Öskuþoka Gríðarmikil aska er enn í loftinu nálægt Eyjafjallajökli. Hún ertir bæði augun og öndunarfærin svo best er fyrir þá sem hætta sér nærri að vera vel útbúnir.
Öskuþoka Gríðarmikil aska er enn í loftinu nálægt Eyjafjallajökli. Hún ertir bæði augun og öndunarfærin svo best er fyrir þá sem hætta sér nærri að vera vel útbúnir. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Önund Pál Ragnarsson onundur@mbl.is RÍKISSTJÓRNIN mun tryggja Bjargráðasjóði nægilegt fjármagn til að standa undir því tjóni, sem honum er lögum samkvæmt ætlað að bæta, vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Eftir Önund Pál Ragnarsson

onundur@mbl.is

RÍKISSTJÓRNIN mun tryggja Bjargráðasjóði nægilegt fjármagn til að standa undir því tjóni, sem honum er lögum samkvæmt ætlað að bæta, vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Þetta var ákveðið á fundi hennar í gærmorgun.

„Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að standa á bak við þau í þessum erfiðleikum sem þarna eru. Til að tryggja þarna áfram búsetu, til að tryggja þarna áfram öflugan landbúnað,“ sagði Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra í samtali við Morgunblaðið.

Bjargráðasjóður þarf framlög

Annars vegar eru það Viðlagatrygging Íslands og hins vegar Bjargráðasjóður sem bæta tjón vegna gossins.

Sjóðurinn er svo gott sem tómur, miðað við umfang tjónsins sem gæti orðið. Aðeins eru í honum fáeinar milljónir króna. Aðspurður sagði Jón Bjarnason það ekki hafa verið rætt hvaða upphæð þyrfti að leggja til hans, en hann kvaðst efins um að það væri upphæð sem næði milljarði, enn sem komið er.

Bjargráðasjóði er aðallega ætlað að bæta uppskerubrest, tjón á búpeningi, ræktarlandi, túnum og girðingum. Árni Snæbjörnsson, starfsmaður sjóðsins, sagði í gær að nú þyrfti hins vegar líklega að ræða hvernig og hvort taka ætti á tjóni á úthögum vegna öskufalls og fleiru slíku. Aðspurður sagði Jón það ekki hafa verið rætt, en taldi þó mögulegt að bæta mjög víðtækt tjón.

„Við munum reyna að bæta allt það tjón sem bændur verða fyrir sem viðkemur landbúnaði og landbúnaðarframleiðslu. Bændum verður veittur allur stuðningur sem kostur er á að veita,“ sagði hann.

Ásgeir Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands, sagði félagið vel í stakk búið til að greiða út bætur vegna eldgossins, en það bætir meðal annars einnig tjón af völdum skriðufalla og flóða. Viðlagatrygging bætir tjón á brunatryggðum húseignum og lausafé. „Eigið fé Viðlagatryggingar er 15 milljarðar króna,“ sagði hann.

Vildi meiri og skjótari viðbrögð

Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, fagnaði yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á Alþingi í gær. Hann sagðist hins vegar vilja sjá mun skjótari og umfangsmeiri viðbrögð. Strax ætti að skipa nefnd til að meta tjón á landareignum og ráða í það minnsta hundrað björgunarsveitarmenn til að sinna verkum sem þarf að sinna í sveitunum. Einnig ætti að virkja strax þá sjálfboðaliða sem hefðu boðið sig fram víða um landið til að hjálpa.

Hrygningarsvæðin ósködduð af hlaupinu

Ekki virðist hafa orðið tjón á hrygningarstöðvum undan suðurströnd landsins vegna flóðsins úr Gígjökli. Hafró gerði rannsóknarskipið Bjarna Sæmundsson út 15.-18. apríl til að kanna áhrifin.

Mest af ferskvatnsblönduðum sjó fannst um 20 sjómílur vestur af Heimaey. Af seltudreifingunni réð Héðinn Valdimarsson leiðangursstjóri að flóðvatnið hefði nánast farið beina leið út á meira dýpi, en ekki lagst grunnt vestur með landinu. „Þarna voru líka nokkuð stríðar vestanáttir sem hafa huganlega haldið þessu ferskvatni frá því að færast í vesturátt,“ segir Héðinn.

Frekari greining sýna mun verða gerð fljótlega og mun þá gefa fyllri mynd. Sýni voru tekin af svifþörungum, átu, fiskeggjum og lirfum. Þau sýndu að vorkoma gróðurs var hafin og hrygning og klak var í fullum gangi. Hafrannsóknastofnunin mun á næstu vikum fara til endurtekinnar sýnatöku á gosslóð svo fyllri mynd fáist af þróun mála.

Bændur hvattir til að auka ræktun á korni og grænfóðri

VÍSINDAMENN Landbúnaðarháskóla Íslands hittast í dag til að skipuleggja rannsóknir á mengun í gróðri og vatni og skemmdum á ræktun vegna öskufalls á Suðurlandi. Jarðræktarráðunautur telur rétt að auka kornrækt á svæðinu.

Kristján Bjarndal Jónsson, jarðræktarráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, telur skynsamlegt að auka áherslu á ræktun sem skilar uppskeru í haust, svo sem grænfóðri og byggi. Minni líkur séu á að askan valdi erfiðleikum við þá ræktun en hefðbundinn heyskap sem ætti að hefjast eftir tæpa tvo mánuði.

Helstu mótvægisaðgerðir gegn öskumengun er að bíða í nokkra daga með að plægja og kalka akrana með skeljasandi.

Starfsmenn Landbúnaðarháskólans munu taka kjarna úr mismunandi jarðvegsgerðum til að sjá hvort og hversu hratt flúor og önnur eiturefni skolast niður í gegn um jarðveginn og í grunnvatn. Áslaug Helgadóttir, deildarforseti auðlindadeildar, segir að einnig verði tekin sýni úr gróðri þegar hann fer að lifna og jarðvegi til að athuga efnainnihald. Þá verða gerðar athuganir á öskufoki og metnar skemmdir á túnum svo að hægt verði að meta þörf fyrir aðra fóðuröflun. helgi@mbl.is