„ÉG tek þessu nú bara rólega, en vinkonur og börnin alveg hreint rífast um að fá að bjóða manni út svo nú er bara að ákveða hvar maður endar,“ segir Fanný Jónmundsdóttir, sem er 65 ára í dag.

„ÉG tek þessu nú bara rólega, en vinkonur og börnin alveg hreint rífast um að fá að bjóða manni út svo nú er bara að ákveða hvar maður endar,“ segir Fanný Jónmundsdóttir, sem er 65 ára í dag. Fannýju eru þó ofar í huga önnur tímamót en afmælið því það er henni ekki síður fagnaðarefni að í dag sé síðasti vetrardagur og sumarið því framundan. „Mér finnst voðalega gaman að vera í garðinum mínum á vorin og fylgjast með blómunum koma upp. Það er alveg dásamlegt, eins og að horfa á barnabörnin vaxa úr grasi. Það er mesta hamingjan í lífinu.“ Markmið Fannýjar í sumar er fyrst og fremst að verða heilsuhraustari, en hún datt af hestbaki fyrir tæpu ári og er enn að jafna sig af meiðslunum. „Svo ég held að ég haldi nú ekki upp á afmælið með því að fara á hestbak, en ég æfi mig kannski á háhæluðu skónum loksins og mæti á þeim í vinnuna. Dressa mig upp í tilefni dagsins.“ Hún gælir jafnvel við að fara pílagrímagöngu frá Þingvöllum að Skálholti í sumar. „Ég yrði nú svolítill pílagrímur ef ég færi þetta á hækjunum,“ segir hún og hlær. „Maður hefur nú gert ýmislegt um ævina og ég ætla að halda því áfram, það verður að nota hugann og viljann til að njóta sín.“ una@mbl.is