Kór Karlakór Kjalnesinga var stofnaður árið 1991. Kórinn heldur tónleika í Guðríðarkirkju 29. apríl og 1. maí.
Kór Karlakór Kjalnesinga var stofnaður árið 1991. Kórinn heldur tónleika í Guðríðarkirkju 29. apríl og 1. maí.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Að fara á tónleika og hlusta á góðan karlakór er gaman. Það vita allir sem það hafa reynt. En hvernig ætli sé að syngja í kór? Fólk sem ég þekki virðist njóta þess og sækir kóræfingar árum og áratugum saman.

Að fara á tónleika og hlusta á góðan karlakór er gaman. Það vita allir sem það hafa reynt. En hvernig ætli sé að syngja í kór? Fólk sem ég þekki virðist njóta þess og sækir kóræfingar árum og áratugum saman. Félagskapurinn og hin listræna tjáning virðist veita fólki mikla lífsfyllingu.

Samt hef ég aldrei þorað að taka skrefið og sækja um inngöngu í karlakór. Mig hefur lengi grunað að sönghæfileikar mínir séu litlir og fyrir nokkru þegar ég lét hafa mig í að taka þátt í leiknum „Sing a long“ var það rækilega staðfest. Reyndar voru viðtökurnar við söng mínum betri en ég átti von á. Fólk hló og hló og klappaði saman lófunum.

Nei, ég held að ef ég myndi reyna að komast í kór færi fyrir mér eins og Guðmundi J. Guðmundssyni verkalýðsforingja. Þegar hann var í skóla mætti hann eitt sinn með bekknum sínum á kóræfingu. Guðmundur sagði frá því síðar að eftir æfinguna hefði kórstjórinn komið til sín og sagt við sig að hann þyrfti ekki að mæta á næstu æfingu. Guðmundur sagðist í fyrstu hafa talið að hann þyrfti ekki að mæta vegna þess að hann væri svo góður að hann þurfti ekki að æfa sig. Fljótlega áttaði hann sig þó á að annað bjó að baki.

Um síðustu helgi heimsótti Karlakór Kjalnesinga Mýramenn og söng á afar velheppnaðri Mýraeldahátíð. Kórinn sló í gegn, enda hefur því verið haldið fram að hann sé þriðji besti karlakór landsins. Hvort það er rétt veit ég ekki en hann er góður. Karlakór Kjalnesinga var stofnaður árið 1991 af nokkrum félögum af Kjalarnesi og Kjós. Páll Helgason hefur stjórnað kórnum frá upphafi en hann hefur haft mikil áhrif á tónlistar og menningarlíf í Kjósarsýslu. Kórinn hefur á að skipa 35-40 söngmönnum og er æfingaaðstaða kórsins að Fólkvangi á Kjalarnesi.

Eftir rúmlega viku verður kórinn með vortónleika í Guðríðarkirkju í Grafarvogi. Efnisskrá er fjölbreytt, m.a. lög eftir Emil Thoroddsen, Bellman o.fl. Kórinn ætlar líka að flytja klassísk dægurlög í nýjum útsetningum. Sérstakur gestur kórsins verður Bjarni Arason sem m.a. söng lagið „Karen“.

Guðmundur Guðlaugsson, sem sungið hefur með kórnum í mörg ár orti á dögunum um tónleikana:

Eftir vikur tæpar tvær

á tónleika má fara.

Þar tekin verður Karen kær

af kór og Bjarna Ara.

Tónleikarnir í Guðríðarkirkju fara fram fimmtudaginn 29. apríl og hefjast kl. 20. Þeir verða síðan endurteknir laugardaginn 1. maí kl. 16. Það verður spennandi að sjá kórinn syngja með Bjarna.

Egill Ólafsson (egol@mbl.is)

Höf.: Egill Ólafsson (egol@mbl.is)