Verk Fjárfesting vegna verksins mun nema um 100 milljónum dala.
Verk Fjárfesting vegna verksins mun nema um 100 milljónum dala. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Bjarni Ólafsson bjarni@mbl.is ALCAN á Íslandi hefur samið við Íslenska aðalverktaka hf. um tilteknar verklegar framkvæmdir við fyrri áfanga straumhækkunarverkefnisins í Straumsvík.

Bjarni Ólafsson

bjarni@mbl.is

ALCAN á Íslandi hefur samið við Íslenska aðalverktaka hf. um tilteknar verklegar framkvæmdir við fyrri áfanga straumhækkunarverkefnisins í Straumsvík. Fjárhæð samningsins við Íslenska aðalverktaka er 4,1 milljón bandaríkjadala eða 526 milljónir króna. Allt að 70 starfsmenn fyrirtækisins munu starfa við þessar framkvæmdir, sem hefjast í þessum mánuði. Í fréttatilkynningu segir að þetta sé fyrsti samningurinn um verklega framkvæmd þessa verkefnis.

Straumhækkunarverkefnið í heild skiptist í tvo hluta. Fyrri hlutinn, sem er hafinn, miðar einkum að því að efla rekstraröryggi álversins og undirbúa straumhækkun, sem stefnt er að á síðari stigum og er megintilgangur seinni hluta verkefnisins.

Í heild sinni felur fyrri hluti straumhækkunarverkefnisins í sér fjárfestingu fyrir liðlega 100 milljónir Bandaríkjadala og fellur um þriðjungur fjárhæðarinnar til á Íslandi.

Hefur umtalsverða þýðingu

Í samningnum við Íslenska aðalverktaka er einnig kveðið á um frekari verkefni sem eru háð því að ákveðið verði að ráðast í seinni hluta verkefnisins, sjálfa straumhækkunina, sem felur í sér heildarfjárfestingu fyrir yfir 200 milljónir bandaríkjadala til viðbótar við fyrri hlutann.

Í tilkynningunni er haft eftir Rannveigu Rist, forstjóra Alcan á Íslandi, að hún sé ánægð og stolt yfir því að standa að svo umfangsmiklum samningi, ekki síst á þessum erfiðu tímum í íslensku efnahagslífi. Segir hún að verkefnið hafi umtalsverða þýðingu bæði fyrir Ísland og álverið sjálft.