FL Group Nýja stjórnin, sem kjörin var á hluthafafundi í júlí 2005, kynnir afkomu fyrsta ársfjórðungs 2006. Hagnaður fyrir skatta nam 6,6 milljörðum króna.
FL Group Nýja stjórnin, sem kjörin var á hluthafafundi í júlí 2005, kynnir afkomu fyrsta ársfjórðungs 2006. Hagnaður fyrir skatta nam 6,6 milljörðum króna. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnhildur Geirsdóttir sendi frá sér yfirlýsingu í gær vegna starfsloka sinna hjá FL Group árið 2005. Hún segist ekki hafa fengið greitt fyrir að þegja um málefni félagsins.

Eftir Þórð Gunnarsson

thg@mbl.is

HANNES Smárason, þá starfandi stjórnarformaður FL Group, gaf ófullnægjandi skýringar á millifærslu upp á þrjá milljarða króna af reikningum félagsins til Lúxemborgar, þegar þáverandi forstjóri félagsins, Ragnhildur Geirsdóttir, innti hann eftir þeim. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Ragnhildur sendi frá sér í gær, en þar tjáði hún sig í fyrsta sinn um ástæðu starfsloka sinna sem forstjóri FL Group í október 2005.

Ragnhildi hefur verið legið á hálsi fyrir að hafa fengið greitt fyrir að þegja um málefni FL Group í kjölfar starfsloka hennar. Í yfirlýsingunni segir hún það ekki rétt, heldur hafi hún kosið sjálf að ræða ekki starfslok sín, til að forðast orðaskak við eigendur félagins á opinberum vettvangi. Jafnframt segist hún hafa virt hefðbundin þagnarskylduákvæði.

Nafn Fons í Excel-skjali

Í yfirlýsingu Ragnhildar kemur jafnframt fram að henni hafi vorið 2005 borist útprentun á Excel-skjali frá Kaupþingi í Lúxemborg, þar sem komu fram upplýsingar um að peningarnir hefðu í einhverjum tilgangi endað á reikningum Fons, fjárfestingafélags sem var í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar.

„Nafn félagsins kom fram í þessu yfirliti, og af því er hægt að draga þá ályktun að þessir þrír milljarðar hafi á einhverjum tímapunkti runnið þangað. Ég get hins vegar ekki lagt fram sönnun fyrir því, eins og ég tók fram í minni yfirlýsingu,“ sagði Ragnhildur í samtali við Morgunblaðið í gær.

Hún segist ekki geta fullyrt hvaða tilgangi millifærslan hefði þjónað, en Hannes Smárason hefði gefið þær skýringar að fjármunirnir ættu að vera í vörslu Kaupþings og vera til reiðu ef þörf krefði. Pálmi Haraldsson sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að milljarðarnir þrír hefðu aldrei runnið til Fons. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um yfirlýsinguna.

Ræddi við stjórnarmenn

Millifærslan sem um ræðir var aldrei rædd á fundi þeirrar stjórnar félagsins sem síðar átti eftir að segja af sér fyrir hluthafafund FL Group 11. júlí 2005.

Í yfirlýsingu Ragnhildar kemur hins vegar fram að hún hafi rætt einslega við stjórnarmenn, hvern fyrir sig, um málið.

Inga Jóna Þórðardóttir, sem sagði sig úr stjórninni, staðfesti það í samtali við Morgunblaðið. Hún sagðist hins vegar aldrei hafa séð nein gögn um að fjármunir hefðu runnið til Fons. Hennar skilningur í kjölfar samtals við Ragnhildi hefði hins vegar verið sá að fjármunir hefðu runnið einmitt þangað. „Eins og ég sagði við rannsóknarnefnd Alþingis og kemur fram í skýrslunni, þá nægði mér að vita að vafi léki á tilfærslu fjármuna innan félagsins án haldbærra skýringa, til þess að ég treysti mér ekki til að sitja þar lengur,“ sagði hún.

Hreggviður Jónsson sagði sig einnig úr stjórn FL Group á hluthafafundinum í júlí 2005. Hann sagðist í samtali við Morgunblaðið hafa litlu að bæta við yfirlýsingu Ragnhildar, hann hefði haft allar sínar upplýsingar um málið frá henni. „Það voru hins vegar mikil átök um vinnubrögð stjórnarformannsins á þessum tíma. Þegar ég heyrði af þessari millifærslu hafði ég þegar tekið ákvörðun um að segja mig úr stjórn félagsins vegna annarra mála,“ sagði Hreggviður.

Fékk engin svör

Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi hluthafi í FL Group, spurði um millifærsluna bæði á hluthafafundinum 2005 og aðalfundi félagsins 2006.

„Ég fékk engin svör á hluthafafundinum, og á aðalfundinum svaraði endurskoðandi félagsins því að ekkert óeðlilegt hefði átt sér stað. Hann tók þátt í lyginni með stjórnendum og ákveðnum eigendum félagsins, því þarna var um fullframinn glæp að ræða,“ segir Vilhjálmur í samtali við Morgunblaðið.

Samdi eftir millifærslur

Í yfirlýsingu Ragnhildar segir að hún hafi undirritað ráðningarsamning í júlí 2005, sem var eftir að hún fékk vitneskju um millifærslurnar til Lúxemborgar. Ragnhildur hætti síðan í október 2005. Samkvæmt ráðningarsamningi átti hún að fá um það bil 100 milljónir í laun að loknum störfum sínum. Hún segir samninginn hafa falið í sér tvær milljónir á mánuði til fjögurra ára. Hins vegar hafi hún aðeins fengið greiðslur í þrjú ár, um 40 milljónir eftir skatt.

Sterling-hringekjan

Á svipuðum tíma og Ragnhildur Geirsdóttir komst á snoðir um millifærsluna á þremur milljörðum til Kaupþings í Lúxemborg hafði Fons keypt flugfélagið Sterling á fjóra milljarða. Ragnhildur sagðist í samtali við Morgunblaðið í gær ekkert geta fullyrt um hvaða hlutverki milljarðarnir þrír sem um ræðir hafi gegnt í Sterling-fléttunni sem fræg er orðin.

Í yfirlýsingu Ragnhildar segir að á haustmánuðum 2005 hafi Hannes Smárason lýst yfir miklum áhuga á að kaupa Sterling af Fons. Hún hafi hins vegar haft miklar efasemdir um þann 15 milljarða verðmiða sem var settur á félagið, aðeins fáeinum mánuðum eftir að Fons borgaði fjóra milljarða.

„Það fór ekki á milli mála að Hannes Smárason vildi kaupa Sterling og virtust aðrir stjórnarmenn í FL Group sömu skoðunar. Kaupferlið horfði við mér sem formleg afgreiðsla á ákvörðun sem þegar var búið að taka. Áður en gengið var frá samningnum um kaupin á Sterling ákvað ég að láta af störfum,“ segir í yfirlýsingunni.

Ekki löngu eftir að FL Group gekk frá kaupunum á Sterling keypti félagið Northern Travel Holding-félagið á 20 milljarða. Embætti skattrannsóknarstjóra vísaði bókhaldsgögnum frá FL Group til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, sem gerði í kjölfarið víðtækar húsleitir og aflaði sér gagna.