Karen Knútsdóttir
Karen Knútsdóttir
KAREN Knútsdóttir, leikstjórnandi Fram, lenti í vandræðum gegn sterkri vörn Vals í gærkvöldi, eins og flestir leikmanna Fram, þó hún hafi skilað mörgum mörkum af vítalínunni.

KAREN Knútsdóttir, leikstjórnandi Fram, lenti í vandræðum gegn sterkri vörn Vals í gærkvöldi, eins og flestir leikmanna Fram, þó hún hafi skilað mörgum mörkum af vítalínunni. „Við mættum engan veginn tilbúnar til leiks og vorum á hælunum allan leikinn. Vörn okkar var hálfgert gatasigti og því fengum við nánast engin auðveld hraðaupphlaupsmörk. Sóknarleikurinn klikkar svolítið í kjölfarið af því. Þegar maður spilar góða vörn þá skapar það samstöðu í liðinu og sóknarleikurinn fylgir í kjölfarið. Sóknin var voðalega tilviljanakennd og við vorum eiginlega bara farþegar með Stellu í þessum leik. Við vorum bara að horfa á hana og það þurfa fleiri að taka af skarið í næsta leik,“ sagði Karen í samtali við Morgunblaðið og hún neitar því ekki að staðan sé orðin erfið fyrir Fram.

„Við erum náttúrlega komnar upp að vegg. Staðan er 0:2 og það þarf að vinna þrjá leiki en við getum alveg gert það. Við þurfum að byrja á því að mæta brjálaðar til leiks á föstudaginn. Nú er að duga eða drepast og við þurfum að sýna hvað í okkur býr. Við höfum engan veginn sýnt okkar rétta andlit í þessum tveimur leikjum og mér finnst við eiga heilmikið inni. Það verður bara að koma núna,“ sagði Karen og vildi ekki meina að spennan hefði of mikil áhrif á unga leikmenn Fram. „Við erum alla vega ekki að mæta rétt undirbúnar en ég held að það þurfi hver og ein að fara að hugsa svolítið um sjálfa sig. Vandamálið liggur algerlega hjá okkur sjálfum. Undirbúningurinn hefur verið mjög góður og við eigum að vera vel stemmdar. Við höfum spilað úrslitaleiki áður og ég held að spennustigið sé rétt,“ sagði Karen ennfremur en hún hefur átt mjög gott keppnistímabil og var valin besti leikmaður þriðju umferðarinnar. kris@mbl.is