ÞORSTEINN Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og ritstjóri, skrifaði grein í Fréttablaðið sl. laugardag þar sem hann hélt því fram að lög um Landsdóm færu í bága við Mannréttindasáttmála Evrópu.

ÞORSTEINN Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og ritstjóri, skrifaði grein í Fréttablaðið sl. laugardag þar sem hann hélt því fram að lög um Landsdóm færu í bága við Mannréttindasáttmála Evrópu. Rök hans voru á þá leið að sáttmálinn veitti einstaklingum rétt til að fá mál sín endurskoðuð af æðra dómstigi, og þar sem Landsdómur væri aðeins eitt dómstig væri þetta brot á sáttmálanum. Því væri Landsdómur ónothæfur.

Um þetta hafa ýmsir tjáð sig, þar á meðal Sigurður Líndal og Ragnhildur Helgadóttir lagaprófessorar. Í þeirri umræðu sem hefur átt sér stað virðist eitt atriði þó hafa farið forgörðum. Í 14. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um ráðherraábyrgð. Þar segir að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, að ráðherraábyrgð sé ákveðin með lögum og að Alþingi geti kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Þá segir í næsta málslið að Landsdómur dæmi þau mál.

Því er kveðið á um Landsdóm í stjórnarskránni, sem er æðsta réttarheimildin. Því er skýr heimild í stjórnarskránni fyrir Landsdómi. Mannréttindasáttmáli Evrópu, sem slíkur, er ekki æðri réttarheimild en stjórnarskráin, þó að sáttmálanum hafi verið veitt lagagildi á Íslandi. Því getur mannréttindasáttmálinn ekki gert Landsdóm ónothæfan, eins og haldið hefur verið fram. Alþingismenn vinna eið að stjórnarskránni, ekki mannréttindasáttmálanum.

Höfundur er lögfræðingur.