HÁTÆKNIGLÆPAMENN gera meira en hundrað árásir á hverri sekúndu á tölvur í heiminum, að því er fram kemur í árlegri skýrslu tölvuöryggisfyrirtækisins Symantec.

HÁTÆKNIGLÆPAMENN gera meira en hundrað árásir á hverri sekúndu á tölvur í heiminum, að því er fram kemur í árlegri skýrslu tölvuöryggisfyrirtækisins Symantec.

Þótt langflestar þessara árása valdi ekki vandræðum bendir rannsókn Symantec til þess að ein árás heppnist á hverjum 4,5 sekúndum.

Symantec segir rannsóknina benda til þess að sýktum hugbúnaði hafi fjölgað um 71% á síðasta ári. Rúm 50% allra tölvuveira, tölvuorma og annarra skaðlegra forrita sem fyrirtækið hefur orðið vart við voru skráð á síðasta ári.

Þessi mikla fjölgun er einkum rakin til vaxandi vinsælda forrita sem auðvelt er fyrir nýgræðinga á sviði tölvuglæpa að nota til að búa til tölvuveirur, að því er fréttavefur BBC hefur eftir Tony Osborne, framkvæmdastjóra tæknisviðs Symantec. Sum þessara forrita eru ókeypis en önnur mjög dýr.

Forritin gera oft glæpamönnunum kleift að yfirtaka tölvur annarra án vitneskju þeirra í því skyni að senda mikið magn af ruslpósti eða dreifa veirum og ormum. Tölvurnar eru tengdar saman í svonefnd „botnet“ sem glæpamaðurinn stjórnar.