardeild Heilbrigðisstofnunar Austurlands á Norðfirði hinn 11. apríl sl.

Foreldrar Júlíusar voru hjónin Seinunn Björg Júlíusdóttir og Þórður Ólafsson, ábúendur á Innri-Múla á Barðaströnd. Steinunn, f. 20. mars 1895, d. 13. febrúar 1984, var dóttir hjónanna Jónu Jóhönnu Jónsdóttur af Hreggstaðarætt af Barðaströnd og Júlíusar Ólafssonar ættuðum úr Grímstungusókn í Austur-Húnavatnssýslu. Þórður, f. 24. ágúst 1887, d. 10. apríl 1984, var sonur Kristínar Ólafsdóttur og Ólafs Sveinssonar í Miðhlíð á Barðaströnd. Júlíus var fjórði í röð níu systkina fædd á 11 árum. Hin eru: Björg, bóndi í Tungumúla, f. 10.10. 1916, látin, Ólafur Kr., f. 21.8. 1918, Jóhanna, f. 4.1. 1920, Björgvin, sjómaður og leigubílstjóri, f. 9.9. 1922, látinn, Karl, sjómaður og verkamaður, f. 16.10. 1923, látinn, Kristján P., f. 14.5. 1925, Steinþór, bóndi í Skuggahlíð, f. 13.7. 1926, látinn, og Sveinn J., f. 13.12. 1927.

Júlíus kvæntist hinn 17. janúar 1953 Jónu Ármann, f. 17. júlí 1924, Skorrastað, Norðfirði. Jóna lifir mann sinn. Þau eignuðust einn son, Þórð, f. 1950, líffræðing og framhaldsskólakennara sem nú býr á Skorrastað. Hann er kvæntur Theodóru I. Alfreðsdóttur, f. 1951. Börn þeirra eru: Jóna Árný, f. 1977, gift Sigurði Ólafssyni, f. 1974, og þeirra börn eru Sigríður Theodóra, f. 1998, og Júlíus Bjarni, f. 2008; Alfreð Erling, f. 1978; Sóley, f. 1984, og Sunna Júlía, f. 1993. Fyrir átti Theodóra dótturina Ólöfu Lindu, f. 1969, d. 2005.

Júlíus hleypti snemma heimdraganum og vann bæði til sjós og lands allt til þess er þau Jóna byggðu jörðina Skorrastað 3 út úr jörð tengdaforeldra Júlíusar, Guðjóns Ármanns og Sólveigar Benediktsdóttur, árið 1957. Strax á unglingsárum lá leið Júlíusar austur í Geiradal til vinnumensku á Valshamri hjá Karli Guðmundssyni og Ingibjörgu Sumarliðadóttur. Þegar hann var 17 ára réðst hann til vinnu að Króki og síðar að Arnarstöðum í Flóa. Í framhaldi af því kom Júlíus víða við í störfum hjá hernum og í landbúnaði á Suðvesturlandi. Á 5. áratugnum lá leiðin til sjós á Hvalfjarðarsíldina og í framhaldi af því á vertíðir á Suðurnesjum og í Hafnarfirði. Þar var hann landformaður við ýmsa báta á vetrarvertíðum, fyrst einn og síðar með konu sinni og syni. Á sumrum voru þau heima á Skorrastað. Frá 1957 bjó Júlíus á Skorrastað 3, kappsamur um ræktun jarðar og búpenings og frá 1976 í tvíbýli með Þórði og fjölskyldu hans. Á uppbyggingarárum jarðarinnar vann Júlíus lengi á vöktum í síldarbræðslu staðarins. Júlíus var oddviti Norðfjarðarhrepps eitt kjörtímabil, 1990-1994. Árið 2001 gaf Júlíus út bókina „Fyrir vestan og austan“, sögur og minningabrot af ævinnar göngu. Árið 2005 létu þau hjón af búskap og dvöldust lengst af á hjúkrunardeild HSA eftir það eða allt þar til Júlíus lést. Útför Júlíusar var gerð frá Norðfjarðarkirkju 18. apríl 2010. Minningarathöfn um Júlíus fer fram í Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 21. apríl 2010, og hefst athöfnin kl. 15.

Það er komið vor enn á ný. Það var uppáhaldstími föður míns Júlíusar Þórðarsonar. Þá setti hann allt á fullt í búskapnum. Það varð að gera við girðingar, koma niður áburði, aka út skít nógu snemma til þess að það kæmi jörðinni að mestum notum, endurrækta til þess að fá hámarksafrakstur af túnunum, sá til grænfóðurs, bólusetja ærnar og taka til í kringum bæinn. Þetta átti helst allt að gerast í einu. Viðhald vélanna sat þó venjulega á hakanum enda vildi hann bara eiga nýlegar vélar og heyskapartæki til þess að þurfa ekki að tefja sig í að gera við léleg tæki og bíða tjón af vinnutapi á miðjum annatíma. Kappið var ekki minna þegar leið að slætti. Þá varð að byrja þótt ekki væri fullsprottið. Hann vildi helst hefja slátt fyrstur bænda í Norðfirði og leið ekki vel ef það gekk ekki eftir. Hann gerði sér grein fyrir að nota þurfti samfellda þurrkdaga þegar þeir gáfust í byrjun sláttar því óvíst var um framhaldið í veðráttunni. Bóndinn í honum, sem hafði fengið sitt veganesti úr arfi forfeðranna, dvöl hjá miklum dugnaðarbændum á Vestfjörðum og á Suðurlandi, þar sem hann drakk í sig verkkunnáttu, naut sín vel í Norðfirði. Margar nýjungar voru reyndar í samstarfi við sambýlismenn á Skorrastað til margra ára, þá Guðjón Ármann, tengdaföður hans, og Þorlák Friðriksson, svila hans, báða annálaða dugnaðarforka. Þegar þessir menn lögðust á eitt ásamt sínu liði á Skorrastað stóð ekkert fyrir þeim. Og það var ævinlega eitthvað afgangs fyrir þá sem ekki voru eins vel mannaðir. Fullar hlöður af ilmandi töðu var oftast lykillinn að góðum afurðum búsins, vænstu dilkunum og stærstu nautunum. Stundum þótti mér hann fóðra óhóflega, oft með miklum fóðurbætiskaupum, en viðkvæði föður míns var þá gjarnan: „Ef þú fóðrar illa hefur þú bæði skaðann og skömmina en ef þú fóðrar vel hefur þú þó aldrei nema skaðann.“

Ræktun búfjár og túna var árátta hjá honum eins og mörgum öðrum bændum. Hann stóð að því að flytja kynbótanaut og kynbótahrúta í Norðfjörð. Hann bar ómælda virðingu fyrir búfénu sínu og þegar kom að því að fella hest eða lóga nautgrip mátti ekki hrapa að því verki.

Það fór fátt verr með föður minn en léleg hús og þá einnig skepnuhús. Þess vegna byggði hann upp af miklum krafti. Fjós með mjaltabás og sjálfvirkri aftekningu af kúnum var tekið í notkun laust fyrir 1980. Flatgryfja, votheysturn og heilsárs haughús þótti honum nauðsyn svo hægt væri að búa. Hann vildi alltaf vera að bæta við, helst einni byggingarframkvæmd á hverju ári. Það heyrði til undantekninga framan af að hann tæki lán fyrir þessum framkvæmdum. Þau móðir mín bættu bara á sig vinnu utan bús til að ná endum saman. Jörðina mátti ekki veðsetja fyrir skuldum. Hún var heilög í þeirra huga. Þessi viðhorf endurspegluðu lífsgildi föður míns. Virðing, viska og dugnaður. Ég minnist leiðsagnar og elsku föður míns um ókomin ár.

Þórður Júlíusson.

Í dag fer fram minningarathöfn um bróður minn Júlíus Óskar bónda á Skorrastað í Norðfirði. Á þessum tímamótum vil ég minnast sérstaklega tryggðar hans við Barðaströnd, sitt heimahérað, fram til fullorðinsára þegar hann fór af Barðaströndinni til að stofna bú með Jónu Ármann, konu sinni, á Skorrastað. Þarna kemur margt upp í hugann. Þótt hann væri bæði traustur bóndi og mikilvirkur fyrir sitt nýja hérað fór hugurinn aldrei allur héðan að vestan. Hann gaf út bók sem hann nefndi „Fyrir vestan og austan“. Hér vestra muna margir Júlíus enn. Hann eignaðist annan fyrsta bílinn sem kom á Barðaströndina. Það var Willysjeppi og ég fór með honum gamla hestaveginn yfir Kleifaheiði og niður um Silfurkleif í Patreksfjörð, hrikalega leið. Hann flutti fólk hér um héraðið og víðar við erfiðar aðstæður. Hann fór eins og margir aðrir Barðstrendingar í verslunarferðir yfir Kleifaheiði að vetri til og þáði greiða á fyrstu bæjum við heiðina þegar kom inn á Barðaströndina. Þessu gleymdi hann ekki og beitti sér síðar fyrir því að reisa húsmæðrunum á bæjunum Haukabergi og Brekkuvelli minnisvarða við veginn á Bergjunum milli bæjanna. Þetta gerði hann á eigin kostnað og án utanaðkomandi aðstoðar. Hann lét einnig klappa á fallegan sæbarinn stein nöfn afa okkar og ömmu, sem bjuggu á þurrabúðarbýlinu Hlíðarfæti á Skriðnafelli. Steinninn er á tóft býlisins.

Ég minnist líka baráttu hans fyrir því að fá samþykkta friðlýsingu á gamla prestseturshúsinu á Brjánslæk. Hann safnaði um margra ára skeið, og á meðan hann hafði heilsu til, peningum til að hefja endurbyggingu hússins. Fyrir þessu barðist hann lengi vel einn. Hagnaður af bókinni „Fyrir vestan og austan“ fór í endurbygginguna, sem nú er hafin öllum til sóma sem stutt hafa þetta mál. Bróðir minn fór aldrei með hugann af Barðaströndinni. Þegar við töluðum saman í síma, nú eftir að heilsan tók að bila, barst talið alltaf að mönnum og málefnum heimabyggðarinnar. Ég þakka bróður mínum og Jónu konu hans dygga og ánægjulega vinsemd þótt stundum væri langt á milli okkar. Ég bið Guð að styrkja hann á þeirri ferð sem hann er lagður í.

Kristján Þórðarson, Breiðalæk.

Elsku Júlíus bróðir. Nú ert þú horfinn frá okkur. Ég minnist þín með hlýhug.

Ég man þegar amma mataði okkur tvö og Óla bróður upp úr sömu skálinni, þar sem við sátum öll á sama steininum, í litla eldhúsinu heima á Innri-Múla. Ég minnist allra góðu stundanna, Lúlli minn, sem við áttum sem börn.

Við vorum á líkum aldri og ákaflega samrýnd. Lékum okkur að leggjum og skeljum á hólunum fyrir neðan bæjargarðinn og bjuggum líka til kökur, úr mold.

Þegar við stækkuðum vorum við alltaf sett saman í verk t.d. að sækja vatn í lækinn. Þá höfðum við föturnar í grind, til að þær væru ekki eins þungar. Vatnið bárum við í stóra trétunnu í ystu dyrunum á Múla, við fylltum hana á hverjum degi.

Ég var afskaplega þakklát fyrir að ná að kveðja þig í símanum um daginn, því það var svo langt á milli okkar, þú á Norðfirði og ég á Patreksfirði.

Blessuð sértu Barðaströnd

bröttu hlíðar, háu tindar.

Við þig tengdi tryggðarbönd

traust í æsku lítil hönd.

Þér sé heiður, virðing vönd,

vermi sól og hlýir vindar.

Allt það best' er ann mín önd

er í þínum faðmi myndað.

Barðaströnd mín blíða sveit

bú þú lengi í huga mínum.

Engan fegri á ég reit

elskulega fagra sveit.

Það er mér ljúft og það ég veit

að þú ferð seint úr huga mínum.

Barðaströnd mín blíða sveit

ber þú mig í faðmi þínum.

Víst eru fögur fjöllin þín

við fjörðinn liggja gulir sandar,

leikur báran ljóðin sín

ljúfan semur óð til mín.

Alltaf mun ég minnast þín

er mildur blær um kinnar andar.

Fegurð þín í fjarlægð skín

fögru hlíðar Barðastrandar.

(Steinþór Þórðarson, Skuggahlíð)

Innilegar samúðarkveðjur til Jónu þinnar, Þórðar og allrar fjölskyldunnar.

Far þú í friði. Þín systir,

Jóhanna Þórðardóttir, Patreksfirði.