Sigríður Margrét Oddsdóttir
Sigríður Margrét Oddsdóttir
Eftir Sigríði Margréti Oddsdóttur: "Nýju fjölmiðlafrumvarpi fylgja ýmis boð og bönn, en ekki þau sem máli skipta."

ALMENNT eru bestu reglurnar svo einfaldar að auðvelt er fyrir þorra manns að fylgjast með því hvort þeim sé framfylgt eða ekki. Nú liggur fyrir á alþingi nýtt frumvarp um fjölmiðla sem lítið hefur verið rætt um opinberlega. Frumvarpið er fyrsta heildstæða löggjöfin um fjölmiðla, það er vel. Frumvarpinu er jafnframt ætlað að laga íslensk lög að sjónvarpstilskipun frá Evrópusambandinu, sem okkur er ætlað að innleiða. Það má margt gott um frumvarpið segja en mikilvægt er að vekja athygli á nokkrum þáttum sem mættu fara betur.

Ný ríkiseftirlitsstofnun, Fjölmiðlastofa , skal annast eftirlit með fjölmiðlum og daglega stjórnsýslu, þessi ríkiseftirlitsstofnun mun hafa víðtækt eftirlitshlutverk og sérstakar rannsóknarheimildir. Eftirlit veitir nauðsynlegt aðhald. Núna eru aðstæður samt þannig að það vantar hátt í hundrað milljarða til þess að rekstur ríkisins sé á jöfnu. Eftirlit með fjölmiðlum er á höndum Útvarpsréttarnefndar, mætti ekki spara stofn- og rekstrarkostnað einnar ríkiseftirlitsstofnunar með því að breyta heiti nefndarinnar eða nýta einhverja af þeim ríkiseftirlitsstofnunum sem eru starfandi? Að minnsta kosti þangað til hallinn af ríkissjóði hefur verið lagaður.

Fjallað er í fimmta kafla fjölmiðlafrumvarpsins um réttindi og skyldur fjölmiðla, þar kemur meðal annars fram að sjónvarpsstöðvar skuli kosta kapps um að meirihluti útsends efnis sé frá Evrópu. Þessa sömu grein er reyndar að finna í núgildandi útvarpslögum, en það gerir hana ekki betri. Hvað merkir að „kosta kapps“ og hvernig ætlar Fjölmiðlastofa að mæla hvort sjónvarpsstöðvar „kosti kapps“ eða ekki? Íslenskir fjölmiðlar, sem stjórnarskráin tryggir tjáningarfrelsi, eiga að mínu mati, fyrst og síðast að kosta kapps um að þjónusta sína viðskiptavini vel.

Það er einnig fjallað um vernd barna gegn skaðlegu efni í fimmta kaflanum og tekið fram að óheimilt sé að senda út sjónvarpsefni, sem er bannað börnum, á tímabilinu frá kl. 21-05 virka daga og frá kl. 22-05 um helgar. Sjónvarpsefni sem er bannað börnum er sýnilega merkt í útsendingum sjónvarpsstöðvanna. Ábyrgar sjónvarpsstöðvar sýna ekki bannað efni á tímum þegar ætla má að börn séu að horfa, ef þær slysast til þess, þá rignir yfir þær kvörtunum frá viðskiptavinum. Viljum við virkilega setja það í lög að það sé óheimilt kl. 20:45 á mánudegi eða kl. 21:30 á sunnudagskvöldi? Af hverju má sýna bannað efni fyrr á föstudagskvöldi en sunnudagskvöldi? Þeir sem eiga eða hafa verið börn sjá strax að það er ekkert vit í því.

Samkvæmt nýja fjölmiðlafrumvarpinu eru bannaðar auglýsingar sem hvetja börn til neyslu á matvælum og drykkjarvörum sem innihalda næringarefni og efni sem hafa næringar- og lífeðlisfræðileg áhrif og ekki er mælt með að séu í óhóflegum mæli hluti af mataræði, einkum fitu, transfitusýrur, salt/natríum og sykur. Eftir þessa upptalningu gef ég mér að margir hafi hætt að lesa þessa grein. Þeir sem enn eru að lesa vita að þangað til ríkið stimplar matvæli auglýsingahæf fyrir börn eða ekki, er útilokað fyrir fjölmiðla að fylgja þessu ákvæði. Það er líka bannað að birta auglýsingar í fimm mínútur fyrir og eftir barnaefni í nýja frumvarpinu.

Það sem er hins vegar ekki bannað, eða takmarkað, er að ríkið haldi áfram að keppa af hörku á auglýsingamarkaði. Það eru ekki liðin tvö ár frá því að Samkeppniseftirlitið gaf út álit þar sem sýnt var fram á að afslættir af auglýsingabirtingum eru ekki í samræmi við reglur ríkissjónvarpsins, fríbirtingar tíðkast sem og samtvinnun afsláttarkjara. Aðilar sem hafa starfað í auglýsingageiranum í 20 ár segja að svona hafi þetta alltaf verið, og svona sé þetta enn. Eftir að álit Samkeppniseftirlitsins kom út eru tilboðin hins vegar sjaldnar gerð skriflega. Það er mjög einfalt að bera saman auglýsingareikninga úr bókhaldi ríkisins, og auglýsingabirtingar, sem mældar eru af óháðum aðilum til þess að sanna slíkt athæfi.

Ríkissjónvarpsstöðvar sem hafa sínar megintekjur af skattfé almennings í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi keppa almennt ekki á auglýsingamarkaði. Það gera BBC í Bretlandi og RTVE á Spáni ekki heldur, víðar í Evrópu eru í gildi takmarkanir á umsvif ríkissjónvarpsstöðva á auglýsingamarkaði, í Þýskalandi og Frakklandi eru auglýsingar bannaðar eftir kl. 20 á kvöldin, á Ítalíu og í Hollandi gilda annars konar takmörk. Þeim hefur fjölgað undanfarin ár sem hafa valið þessa leið, enda er tækifærið til þess einmitt núna þar sem verið er að innleiða nýja sjónvarpstilskipun frá Evrópusambandinu.

Þátttaka ríkisins á auglýsingamarkaði vinnur gegn fjölbreytni í fjölmiðlum og breyta ber starfsumhverfi ríkisútvarpsins, annað hvort með því að það hverfi af auglýsingamarkaði eða verulega verði dregið úr umsvifum félagsins á markaðinum. Núna er tækifærið.

Höfundur er framkvæmdastjóri Skjá miðla, sem sjá um rekstur Skjásins og Já.