Hjörleifur Guðnason fæddist á Borgarfirði eystra 31. ágúst 1924. Hann andaðist á Landspítalanum 9. apríl 2010.

Hjörleifur var sonur hjónanna Margrétar Þórhildar Þórðardóttur húsmóður, f. 6. maí 1899, d. 11. nóvember 1989 og Guðna Hjörleifssonar héraðslæknis, í Skaftafellssýslu, f. 24. júlí 1894, d. 23. júní 1936. Hjörleifur var næst elstur 6 systkina, þau eru 1) Stella, fædd 1. júní 1923, d. 25. jan. 2010. 2) Þórir, fæddur 10. desember 1926, d. 4. júlí 1996. 3) Daníel, fæddur 4. apríl 1929. 4) Sigurður, fæddur 23. júní 1931. 4) . 5) Guðni, fæddur 26. febrúar 1936. Hjörleifur kvæntist Önnu S. Ingólfsdóttur 14. október. 1950. Foreldrar Önnu voru Ingólfur Eyjólfsson og Elín Salbjörg Sigfúsdóttir. Hjörleifur og Anna eignuðust 4 börn. Þau eru: 1) Margrét, f. 22. desember. 1950, gift Eiríki Ólafssyni. 2) Elín, f. 4. janúar. 1952, gift Sumarliða Aðalsteinssyni. 3) Guðni, f. 17. maí. 1953, sambýliskona Sigríður Margrét Vigfúsdóttir. 4) Ingólfur, f. 13. mars 1958, kvæntur Steinunni Jónsdóttur. Barnabörnin eru tíu og níu barna-barnabörn.

Hjörleifur ólst upp í Vík í Mýrdal en flutti með móður sinni og systkinum til Reykjavíkur þegar Guðni faðir hans féll frá, árið 1936. Hjörleifur lauk prófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1946 og starfaði síðan nánast allan sinn starfsferil við afgreiðslustörf í Reykjavík hjá Skeljungi.

Útför Hjörleifs fer fram frá Digraneskirkju í dag, 21. apríl 2010 og hefst athöfnin kl. 13.

Fyrsta minning mín um mág minn, Hjörleif, var þegar hann kom í heimsókn til móður sinnar til að skoða kærustu bróður síns. Hann kom inn í stofuna með fallegt bros og tvær litlar telpur, sína við hvora hönd. Þær voru báðar mjög fallegar í hvítum kjólum og hann greinilega stoltur faðir. Síðan eru nú liðin meira en 50 ár og samt svo stutt síðan í minningunni.

Hjörleifur var ljúfmenni og góður heimilisfaðir. Hann var mjög rólyndur að eðlisfari og dagfarsprúður. Mér eru minnisstæð hin árvissu jólaboð á heimili þeirra Önnu í Álfheimunum á jóladag. Þau hjón fóru oft í frí til Spánar og til að geta notið ferðanna sem best dreif hann sig í spænskukennslu og náði ótrúlega góðum tökum málinu.

Mágur minn var aðeins 12 ára þegar faðir hans lést úr bráðaberklum aðeins 43 ára gamall.

Hann þurfti að taka berklasjúkling inn á spítalann, sem var í sérbyggingu áfastri íbúðarhúsinu.

Móðir Hjörleifs, þá 36 ára, stóð ein eftir með 6 börn. Sigurbjörg (Stella) 13 ára, Hjörleifur 12 ára , Þórir 9 ára, Daníel 6 ára, Sigurður 5 ára og Guðni Ólafur 4 mánaða. Hann var skírður við kistu föður síns. Margrét móðir þeirra, algjör hetja, kom öllum sínum börnum vel til manns, en þetta hefur ekki verið létt fyrir Hjörleif, næstelsta systkinið. Stella systir hans fór um tvítugt til Ameríku og þar giftist hún og bjó þar til dauðadags, en hún lést í janúar sl. Hún átti þá ósk að fá að hvíla í kirkjugarðinum í Vík við hlið foreldra sinna og munu afkomendur hennar koma með jarðneskar leifar hennar í sumar til greftrunar í Víkurkirkjugarði. Þar hvílir líka Þórir, bróðir Hjörleifs, en hann var læknir og bjó og starfaði í Þyskalandi og lést árið 1996. Römm er sú taug, er rekka dregur föðurtúna til.

Anna, kona Hjörleifs, lést árið 2006 eftir erfið veikindi, en Hjörleifur annaðist hana af mikilli umhyggju í veikindum hennar. Hjörleifur bjó eftir lát hennar áfram í íbúð þeirra að Gullsmára 9 í Kópavogi og sá að mestu um sig sjálfur. Þau Anna og Hjörleifur höfðu haft fyrir venju að hafa opið hús á sunnudögum með kaffi og rjómavöfflum. Þessum sið hélt Hjörleifur áfram allt þar til yfir lauk.

Að leiðarlokum vil ég þakka mági mínum samfylgdina, góðmennsku hans og hlýtt hugarfar.

Börnum hans og fjölskyldum þeirra sendum við hjónin innilegar samúðarkveðjur.

Gerður Birna Guðmundsdóttir.

Það er mikil gæfa að eignast góðan starfsfélaga og vin eins og við Svala fengum með honum Hjörleifi, sem við kveðjum nú.

Farðu í friði góði vinur

þér fylgir hugsun góð og hlý.

Sama hvað á okkur dynur

aftur hittumst við á ný.

(Magnús Eiríksson).

Kærar samúðarkveðjur til ættingja.

Svala og Reynir.