Ekið í öskunni Eldfjallaaskan gerir bændum lífið leitt á margan hátt. Ekki er hægt að beita fé, kúm eða hrossum.
Ekið í öskunni Eldfjallaaskan gerir bændum lífið leitt á margan hátt. Ekki er hægt að beita fé, kúm eða hrossum. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bændur í öðrum sveitum og landshlutum bjóða útihús og beitarhólf fyrir skepnur bænda á öskufallssvæðinu. Lög um sauðfjárveikivarnir takmarka flutninga á fé og heyi.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

FLJÓTLEGA eftir að sauðburður hefst fyrir alvöru á öskufallssvæðunum lenda bændur í vandræðum. Fæstir hafa húsnæði fyrir féð þegar lömbin hafa bæst í hópinn. Þótt nægilegt land sé utar í sýslunni er erfitt að nýta það fyrir fé þar sem ekki er heimilt að flytja það til baka þar sem varnarlína sauðfjárveikivarna er um Markarfljót.

Enn er mikil óvissa um þróun mála. Eldfjallið gýs og í gær var ennþá öskufall í nágrenni þess.

Bændur hafa áhyggjur af stöðunni og dæmi eru um að menn séu að gefast upp. „Þetta lýsir sér í kvíða og óvissu um framtíðina. Það er erfitt að standa í búskap við þessar aðstæður,“ segir Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands.

Svartsýnir um sumarbeit

Menn utan svæðisins, til dæmis utar í Rangárvallasýslu, hafa verið að bjóða fram beitarhólf og húsnæði. Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, segir að einnig berist fyrirspurnir um það frá bændum hvort þeir eigi að heyja meira til að hlaupa undir bagga vegna erfiðleikanna undir Eyjafjöllum.

Ekki er talið ráðlegt að flytja heilu kúabúin þótt húsnæði og jarðnæði bjóðist enda hægt að fóðra nautgripina og mjólka inni.

Hins vegar verður fljótt þröngt um féð þegar sauðburður hefst og margir eru svartsýnir á sumarbeit.

Samkvæmt lögum um varnir gegn dýrasjúkdómum má ekki flytja lifandi fé yfir varnarlínu. Svæðið frá Markarfljóti og austur á Skeiðarársand er eitt hólf sem er hreint af riðu og garnaveiki. Því mega bændur undir Eyjafjöllum ekki flytja fé í hagagöngu í Landeyjar eða aðrar sveitir vestan Markarfljóts.

Sveinn segir að ef ástandið lagist ekki sé möguleiki á því að setja lambféð út í lítil hólf en tryggja þurfi aðgang að hreinu vatni og fóðri. Nægar heybirgðir eru til í landinu og þótt takmarkanir séu á heyflutningum yfir varnarlínur er hvert tilvik metið út frá aðstæðum á viðkomandi stað.

Mikil mjólkurframleiðsla

Sveitirnar í kringum Eyjafjallajökul eru mikilvæg landbúnaðarhéruð og leggja til drjúgan hluta mjólkur og nautgripa- og kindakjöts landsmanna. Mikil mjólkurframleiðsla er í Landeyjum og undir Eyjafjöllum og sauðfjárrækt er öflug í Skaftárhreppi.

Greiðslumark í mjólk er nærri 20 milljón lítrar sem er 16,6% af greiðslumarki í landinu. Hlutur sauðfjárræktar er minni, eða um 8,6% af heildargreiðslumarki í sauðfé.

Tæplega 7000 hross eru í þessum sveitum samkvæmt forðagæsluskýrslum sem er um 9% af heildarfjölda hrossa í landinu. Talið er að fjöldi hrossa til viðbótar hafi verið í Landeyjum þegar gosið hófst.

Mjólkin fer í duft þar til niðurstöður rannsókna koma

ENGIN ástæða er til að efast um gæði afurða úr hráefni sem til fellur á öskufallssvæðum Suðurlands. Mjólkursamsalan framleiðir duft úr mjólkinni undan Eyjafjöllum og nágrenni og heldur því sér þangað til niðurstöður mælinga á efnainnihaldi mjólkurinnar liggja fyrir.

Guðmundur Geir Gunnarsson, mjólkurbússtjóri MS á Selfossi, segir að sýni úr mjólkinni af öskufallssvæðinu hafi verið send til rannsóknar. Sérstaklega verði flúorinnihald athugað. „Það er rétt að gæta varúðar og vera ekki með neinar getsakir, heldur fá niðurstöður,“ segir Guðmundur Geir. Hann segir von á fyrstu niðurstöðum undir lok vikunnar.

Eftirlitsmenn og bílstjórar fylgjast einnig með mjólkinni á hefðbundinn hátt. Engin merki hafa sést um að aska hafi komist í mjólkurtanka. helgi@mbl.is