Barningur Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, línumaðurinn sterki í liði Vals, hefur hér brotið sér leið framhjá Pövlu Nevarilovu og Stellu Sigurðardóttur.
Barningur Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, línumaðurinn sterki í liði Vals, hefur hér brotið sér leið framhjá Pövlu Nevarilovu og Stellu Sigurðardóttur. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristján Jónsson kris@mbl.is VALSKONUR eru nánast komnar með aðra höndina á Íslandsbikarinn í handknattleik eftir sannfærandi sigur á Fram 31:24 í Safamýrinni í gærkvöldi.

Eftir Kristján Jónsson

kris@mbl.is

VALSKONUR eru nánast komnar með aðra höndina á Íslandsbikarinn í handknattleik eftir sannfærandi sigur á Fram 31:24 í Safamýrinni í gærkvöldi. Valur er 2:0 yfir í rimmunni en liðið sem fyrr vinnur þrjá leiki verður Íslandsmeistari.

Líklega hafa flestir handboltaunnendur átt von á rosalegri úrslitarimmu þessara liða. Valur vann deildina með glæsibrag en Fram vann Val í æsispennandi úrslitaleik í bikarkeppninni. Fram hafði auk þess leikið mjög vel á lokakafla deildarinnar og það voru því öll teikn á lofti um að úrslitaeinvígi liðanna yrði jafnt og spennandi.

Nú horfir málið hins vegar svo við að Valur er 2:0 yfir og þarf einungis einn sigur til viðbótar. Ekki nóg með það heldur var munurinn á liðunum furðumikill í þessum leik. Það má eiginlega segja að þetta hafi verið draumaleikur fyrir Valsliðið. Vörnin var frábær með turnana tvo, Önnu Úrsulu Guðmundsdóttur og Hildigunni Einarsdóttur, í sínu besta formi. Í sókninni virtist einnig flest allt ganga upp og markaskorið dreifðist afar vel á milli leikmanna. Valsliðið er mjög jafnt og með mikla breidd. Þegar svo vel mannað lið kemst í stuð þá er erfitt að eiga við þær því þær eiga svo mörg vopn. Það sýnir sig kannski í því að fjórir leikmenn skoruðu 5 mörk eða fleiri í leiknum. Vörn Fram fann aldrei almennilega taktinn og Íris Björk Símonardóttir átti þar af leiðandi erfiðan dag í markinu.

Fram er í erfiðri stöðu og gleðina virðist vanta hjá leikmönnum liðsins. Þær virðast bera byrðar heimsins á bakinu og þjálfararnir, Einar Jónsson og Guðríður Guðjónsdóttir, þurfa að reyna að skapa léttara andrúmsloft fyrir föstudaginn. Ef Fram nær ekki upp meiri stemningu þá þarf liðið að gera sér silfrið að góðu þriðja árið í röð.

Gömlu konurnar í Val virðast hins vegar vera í góðum gír á réttum tíma. Kjarninn í liðinu er nokkuð kominn til ára sinna, eins og kunnugt er. Hrafnhildur Skúladóttir, Ágústa Edda Björnsdóttir, Nína K. Björnsdóttir, Brynja Steinsen og Kristín Guðmundsdóttir eru ekki að upplifa úrslitakeppni í fyrsta skipti á ævinni. Kennitalan skiptir hins vegar afskaplega litlu máli þegar stemningin og gleðin er til staðar. Eins og áður segir hefur Valsliðið marga leikmenn sem hægt er að leita til þegar á móti blæs og liðið þarf ekki að treysta á neina eina til þess að draga vagninn.

Fram – Valur 24:31

Íþróttahús Fram, úrslit Íslandsmóts kvenna, annar leikur, þriðjudaginn 20. apríl2010.

Gangur leiksins : 0:2, 3:3, 7:3, 8:7, 11:13 , 13:13, 15:19, 17:22, 18:25, 20:27, 24:31.

Mörk Fram : Stella Sigurðardóttir 8, Karen Knútsdóttir 7/6, Ásta Birna Gunnarsdóttir 3, Hildur Þorgeirsdóttir 2, Pavla Nevarilova 2, Guðrún Hálfdánsdóttir 1, Hafdís Hinriksdóttir 1.

Varin skot : Íris Björk Símonardóttir 9/1, (þar af 2 aftur til mótherja), Helga Vala Jónsdóttir 2 (þar af 2 aftur til mótherja).

Utan vallar : 2 mínútur.

Mörk Vals : Kristín Guðmundsdóttir 6, Hildigunnur Einarsdóttir 6, Rebekka Skúladóttir 5, Hrafnhildur Skúladóttir 5, Ágústa Edda Björnsdóttir 3, Anna Úrsula Guðmundsdóttir 3, Nína K. Björnsdóttir 2, Íris Ásta Pétursdóttir 1.

Varin skot : Berglind Íris Hansdóttir 15 (þar af 8 aftur til mótherja).

Utan vallar : 8 mínútur.

Dómarar : Anton Pálsson og Hlynur Leifsson. Mjög öruggir.

Áhorfendur : Um 500.

*Staðan er 2:0 fyrir Val.