Orkan í iðrum jarðar hefur minnt rækilega á sig hér á landi síðustu daga og vikur. Þessi orka brýst nú með látum upp úr Eyjafjallajökli og veldur ómældum skaða bæði hér á landi og erlendis.

Orkan í iðrum jarðar hefur minnt rækilega á sig hér á landi síðustu daga og vikur. Þessi orka brýst nú með látum upp úr Eyjafjallajökli og veldur ómældum skaða bæði hér á landi og erlendis.

Þó að hamfarirnar í Eyjafjallajökli og nágrenni séu óskemmtilegar á þessi orka sér jákvæðari hliðar, eins og Íslendingar þekkja sennilega allra þjóða best. Jarðhitinn hefur verið Íslandi gríðarlega þýðingarmikill þar sem hann hefur hitað flest hús landsmanna og er þar að auki vaxandi orkugjafi margvíslegra iðnfyrirtækja.

Íslandsbanki kynnti í gær nýja skýrslu um íslenska jarðhitamarkaðinn þar sem farið er yfir þróun og horfur á þessu sviði. Skýrslan er um margt mjög fróðleg og þar er ýmislegt athyglisvert, til að mynda hve mikillar fjárfestingar er þörf á næstu árum. Fram kemur að þörf sé á ríflega eitt hundrað milljarða króna eiginfjárframlagi og nær tvö hundruð milljarða króna lánsfé til þeirra verkefna sem áætluð séu fram til ársins 2017.

Í skýrslunni segir einnig að fjármagn þurfi frá öðrum en núverandi eigendum orkufyrirtækjanna til að þróa orkuverkefni áfram hér á landi og að Ísland keppi við aðrar þjóðir um fjármagn til verkefna á sviði jarðhitaorku.

Annað sem athygli vekur í skýrslunni er umfjöllun um hvað hafi áhrif á áhuga fjárfesta í jarðhitageiranum. Þar segir eftirfarandi um áhrifaþætti fjármögnunar áætlaðra verkefna: „Mikilvægustu þættirnir eru hið pólitíska ástand, pólitísk áhætta, aðstæður til fjárfestingar og síðast en ekki síst framlegð.“

Þetta er ekki allt því í skýrslunni segir ennfremur um pólitíkina: „Hvað snertir stjórnmálalegu hliðina hafa fjárfestar greinilega áhyggjur af viðhorfum til fjárfestinga útlendinga og stjórnmálalegum áhrifum slíkra fjárfestinga.“

Þeir sem hlustað hafa á íslenska ráðherra ræða þessi mál að undanförnu hafa sennilega nokkuð aðra mynd af þessu máli. Þeir kynnu að ætla að lausn Icesave-deilunnar væri meðal veigamikilla þátta í uppbyggingu jarðhitaverkefna hér á landi enda hafa ráðherrar iðulega notað Icesave-málið sem afsökun fyrir því að engin uppbygging á sér stað í atvinnulífinu. Þeir halda því fram að þetta sé meginskýring þess að erlent fjármagn fæst ekki inn í landið.

Miðað við málflutning ráðherranna kann því að koma á óvart að í skýrslunni er ekki orð um Icesave, en mikil áhersla lögð á pólitíska þáttinn. Hið „pólitíska ástand“ og „pólitísk áhætta“ eru þeir þættir sem nefndir eru fyrstir sem mikilvægustu þættirnir þegar kemur að áhuga fjárfesta.

Pólitískt ástand í landinu hefur ekki alltaf verið þannig að erlendir fjárfestar hafi „greinilega áhyggjur“ af því. Pólitískt ástand hefur þvert á móti oftast verið meðal jákvæðra þátta þegar fjárfestar hafa lagt mat á hvort þeir ættu að hætta fé sínu hér á landi eða ekki. Núverandi stjórnvöld verða að endurskoða afstöðu sína í þessu efni og taka upp stefnu sem er hliðholl atvinnuuppbyggingu, en ekki andsnúin henni. Íslenskt þjóðfélag hefur ekki efni á að búa áfram við óbreytt pólitískt ástand.