Með rútu Enska knattspyrnuliðið Liverpool fór landleiðina til Madrídar vegna kappleiks í borginni síðar í vikunni þegar ljóst varð að flug félli niður.
Með rútu Enska knattspyrnuliðið Liverpool fór landleiðina til Madrídar vegna kappleiks í borginni síðar í vikunni þegar ljóst varð að flug félli niður. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.is „ÞETTA er staða sem við höfum aldrei horft fram á áður. Þetta er með ólíkindum.

Eftir Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„ÞETTA er staða sem við höfum aldrei horft fram á áður. Þetta er með ólíkindum. Sú röskun sem orðið hefur á flugi er án nokkurs fordæmis,“ sagði Jeff Rebello, markaðs- og sölustjóri SAS í Bretlandi og á Írlandi, um stöðuna þegar blaðamaður heyrði hljóðið í ferðaþjónustuaðilum um þá röskun sem orðið hefur vegna gossins í Eyjafjallajökli.

Á þeim tímapunkti var útlit fyrir að nær allt flug SAS félli niður, spá sem síðar rættist.

Inntur eftir samanburði á röskuninni sem varð í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september 2001 og þeirri töf sem nú hefur orðið sagði Rebello að staðan nú væri mun verri enda hefðu þá margar áætlunarflugferðir gengið með eðlilegum hætti.

„Þetta er alger niðurfelling á flugi til lengri tíma. Okkur kom ekki til hugar að ástandið myndi vara í viku. Við hjá SAS setjum öryggið í fyrsta sæti og fylgjum tilmælum flugmálayfirvalda í einu og öllu. Ef þau telja ekki óhætt að fljúga verðum við að fara eftir því,“ segir Rebello ákveðið.

Tapa þúsundum milljóna króna

Spurður um fjárhagsleg áhrif gossins á rekstur SAS vísar Rebello til fréttatilkynningar félagsins frá því á mánudag en þar kemur fram að tapið fram að síðasta sunnudegi sé metið 220-280 milljónir sænskra króna, eða sem svarar 3,886 til 4,946 milljörðum íslenskra króna. Við það bætist tap upp á 50-90 milljónir sænskra króna á dag síðan, eða 883-1.589 milljónir króna á dag.

Aðspurður hvort félagið eigi neyðarsjóð til að grípa til þegar áfall á borð við þetta ríður yfir segir Rebello SAS ekki geta gert ráð fyrir jafn gífurlegri röskun í rekstraráætlunum sínum og orðið hafi.

Geta ekki búist við jafn víðtækri röskun

Hvað snertir líkur á að flugfélög leiti ríkisaðstoðar vegna röskunarinnar lætur Rebello nægja að lýsa því yfir að flugfélög þurfi að setjast niður og ræða hvernig þau hyggist bregðast sameiginlega við þröngri stöðu, sem leggist ofan á erfitt árferði fyrir flugrekstur almennt. Hvað stöðu SAS áhæri sé félagið „í Guðs höndum“, með vísan til eldfjallaeyjunnar í norðri.

Gosið hefur einnig sett áætlun Icelandair úr skorðum og sagði Manon ten Have, sölu- og markaðsstjóri Icelandair í Hollandi, að flug félagsins til Íslands frá Amsterdam hefði verið fellt niður í gær, líkt og síðasta laugardag og sunnudag. Gera mætti ráð fyrir því að sú röskun setti ferðir um 550 ferðalanga úr skorðum, auk þess sem ætla mætti að jafn margir væru strandaglópar á Íslandi af þessum sökum.

Gosið setti einnig stórt strik í ferðaþjónustuna í Hollandi og sagði Andre Ancion, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Urban Homes & Gardens Toors, sem býður upp á leiðsögn um götur Amsterdam, að ferðalangar með takmörkuð fjárráð, einkum í yngri kantinum, hefðu lent í vandræðum með að standa straum af ófyrirsjáanlegum útgjöldum vegna seinkunar á heimförinni.

Orðrómur væri um að hótel færðu sér ástandið í nyt með hækkunum.

Þá væri óvenju rólegt um að litast í Rauða hverfinu og rakti Ancion það til afbókana í skemmri ferðir.

Amsterdam tapar á öskufallinu

Herman Ter Balkt, upplýsingafulltrúi hjá ferðamálaráði Amsterdamborgar, taldi landa sinn ofmeta vanda auralítilla ferðalanga en tók þó fram að borgin hefði tapað miklu fé á gosinu, meðal annars vegna afbókana hjá hótelum.

Starfsemi flutningafyrirtækja hefur einnig raskast og sagði Fred Janssen, sölustjóri hjá Cargo Care í Hollandi, að fyrirtækið hefði tapað tíma en þó ekki fé við að nota flutningabíla í stað Fokker-flugvélar við að dreifa vörum til Skandinavíu.

Í hnotskurn
» Tap SAS vegna þeirrar truflunar sem orðið hefur á flugi á þeim sex dögum sem liðnir eru frá upptökum gossins nálgast nú rétt liðlega 10 milljarða íslenskra króna.
» Til samanburðar kostar Boeing 737-600-þota nú frá um 6,5 milljörðum króna ný, skv. vefsíðu Boeing.