Árni Matthíasson: "Án þess ég vilji kveinka mér sérstaklega undan núverandi ríkisstjórn umfram aðrar stjórnir sem ég hef þurft að þola hingað til (það er sama hvað þú kýst – ríkisstjórnin vinnur), þá hafa lagasetningar hennar verið venju fremur kjánalegar."

Án þess ég vilji kveinka mér sérstaklega undan núverandi ríkisstjórn umfram aðrar stjórnir sem ég hef þurft að þola hingað til (það er sama hvað þú kýst – ríkisstjórnin vinnur), þá hafa lagasetningar hennar verið venju fremur kjánalegar. Dæmi um það er klúðursleg lög um greiðslujöfnun, sem mun taka mörg ár að greiða úr (og greiða fyrir), og annað dæmi nýlegt frumvarp menntamálaráðherra til laga um fjölmiðla sem lagt var fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi.

Það frumvarp er svo gegnsýrt stjórnlyndi að lengi verður í minnum haft, en í því er sitthvað fleira fáránlegt að finna en stjórnlyndi.

Fyrir hálfri öld eða svo birtust fréttir af tilraun vestur í Ameríku. Markaðsrannsóknamaður hefði skotið orðunum „Drekkið Coca Cola“ og „Svangur? Fáðu þér popp“ inn í kvikmynd og stóraukið sölu á kók og poppi fyrir vikið, en auglýsingunni var skotið inn svo hratt (á 1/3000 úr sekúndu á fimm sekúndna fresti) að áhorfendur tóku ekki eftir henni meðvitað, en undirmeðvitundin lét glepjast, eða því hélt þessi snjalli markaðsmaður a.m.k. fram.

Í kjölfar þessarar tilraunar varð almælt að þetta væri eitthvað sem títt væri stundað og svo rammt ku hafa kveðið að óþokkagangi illra risafyrirtækja að þetta athæfi var bannað með lögum vestan hafs og verður nú bannað hér, loksins, því í lagafrumvarpinu nýja stendur þetta: „Í hljóð- og myndsendingum í viðskiptaskyni skal ekki beita tækni til að hafa áhrif á fólk neðan marka meðvitaðrar skynjunar.“

Allt er þetta gott og blessað, eða hvað sýnist þér ágætis lesandi? Kannski veist þú ekki, frekar en höfundar frumvarpsins, að þessi kók og popp-saga er bull, uppspuni, lygi. Fljótlega runnu nefnilega tvær grímur á menn þegar engum tókst að endurtaka þetta sölutrix (og hefur ekki tekist að endurtaka) og á endanum viðurkenndi sá sem stóð að umræddri tilraun að allt var þetta sett á svið. Nú bitnar það svo á okkur að sú viðurkenning hefur ekki náð upp fyrir mörk meðvitaðrar skynjunar hjá frumvarpshöfundum. Eða menntamálaráðherra.

Fyrir þremur áratugum var það títt að foreldrar barna sem höfðu svipt sig lífi eða framið voðaverk kenndu um skilaboðum í tónlistinni sem börnin hlustuðu á. Slík mál komu iðulega fyrir rétt vestan hafs og því þá haldið fram að hljómsveitir eins og Judas Priest, Metallica og Led Zeppelin hefðu grafið í tónlistina lofsöngva um Satan, hvatningar til morða og illra verka og guðmávitahvað. Allt var það falið ýmist afturábak (það þurfti að spila viðkomandi plötur afturábak til að nema boðin), nú eða þá neðan marka meðvitaðrar skynjunar eins og það er svo skemmtilega orðað í áðurnefndu frumvarpi. Því er mér spurn: Verður það ekki bannað líka?

(Það er svo annað mál hvers vegna beita má þessari illu tækni ef hljóð- og myndsendingarnar eru ekki í viðskiptaskyni.) arnim@mbl.is

Árni Matthíasson