Íbúafundur Á Heimalandi hefur fólk getað rætt saman og borið saman bækur sínar. Þar er nú boðið upp á heitan mat allan sólarhringinn fyrir íbúana.
Íbúafundur Á Heimalandi hefur fólk getað rætt saman og borið saman bækur sínar. Þar er nú boðið upp á heitan mat allan sólarhringinn fyrir íbúana. — Morgunblaðið/Kristinn
„FÓLK er eðlilega orðið mjög þreytt og hvekkt á að vera í þessu í tæpa viku. Það er bara mjög eðlilegt og eftir því sem fólk er lengur í þessum aðstæðum þá fara að koma fram ýmis streitueinkenni.

„FÓLK er eðlilega orðið mjög þreytt og hvekkt á að vera í þessu í tæpa viku. Það er bara mjög eðlilegt og eftir því sem fólk er lengur í þessum aðstæðum þá fara að koma fram ýmis streitueinkenni. Við höfum bent fólki á ýmsar leiðir til að mæta því,“ segir Jóhann Thoroddsen, sálfræðingur hjá Rauða krossi Íslands.

Hann veitir viðtöl í félagsheimilinu Heimalandi alla daga á milli klukkan 12 og 14. Í gær var fyrsti dagurinn sem það skipulag komst á og allnokkrir nýttu sér möguleikann. Jóhann segir það hafa komið ánægjulega á óvart hversu fúst fólk var að leita sér ráðgjafar.

En hvað getur sálfræðingur sagt við bónda sem horfir á ösku leggjast yfir jörðina sína? Jón svarar því til að þreyta sæki á eftir því sem á líður. Í því sambandi séu margir að velta framtíðinni mikið fyrir sér.

„Í þessu ástandi er í sjálfu sér ekki hægt að hugsa mikið um framtíðina. Ég hef lagt það til við fólk að hugsa miklu meira um daginn sem er að líða. Við vitum ekki hvenær þetta verður búið og hvernig þetta verður. Það eina sem við getum gert er að þrauka og hlúa að okkur sjálfum.“

Fólk ætti að læra að þekkja streitueinkenni og taka mark á þeim þegar þau birtast. Svefnleysi geti verið birtingarmynd streitu og þegar menn missi svefn missi þeir líka þrek. „Þá þarf að huga að því, getur maður þá fært sig út af svæðinu til að sofa eða gert eitthvað annað í því?“

Til dæmis megi dreifa huganum við eitthvað sem tengist alls ekki þessum hamförum, ef tími gefst til. Við lestur bóka eða að skreppa út fyrir svæðið og heimsækja fólk.

Jón minnir á að sumardagurinn fyrsti er á morgun. „Ég held að fólk hefði bara gott af því að halda upp á hann með börnunum sínum, einhvers staðar þar sem askan fellur ekki. Gera sér dagamun.“