ÞEGAR eitthvað fer úrskeiðis og ekki er hægt að skoða alla mögulega tölfræði um íslenskan körfuboltaleik rétt eftir að hann hefur verið flautaður af fer maður að skammast og nöldra.

ÞEGAR eitthvað fer úrskeiðis og ekki er hægt að skoða alla mögulega tölfræði um íslenskan körfuboltaleik rétt eftir að hann hefur verið flautaður af fer maður að skammast og nöldra. Geta mennirnir ekki haft þetta í lagi, einmitt þegar stærstu leikirnir fara fram?

Slíkar hugsanir flugu í gegnum huga minn í fyrrakvöld þegar bið varð á að allt skilaði sér á sinn stað í kerfi körfuboltamanna eftir fyrsta úrslitaleik Keflavíkur og Snæfells.

En það var ekki lengi. Ég var fljótur að átta mig á að þetta var eitt af örfáum svona tilvikum sem hafa komið upp í allan vetur. Mér varð hugsað til þess hvílíka yfirburði körfuboltinn hefur yfir aðrar flokkaíþróttir hér á landi í því að koma nákvæmum upplýsingum um leikina á framfæri, um leið og þeir fara fram.

Stórkostleg þjónusta í körfunni

Frá því leikur á Íslandsmótinu í körfubolta er flautaður á, nánast í hvaða deild sem er, jafnvel í yngri flokkum, er hægt að fylgjast með hverri körfu, hverju frákasti, hverri stoðsendingu, hverri villu, og öðru því sem gerist á vellinum í beinni uppfærslu á netinu. Þetta er hægt vegna þess að hvert einasta félag framfylgir skipunum frá KKÍ og sér til þess að uppfærslan sé í lagi á hverjum einasta leik.

Þetta auðveldar áhugamönnum um íþróttina að fylgjast með, og hvað okkur á fjölmiðlunum varðar er þetta hreint stórkostleg þjónusta. Ekki síst eftir að þeir hjá KKÍ tóku uppá því nýverið að senda fjölmiðlum samantekt á helstu tölum úr hverjum leik í tölvupósti nokkrum mínútum eftir að honum lýkur.

Badminton með frábært kerfi

Og þá verður mér hugsað til annarra íþróttagreina. Badmintonfólk er með frábært kerfi sem gerir öllum auðvelt að fylgjast með keppni hérlendis og erlendis í „beinni“, hvar sem okkar fólk er á ferðinni. Þess vegna eru fregnir af gengi badmintonfólksins okkar erlendis alltaf komnar á mbl.is um leið og leikjum þess lýkur.

Íshokkímenn eru með beinar netlýsingar hjá sér, sundúrslit eru víða aðgengileg um leið og keppni lýkur, og fleiri mætti eflaust nefna sem hafa lagað sig að hraða nútímans. Sem við á fjölmiðlunum þurfum að miða okkur við í æ ríkari mæli.

Víða er pottur brotinn

En víða er pottur brotinn, eins og máltækið segir. Það eru ekki allir í takt við tímann.

Fótboltinn hefur til dæmis verið með einfalt og gott leikskýrslukerfi á netinu um árabil en nýtir það engan veginn sem skyldi. Það er hending ef félög eru búin að skrá skýrslurnar á netið klukkutíma eftir leik og oftast þarf að bíða mun lengur eftir þeim. Og er það þó margfalt einfaldara en að skrásetja körfuboltaleik með öllum sínum körfum, villum, fráköstum og stoðsendingum. Einn félagsmaður með fartölvu getur hæglega uppfært skýrsluna á netinu meðan leikurinn stendur yfir en slíkt er ekki gert nema í einhverjum undantekningartilvikum. Þeir hjá KSÍ ættu að skoða hvernig sænska knattspyrnusambandið afgreiðir leikina í beinni með glæsibrag á sínum vef.

Ljósárum á eftir öðrum

Í handboltanum eru menn síðan ljósárum á eftir flestum öðrum. Í gær ætlaði ég að skoða á vef HSÍ hvernig lið Vals og Fram hefðu verið skipuð í fyrsta úrslitaleiknum í kvennaflokki á sunnudaginn en sá mér til mikillar undrunar að það var ekki einu sinni búið að skrá skýrslurnar úr undanúrslitaleikjunum sem þó lauk 11. apríl. Kannski þær verði komnar í haust?

HSÍ hefur reyndar gert skurk í sínum málum í vetur og skikkað félögin til að senda fjölmiðlum leikskýrslur í tölvupósti strax og leikjum lýkur. Flest hafa þau staðið sig ágætlega í því en það er samt eins og tölvuvæðingin hafi barið seinna að dyrum á þeim bænum en annars staðar.

vs@mbl.is

Eftir Víði Sigurðsson