Í hlaðinu standa þrjár þyrlur, spaðarnir snúast á einni þeirra. Á planinu stendur jeppi við jeppa, aðeins nokkrir heldur aumingjalegir fólksbílar innan um. Af einum jeppanna lekur drulla og heill skafl virðist hafa fylgt með stuðaranum til byggða.

Í hlaðinu standa þrjár þyrlur, spaðarnir snúast á einni þeirra. Á planinu stendur jeppi við jeppa, aðeins nokkrir heldur aumingjalegir fólksbílar innan um. Af einum jeppanna lekur drulla og heill skafl virðist hafa fylgt með stuðaranum til byggða. Skammt frá hefur kvikmyndatökuvél verið stillt upp. Í fjarska blasir Eyjafjallajökull við undir bláum vorhimni. Upp úr honum stígur gosmökkurinn. Engin hreyfing virðist vera á bólstrunum, rétt eins og augnablikið hafi verið fryst, en þegar næst er gáð er mökkurinn gerbreyttur. Í eitt skiptið stígur hvítur gufumökkur upp af jöklinum, annað grár og í það þriðja er hann nánast svartur, mettaður af ösku og má ætla að orðið hafi sprenging í gígnum. Lárétt út frá jöklinum er síðan öskukóf, sem er eins og veggur og teygir sig langt á haf út. Þegar fer að rökkva sjást eldglæringarnar í gosmekkinum. Hver eldingin rekur aðra og þegar mest lætur er eins og þar fari fram flugeldasýning.

Um kvöldið lýsa ferðalangar, sem komið höfðu norðan að og ekið í gegnum öskuna, reynslu sinni; varla sást út úr augum um hábjartan dag, skyggnið svo lélegt að ekki sást á milli stika á þjóðveginum, undarleg fuglahljóð bárust úr kófinu og dauðir fuglar lágu á jörðinni. Frásögnin hljómaði eins og lýsing á víti og mótsagnakennt að vera staddur í nokkurra kílómetra fjarlægð, fylgjast með þessum ósköpum án þess að fá einu sinni á sig kusk og hugsa um eyðilegginguna inni í mekkinum og öskufallinu.

Svona var ástandið við Hótel Rangá á laugardag, andrúmsloftið ekki eins og á kyrrlátu sveitahóteli, heldur umferðarmiðstöð. Þegar komið var inn á hótelherbergi blasti sama sjón við á sjónvarpsskjánum og fyrir utan, hvort sem stillt var á Sky eða CNN, eldfjallið sem kyrrsetti Evrópu alls staðar fyrsta frétt í fjölmiðlum heimsins.