Sælkeri Prumpar af osti.
Sælkeri Prumpar af osti. — Ljósmynd/RÚV
Á SUNNUDAGINN var síðasti þáttur Stundarinnar okkar í vetur og því er kannski fullseint að hrósa Björgvini Franz Gíslasyni og músinni Björgvinu Fransínu Gísladóttur fyrir skemmtilega samveru. En það skal nú samt gert.

Á SUNNUDAGINN var síðasti þáttur Stundarinnar okkar í vetur og því er kannski fullseint að hrósa Björgvini Franz Gíslasyni og músinni Björgvinu Fransínu Gísladóttur fyrir skemmtilega samveru. En það skal nú samt gert.

Að beiðni ríflega fjögurra ára gamallar heimasætu er ávallt kveikt á Stundinni okkar, bæði á sunnudögum og þegar hún er endursýnd á mánudögum. Þetta er auðvitað auðsótt mál, ekki síst því sú stutta er vön að benda á að Björgvin Franz hafi jú sagt að ekki mætti missa af næsta þætti.

Við kvöldverðarborðið er svo jafnan rætt um það sem gerðist í Stundinni okkar, einkum um uppátæki músarinnar Fransínu sem þykir með eindæmum skemmtileg og uppátækjasöm.

Fransína var kynnt til sögunnar í Stundinni okkar í vetrarbyrjun og var mikill fengur að henni. Fransína er kannski ekki góð fyrirmynd fyrir börn, í hefðbundnum skilningi. Á sinn hátt er Fransína hins vegar ágæt fyrirmynd. Hún er í það minnsta ákveðin, hugrökk og er fljót að jafna sig á mistökum. Þurfa ekki börn einmitt að læra það?

Anna Svava Knútsdóttir, sem leikur Fransínu, á hrós skilið fyrir búa til svona skemmtilega ósvífna mús.

Eftir Rúnar Pálmason

Höf.: Rúnar Pálmason