Gunnar M. Sandholt sendi kveðju til Vísnahornsins í gær: „Góðar vísur eftir Hjálmar og Friðrik í dag.

Gunnar M. Sandholt sendi kveðju til Vísnahornsins í gær:

„Góðar vísur eftir Hjálmar og Friðrik í dag. Rifjast upp fyrir mér vísa sem Skúli nokkur Guðmundsson, bróðir Einars Más að ég held, kvað yfir okkur í heita pottinum í Laugardalslauginni í tilefni kosninga, líklega árið 1987.

Í lýðræðisríkjum er líkt og hjá okkur

litið til þess eins og vera ber

að auðvitað geti hver einasti flokkur

att inn á þing haða fífli sem er.

Sami maður botnaði fyrripart Torfa Jónssonar rannsóknarlögreglumanns sem hélt okkur mjög að vísnamennt:

Torfi:

Bið ég þess að Borgaraflokkinn

beri upp á sker.

Skúli svaraði að bragði:

Alveg mætti austurblokkin

eig'ann fyrir mér.“

Árni Þór Eymundsson sendir þættinum „litla vísu“ og skrifar: „Fyrriparturinn er búinn að liggja nokkurn tíma á borðinu; ég fann aldrei seinnipartinn. Ekki fyrr en ég las um það í Mogganum að hætta væri á að eitthvað af bændum flosnaði kannski upp í gosinu.

Allar brýr að baki sér

brennir fjallið heita.

Það af sér leiðir að lífið hér,

leysist upp, til sveita.“

Ingólfur Ómar Ármannsson er eins og fleiri innblásinn af eldgosinu:

Öll er bungan öskugrá

yfir myrkt að líta

eldglæringar enn má sjá

upp úr gígnum spýta.

Gróðri bitnar illa á

óhug hefur vakið;

ekki er fögur sjón að sjá

svæðið ösku þakið.

Líklega rataðist Birni Bjarnasyni í Grafarholti (f. 1856 – d. 1951) satt á munn er hann orti:

Hafís, eldgos, óþurrkar,

aflabrestur, landskjálftar.

Sæld þótt tíðum svipti Frón.

Sundrung vinnur meira tjón.

Í vísnasafni Skagfirðinga má finna vísu eftir Friðgeir H. Berg:

Meðan Hekla gamla gýs

gifta Íslands smækkar.

Meðan á skrokknum skríða lýs

skattana þingið hækkar.