Víðförull Levin þekkir ágætlega til uppbyggingar íslensks stjórnkerfis.
Víðförull Levin þekkir ágætlega til uppbyggingar íslensks stjórnkerfis. — Morgunblaðið/Ernir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.is BRÝNT er að dómskerfinu verði gert kleift að öðlast gleggri innsýn í nútíma fjármálastarfsemi áður en dómsmál sem lúta með einum eða öðrum hætti að efnahagshruninu verða tekin til meðferðar.

Eftir Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

BRÝNT er að dómskerfinu verði gert kleift að öðlast gleggri innsýn í nútíma fjármálastarfsemi áður en dómsmál sem lúta með einum eða öðrum hætti að efnahagshruninu verða tekin til meðferðar.

Þetta er mat lögfræðingsins dr. Daniel Levin, sem hefur á viðburðaríkum ferli meðal annars komið að samningu nýrrar stjórnarskrár í Rússlandi eftir hrun kommúnismans, ásamt því að koma að upplýsingaherferð um fjármálastarfsemi á fyrra kjörtímabili Vladímírs Pútíns forseta, árið 2003.

Levin flutti erindi í Hátíðarsal Háskóla Íslands í gær og fundaði meðal annars með Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra og fulltrúum Samfylkingarinnar.

Hann hefur fylgst með íslenska hagkerfinu frá því hann veitti seðlabankanum ráðgjöf snemma á tíunda áratugnum en undir lok áratugarins kveðst hann hafa orðið var við tortryggni hjá Fjármálaeftirlitinu um að styrkja þyrfti stofnunina.

Þegnarnir þurfa upplýsingar

Aðspurður hvað hann telji að stjórnvöld eigi að taka til bragðs á þessum tímapunkti í kjölfar hrunsins kveðst Levin vera þeirrar skoðunar að upplýsa þurfi þegnana betur um ýmis grundvallaratriði fjármálastarfsemi, enda hafi reynsla hans víðsvegar um heiminn leitt í ljós að margt sé þar óunnið.

Máli sínu til stuðnings vísar Levin til Bandaríkjanna, þar sem hann hefur verið búsettur undanfarna tvo áratugi, og þáttar þessa upplýsingaskorts í mikilli skuldasöfnun einstaklinga, meðal annars vegna hárra lána til að fjármagna húsnæðiskaup.

Inntur eftir því hvort ekki sé óraunhæft að upplýsa almenning um flókinn fjármálamarkað samtímans svarar Levin því til að hann hafi meðal annars komið að miðlun upplýsinga um svokallað pýramídasvindl, þar sem svikahrappar lofa almenningi gífurlegri ávöxtun, með því að flétta þær inn í söguþráð vinsællar sápuóperu í sjónvarpi. Með því móti hafi almenningur innbyrt upplýsingar um hættuna án þess að gefa henni sérstakan gaum.

Fleiri hliðar eru á fjármálaum samtímans og segir Levin það sama gilda, hvort sem fengist sé við pýramídasvindl eða skuldavafninga, að ef sölumaðurinn geti ekki útskýrt á einfaldan hátt í hverju ágóðinn liggi sé best að láta viðskiptin vera.

Sagan endurtaki sig ekki

Nú þegar kreppi að sé mikilvægt að fjármálalæsi verði aukið, bæði til að auðvelda fólki að sjá í gegnum gróðabrall af þessu tagi og til að draga úr líkum á því að það lendi í fjárhagsvandræðum vegna rangrar ákvarðanatöku í framtíðinni.

Í hnotskurn
» Levin var einn sérfræðinga sem störfuðu með Jeffrey Sachs og fleiri hagfræðingum að uppbyggingu frjáls markaðar í Rússlandi.
» Hann hætti samstarfinu vegna óánægju með skort á skilningi hagfræðinganna á aðstæðum heimamanna.
» Hann kom svo aftur til starfa fyrir Rússlandsstjórn í forsetatíð Pútíns.