Áhrifamikið Gjóska frá Eyjafjallajökli yfir Borgarfelli í Skaftártungu
Áhrifamikið Gjóska frá Eyjafjallajökli yfir Borgarfelli í Skaftártungu — Ljósmynd/Jónas Erlendsson
Eftir Unu Sighvatsdóttur una@mbl.is STÓR hópur íslenskra vísindamanna sem er á leið til Balí hefur lent í vandræðum vegna þeirra raskana sem orðið hafa á flugi.

Eftir Unu Sighvatsdóttur

una@mbl.is

STÓR hópur íslenskra vísindamanna sem er á leið til Balí hefur lent í vandræðum vegna þeirra raskana sem orðið hafa á flugi.

Á mánudag hefst ráðstefna Alheimsjarðhitasambandsins (IGA) á Balí þar sem íslenskir vísindamenn skipa stóran sess og eru flestir þeirra skrifaðir fyrir erindum og fyrirlestrum. 65 manna hópur er nú í óvissu um að komast tímanlega á staðinn og ljóst er að það mun hafa mikil áhrif á gang ráðstefnunnar ef Íslendingana vantar. „Ísland er býsna stórt í þessum jarðhitaheimi svo þetta er stór og áberandi hópur á svona ráðstefnu,“ segir Ragna Karlsdóttir jarðeðlisfræðingur.

Hluti hópsins átti að fljúga til Kaupmannahafnar og þaðan áfram til Balí síðasta sunnudag en er hér enn og vonast til að fá flug á morgun í staðinn. Þeirra bíður svo óvissa um tengiflug því ThaiAirways sem flýgur til Balí hefur aflýst flugi næstu tvo daga vegna eldgossins. Restin af hópnum átti að fljúga á mánudag sem leið en fer líklega ekki fyrr en á sunnudaginn kemur. Ragna segir ekki annað í stöðunni en að bíða og vona. Vísindamennirnir eru ekki einu Íslendingarnir á ráðstefnunni, því forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, á að halda ræðu við opnunarathöfnina samkvæmt dagskrá en alls er óvíst hvort hann kemst.