Grimmd Aðferðirnar sem notaðar eru við veiðarnar við bæinn Taiji eru grimmilegar og miskunnarlausar.
Grimmd Aðferðirnar sem notaðar eru við veiðarnar við bæinn Taiji eru grimmilegar og miskunnarlausar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heimildarmynd. Leikstjóri: Louie Psihoyos. 90 mín. Fram koma m.a. Joe Chisholm, Mandy-Rae Cruikshank, Charles Hamleton. Bandaríkin. 90 mín. 2009.

Við Íslendingar viljum og verðum að fá að nýta auðlindir okkar af skynsemi og undir vísindalegu eftirliti til lands og sjávar. Þess vegna erum við hvalveiðiþjóð. Samt sem áður fylla þær hrollvekjandi veiðiaðferðir og virðingarleysi fyrir lífi sem blasir við og er árangur rannsóknarblaðamennsku Psihoyos og félaga, okkur viðbjóði, ætla ég að vona. Úr efninu var gerð heimildarmyndin The Cove , sem vann til Óskarsverðlauna í ár og er ein af mörgum, athyglisverðum myndum á Bíódögum.

Löngum hefur verið vitað af grimmilegu smáhvaladrápi Japana sem fram fer aðallega á ákveðnu strandsvæði við bæinn Taiji. Þarna eru veidd um 23 þúsund dýr árlega, þrátt fyrir mótmæli frá umheiminum og þá bláköldu staðreynd að hvalirnir, sem flestir eru höfrungar, hnísur og andarnefjur, eru eitraðir sökum kvikasilfursmengunar sem er himinhátt yfir hættumörkunum.

Psihoyos setti saman harðskeyttan hóp tæknimanna, kafara, vísindamanna og kvikmyndagerðarmanna sem reyndu að komast framhjá öflugri strandgæslu landsmanna við Taiji. Þeir létu útbúa hátæknitökuvélar fyrir hljóð og mynd sem síðan voru dulbúnar. Í öðrum leiðangrinum náðu þeir að laumast inn á bannsvæðið og þar blasti við ófögur sjón – sem minnir hvað helst á grindhvaladráp vina vorra Færeyinga hér í eina tíð. Dýrunum er smalað með hljóðbylgjum inn í þröngar víkur þar sem þau eru króuð af með netum. Þar eru síðan þrengt að þeim og þá kemur til kasta mannanna með sveðjurnar. Sjórinn verður blóðlitaður á haf út, dýrin eiga sér enga von, er slátrað af fullkomnu miskunnarleysi og pakkað í neytendaumbúðir – sem oftar en ekki ljúga til um innihaldið; segja það af stærri og minna menguðum tegundum.

Hér koma m.a. við sögu „Íslandsvinurinn“ Paul Watson og Rick O'Barry, sem segist hafa unnið við sjónvarpsþáttinn Flipper og kynnst þar þessum skynsömu skepnum, höfrungunum, og bundist þeim tryggðaböndum.

Hvað sem afstöðu okkar Íslendinga til hvalveiða líður er The Cove sláandi sýnishorn af grimmd mannskepnunnar. Blóðbaðið við bæi á borð við Taiji er ódulbúin villimennska. Það vita Japanir best sjálfir, þeir hafa löngum barist gegn því að nokkur erlend sála komist í nágrenni drápsvíkanna. Psihoyos og hans ágæta fólk tókst það ómögulega og nú blasir hryllingurinn við umheiminum og dæmi nú hver fyrir sig.

Sæbjörn Valdimarsson