Ragnhildur Geirsdóttir
Ragnhildur Geirsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þórð Gunnarsson thg@mbl.is EFNAHAGSBROTADEILD ríkislögreglustjóra rannsakar nú þriggja milljarða króna millifærslu FL Group á reikning hjá Kaupþingi í Lúxemborg sem stórfellt auðgunarbrot.

Eftir Þórð Gunnarsson

thg@mbl.is

EFNAHAGSBROTADEILD ríkislögreglustjóra rannsakar nú þriggja milljarða króna millifærslu FL Group á reikning hjá Kaupþingi í Lúxemborg sem stórfellt auðgunarbrot. Þetta staðfestir Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota í samtali við Morgunblaðið. Hann segir jafnframt að efnahagsbrotadeildin vinni nú að því að afla gagna frá Lúxemborg um málið.

„Spurningin snýst um hvort þetta fé hafi legið á reikningi FL Group í Lúxemborg eða verið notað til einhverra annarra hluta,“ segir Helgi.

Ragnhildur Geirsdóttir, fyrrverandi forstjóri FL Group, gat millifærslunnar í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gær. Hún segist aldrei hafa fengið fullnægjandi skýringar frá Hannesi Smárasyni, þáverandi starfandi stjórnarformanni FL Group, en segist hafa séð gögn þess efnis að milljarðarnir þrír hafi runnið til Fons á einhverjum tímapunkti.

Helgi Magnús segir að rannsókn á málinu hafi hafist fyrir nokkru síðan, en á síðasta ári voru framkvæmdar húsleitir í húsnæði tengdu Hannesi Smárasyni.

Rannsókn snýr að Hannesi

Heimildir Morgunblaðsins herma að rannsóknin snúi fyrst og fremst að þeim sem gaf fyrirmæli um millifærsluna, Hannesi Smárasyni. Pálmi Haraldsson, fyrrverandi aðaleigandi Fons, sagðist í samtali við Morgunblaðið ekki kannast við að fjármunirnir hefðu runnið inn á reikning síns félags, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um yfirlýsingu Ragnheiðar.

Millifærslan sem um ræðir átti sér stað á svipuðum tíma og Fons festi kaup á flugfélaginu Sterling. Ragnhildur sagðist í samtali við Morgunblaðið ekki hafa vitneskju um hvort fjárhæðin sem millifærð var hefði verið hluti af Sterling-fléttunni, en Morgunblaðið hefur áður greint frá því að FL Group kynni að hafa komið að kaupum Fons á Sterling. Hannes Smárason hefur ávallt neitað því, og kallaði slíkar sögusagnir „þvælu“ í Kastljósi 24. október 2005.

  • Segir fé hafa runnið til Fons | 9