Ólafur Ragnar Grímsson
Ólafur Ragnar Grímsson
Það var eitthvað dálítið sérkennilegt við afhendingu útflutningsverðlauna forsetans í gær.

Það var eitthvað dálítið sérkennilegt við afhendingu útflutningsverðlauna forsetans í gær.

Margir helstu almannatenglar landsins voru allan daginn á þönum við að útskýra fyrir erlendum fjölmiðlum að orð forsetans í BBC um að eldgosið nú væri aðeins sýnishorn af því sem koma skyldi, væru ekki endilega í samræmi við raunveruleikann.

Samhæfingarmiðstöð Almannavarna, ferðamálayfirvöld, flugfélög og ýmsir aðrir fengu í gær einnig að sinna fyrirspurnum vegna óvæntrar útrásar forsetans.

En þetta truflaði ekki afhendingu útflutningsverðlauna forsetans enda verðlaunin mikilvæg.

Verðlaunahafar hafa á liðnum árum að vísu verið af ýmsum toga og verðlaunaveitingarnar misvel heppnaðar þó að þær hafi vitaskuld allar verið faglegar. Um það er ekki efast og því til staðfestingar er seta núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra í dómnefndum.

Ein athyglisverðasta verðlaunaafhendingin er án efa til Kaupþings árið 2005, ári áður en Ísland lenti í litlu fjármálakrísunni. Enn athyglisverðara var þó þegar forsetinn afhenti „útflutningsfyrirtækinu“ Baugi Group útflutningsverðlaunin árið 2008, skömmu áður en fyrirtækið fór í þrot eftir örlagaríkt útrásarævintýri.

Í ljósi sögunnar og nýrra ummæla forsetans á erlendum vettvangi var afhending útrásarverðlauna forsetans í gær óneitanlega nokkuð sérstök.