Úr grænu í grátt Túnið hér að ofan spratt vel og var að góðum hluta orðið grænt síðastliðinn föstudag. Eftir öskufall helgarinnar er það, eins og önnur í grennd, líkara eyðimörk enda sjást á því hvergi strá en aðeins þykkt öskulag.
Úr grænu í grátt Túnið hér að ofan spratt vel og var að góðum hluta orðið grænt síðastliðinn föstudag. Eftir öskufall helgarinnar er það, eins og önnur í grennd, líkara eyðimörk enda sjást á því hvergi strá en aðeins þykkt öskulag. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sama á hvaða bæ komið var; aska komst inn í hús og það þrátt fyrir að gluggar væru þéttir og öllu lokað kirfilega. Ábúendur óttast frekara öskufall.

Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

„ALLT líf er í losti,“ sagði bóndi einn undir Eyjafjöllum og benti upp í fjöllin. Þegar þangað var litið sást lítið annað en öskugrátt bergið. „Venjulega væri hér iðandi fuglalíf,“ bætti hann við til skýringar. „Það þagnaði á laugardag.“ Þann dag birti ekki til vegna öskufalls.

Fyrir helgina var vor í lofti undir Eyjafjöllum, og þegar yfir Markarfljótsbrúna var komið í gær benti fátt í fyrstu til annars en svo væri enn. Eftir því sem lengra var ekið fór þó að sjá gráma á áður nýgrænum túnum. Þegar komið var að bænum Steinum hafði gráminn heltekið allt umhverfið; þar sem áður voru tún og akrar voru nú eyðimerkur og á eftir hverri bifreið gaus upp öskuský sem svo settist hægt að nýju.

Svæðið sem verst varð úti í öskufallinu er frá áðurnefndum bæ, Steinum, og að Hrútafelli. Þar var enda bankað upp á, kaffi þegið og athugað með líf ábúenda í nábýli við eldstöðina – sem í beinni loftlínu er aðeins nokkrum kílómetrum frá.

Geymir erfiðar upplýsingar

Áður en bankað var upp á ræddi blaðamaður við Halldór Gunnarsson, prest á svæðinu. Sá sagðist geyma svo erfiðar upplýsingar um sveitunga sína að hann treysti sér ekki til að ræða við blaðamann. Ofan í fjárhagsvandræðin hefði eldgos bæst við og ástandið eftir því.

Sjálfur hefur Halldór þjónað í sveitinni um áratuga skeið og þekkir því vel lífið þar. Reynslu sína vildi hann þó ekki ræða þar sem hugur hans var hjá þeim sem um sárt eiga að binda.

Ábúendur báru sig öllu betur og alls staðar var blaðamanni vel tekið. Óvissan sem gætti fyrir helgi var enn fyrir hendi en beindist frekar að áhrifum öskunnar á tún og akra, dýralíf og líf almennt undir Eyjafjöllum. Og þrátt fyrir fréttir af minnkandi virkni og breytingum í átt að hraungosi velti fólk því fyrir sér hvort það versta væri yfirstaðið. „Dagurinn í dag er betri en gærdagurinn en ég veit ekki með morgundaginn,“ var meðal þess sem sagt var við blaðamann.

Velvild nágranna vel metin

Allir viðmælendur voru þó sammála um að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í gærmorgun hefði verið mikill vermir á dimmri stund. Einnig velviljinn sem fram kom á fjölmennum íbúafundi í Laugalandi í gær. Þar kom meðal annars fram að íbúar í Holta- og Landsveit eru tilbúnir að leggja nágrönnum sínum lið.

Vissulega urðu nokkrar jarðir illa úti í öskufallinu og bændur uggandi um sinn hag. Þó verður að segjast að þeir takast á við vandamálin af æðruleysi, ætla sér að taka einn dag í einu og halda út sem þeir geta. Hjá einhverjum verður það fram yfir sauðburð, jafnvel fram á sumarið. Aðrir ætla sér hvergi að fara þótt á móti blási.

Gróðurinn kemur upp

„ÞETTA seinkar því að grói, en ég tel að gróðurinn komi upp úr öskunni og til lengri tíma litið – ef ekki verður meira öskufall að ráði – þá verður þetta gróðrinum til góðs frekar en hitt,“ segir Guðni Þorvaldsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands, sérfræðingur hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins og bóndi undir Eyjafjöllum. „En þetta verður leiðinlegt í sumar og hugsanlega næsta sumar.“

Bær Guðna, Raufarfell, er á því svæði sem verst varð úti í öskufallinu. Hann segist velta því fyrir sér eins og aðrir hvaða áhrif askan hefur á gróðurinn. „Það skortir kannski helst reynslu af því hversu lengi flúorið varir og hversu lengi það er í gróðrinum. Það verður tíminn að leiða í ljós.“ Hann segir hins vegar ljóst að í öskunni séu áburðaráhrif og þar sem hún sé ekki svo þykk á túnum eigi gróður að geta komið upp. „Þá verður þetta allt annað. Fokið verður ekki jafn mikið og liturinn breytist.“

Guðni tók sjálfur sýni úr öskunni til efnagreiningar og hyggst m.a. finna út hversu mikið af næringarefnum er í henni. Hann var feginn því að heyra að flúormagnið mældist minna en talið var í henni, en það gæti þýtt að hægt væri að sleppa fénu á fjall þó að aska liggi yfir. „En það verður fyrst að koma í ljós hvort hún er orðin nægilega útþynnt, því það má ekki sleppa skepnum á grasið fyrr en við vitum að flúorinnihaldið er ásættanlegt.“

Þrátt fyrir að vera nokkuð jákvæður segist Guðni þó gera sér grein fyrir því að sumarið verði „leiðinlegt“ og afar erfitt verði að heyja sé það hægt yfirleitt. Þá þurfi að fá hey eða kaupa annars staðar „En þó að þetta hafi komið svona illa við okkur, og ef maður hugsar um hagsmuni heildarinnar, þá er þetta lítið svæði og mikil aska fór út í sjó. Þetta hefði allt eins getað lagst í vestur, yfir Landeyjarnar og Árnessýslu.“

„Væri góður vordagur“

„ÉG MAN eftir því að askan var mun grófari og léttari. Hún fauk fljótlega í skafla og þó svo öskufallið hafi haft sín áhrif fann ég minna fyrir því þá en nú,“ segir Ólöf Bárðardóttir, kúabóndi á bænum Steinum. Hún var sex ára þegar Hekla gaus árið 1947 og bjó undir Eyjafjöllum. Það ár var Finnur Tryggvason, bóndi á Rauðafelli, átta ára og bjó á svipuðum slóðum. Minni hans bregst ekki heldur. „Það stóð stutt yfir, ekki nema í hálftíma eða svo, og virkaði eins og haglél. Þetta er miklu verra.“

Gosið 1947 var þó ekki eina eldgosið sem hafði áhrif á líf Ólafar og fjölskyldu. Hún fluttist nefnilega til Vestmannaeyja og bjó þar þegar byrjaði að gjósa 1973. Dóttir Ólafar var barnung þegar gaus í Eyjum og man vel eftir hræðslunni sem greip um sig. „Og það situr svolítið í mér og hafði sín áhrif þegar byrjaði að gjósa í Eyjafjallajökli,“ segir hún.

Ólöf segist halda ró sinni þrátt fyrir ástandið og taki einn dag í einu eins og aðrir í grennd. Finnur telur að hann sé fastur á Rauðafelli langt fram á vor við gjafir en hefði annars farið til Flórída, og útilokar það alls ekki þegar líður á sumarið. Bæði segjast þau vonast eftir ausandi rigningu sem gæti skolað burtu „bévítans“ öskunni sem liggur yfir öllu. „Enda væri þetta góður vordagur ef ekki væri ástandið,“ segir Finnur.