Valssigur Valur stendur vel að vígi í baráttunni við Fram um Íslandsmeistaratitilinn í N1-deild kvenna í handknattleik eftir sigur í Fram-húsinu í gær en Valur hefur unnið tvo fyrstu úrslitaleikina. Hér reynir Kristín Guðmundsdóttir leikstjórnandi Valsliðsins að bróta sér leið í gegnum vörn Framara.
Valssigur Valur stendur vel að vígi í baráttunni við Fram um Íslandsmeistaratitilinn í N1-deild kvenna í handknattleik eftir sigur í Fram-húsinu í gær en Valur hefur unnið tvo fyrstu úrslitaleikina. Hér reynir Kristín Guðmundsdóttir leikstjórnandi Valsliðsins að bróta sér leið í gegnum vörn Framara. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„ÞETTA var okkar langbesti leikur í allan vetur, bæði sóknar- og varnarlega. Samheldnin í liðinu er ótrúleg. Undanfarnar vikur höfum við eytt miklum tíma saman og liðsheildin er númer eitt, tvö og þrjú.

„ÞETTA var okkar langbesti leikur í allan vetur, bæði sóknar- og varnarlega. Samheldnin í liðinu er ótrúleg. Undanfarnar vikur höfum við eytt miklum tíma saman og liðsheildin er númer eitt, tvö og þrjú. Karakterinn er ótrúlegur í hópnum og þetta er frábært lið,“ sagði Kristín Guðmundsdóttir eftir sigurinn á Fram 31:24 í Safamýri í gærkvöldi. Kristín skoraði 6 mörk fyrir Val í leiknum sem er 2:0 yfir í rimmunni og getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á Hlíðarenda næstkomandi föstudag. Kristín sagði breiddina hafa skipt miklu máli í þessum leik.

„Það voru allar tilbúnar að stíga fram í þessum leik og það átti engin dapran dag. Ég held að það hafi ekki gerst fyrr hjá okkur í vetur að við höfum spilað heilan leik þar sem engin klikkaði. Oft á tíðum á ein dapran leik og þá tekur næsta við. Þessi leikur sýnir hvað við höfum mikla breidd. Nína kom til dæmis inn á í dag og stóð sig þvílíkt vel en hún hefur varla komið við sögu í tvo mánuði. Ætli við séum ekki bara með meiri breidd en Framliðið og varamenn okkar með meira sjálfstraust til þess að koma inn á og láta að sér kveða. Auk þess er meðalaldurinn hjá okkur í kringum 32 árin og kannski eru taugarnar sterkari hjá okkur og minna stress í gangi. Það hlýtur eiginlega að vera að leikmenn Fram séu aðeins að fara á taugum. Um leið og þær lenda undir þá eiga þær erfiðara með að komast aftur inn í leikinn en þegar við lendum undir þá spáum við ekkert í það,“ sagði Kristín í samtali við Morgunlaðið en Fram komst 7:3 yfir snemma leiks.

„Vorum bara brjálaðar“

„Það hefur gerst í öllum leikjum í vetur og maður hefur engar áhyggjur af því. Ég er alltaf sallaróleg og ég vissi alveg að þetta kæmi,“ sagði Hrafnhildur Skúladóttir að leiknum loknum. „Við vorum bara brjálaðar og þær komust ekkert áfram, ekki frekar en í fyrri hálfleik í fyrsta leiknum. Ef við spilum svona vörn þá fara þær ekki mikið lengra. Það er bara algerlega undir okkur komið að halda áfram að spila svona. Mér fannst bara að þær ættu ekki möguleika. Þannig var líka stemningin hjá okkur í vörninni, okkur fannst þær ekki eiga möguleika,“ sagði Hrafnhildur ennfremur. Hún hefur aldrei orðið Íslandsmeistari þrátt fyrir glæsilegan feril. Hún er nú einum sigri frá titlinum en Fram þarf að vinna þrjá leiki í röð til þess að hampa Íslandsbikarnum.

„Við ætlum að mæta alveg eins til leiks á föstudaginn og vonandi skilar það okkur sigri. Við töpuðum ekki deildarleik í 15 mánuði og ég á mjög erfitt með að sjá það fyrir mér að við töpum þremur leikjum í röð núna. Auðvitað ætlum við okkur að klára dæmið,“ sagði Hrafnhildur Skúladóttir en hún skoraði 5 mörk í leiknum. kris@mbl.is 4