Tækifæri Gunnar Guðbjörnsson og Jónas Ingimundarson undirbúa tónleikaferð í Salnum.
Tækifæri Gunnar Guðbjörnsson og Jónas Ingimundarson undirbúa tónleikaferð í Salnum.
SUMARDAGINN fyrsta hefja þeir Gunnar Guðbjörnsson og Jónas Ingimundarson tónleikaferð í Selinu á Stokkalæk á Rangárvöllum og lýkur henni í Freiburg 3. maí næstkomandi.

SUMARDAGINN fyrsta hefja þeir Gunnar Guðbjörnsson og Jónas Ingimundarson tónleikaferð í Selinu á Stokkalæk á Rangárvöllum og lýkur henni í Freiburg 3. maí næstkomandi. Á efnisskránni er meðal annars talsvert af íslenskum sönglögum, enda er hún sett saman með lokatónleikana í Freiburg í huga.

Undanfarin tvö ár hefur Gunnar sungið með óperunni í Freiburg en nú er því að ljúka og í tilefni af því var honum boðið að halda kveðjutónleika í Freiburg sem varð kveikjan að tónleikaferð þeirra félaga. „Fyrri hluti tónleikanna, er því íslensk lög og dálítið af því er ný lög, tvö eftir Jónas, og svo eru lög sem ég hef sjaldan eða ekki sungið, lög eftir Jón Ásgeirsson, Vögguvísa Páls Ísólfssonar og fleiri lög. Í seinni hlutanum verður svo skandinavísk kippa, sænsk, finnsk og norsk lög, og svo endum við með ljóðasöngvum eftir Strauss.“

Tónleikaferð þeirra félaga byrjar sem sagt á Stokkalæk á morgun, en síðan halda þeir tónleika í Reykholti á sunnudag og í Salnum á mánudag. Þá halda þeir til Berlínar og halda tónleika í sendiráði Íslands þar í borg og ljúka svo ferðinni 3. maí í Freiburg eins og getið er.

Undanfarin ár hefur Gunnar eytt miklum tíma ytra, en hefur nú snúið heim til að eyða meiri tíma með fjölskyldunni og eins til að taka sér tíma til að leita að betri stöðu en við óperuna í Freiburg, enda svo komið í kreppunni í Evrópu að þau verkefni sem bjóðast hjá minni óperuhúsum gefa ekki nægar tekjur til að halda tvö heimili og borga kostnaðarsamar ferðir. „Það má segja að ég sé að kynna mig upp á nýtt í stærri óperuhúsum sem og að leita meira inn í alþjóðlega bransann aftur eftir að hafa verið bara í Þýskalandi sl. tvö ár,“ segir Gunnar og bætir við að það leggist vel í sig að vinna meira hér heima um hríð, en hann mun einnig syngja ytra og vinna í kynningu þar.

„Óvissan er ókostur en um leið tækifæri, þ.e. að vera ekki bundinn við óperuna í Freiburg, enda algengt í þessu árferði að óperuhúsin bíði fram á síðustu stundu með ráðningar. Ég er þó kominn með vilyrði fyrir góðu verkefni á næsta ári og hef fengið gríðarlega jákvæð viðbrögð þar sem ég hef þegar kynnt mig. Nýir umboðsaðilar hafa sýnt mér áhuga og ég hef þar að auki fengið mjög jákvæðar blaðaumfjallanir upp á síðkastið svo það er full ástæða til bjartsýni.“