Kaldir vindar Rússneskt hafrannsóknaskip á norðurskautssvæðinu.
Kaldir vindar Rússneskt hafrannsóknaskip á norðurskautssvæðinu. — Reuters
VÍSINDAMENN hafa komist að því að ísinn á norðurskautssvæðinu hefur breiðst út og hefur ekki verið á stærra svæði frá árinu 2001.

VÍSINDAMENN hafa komist að því að ísinn á norðurskautssvæðinu hefur breiðst út og hefur ekki verið á stærra svæði frá árinu 2001.

Þetta kemur fram á vefsíðu grænlenska fréttablaðsins Sermitsiaq sem segir að breytingar á köldum vindum yfir Beringshafi hafi orðið til þess að ísinn hafi breiðst út um þúsundir ferkílómetra. Ísþekjan mældist um 15,25 milljónir ferkílómetra í mars, að sögn blaðsins.

Ísþekjan nær yfirleitt hámarki um miðjan mars og byrjar þá að bráðna en hún hélt áfram að stækka á síðari helmingi mánaðarins, að sögn breska dagblaðsins The Daily Telegraph .

Mark Serreze, vísindamaður við bandarísku ís- og snjórannsóknamiðstöðina NSIDC í Colorado, undrast hversu hratt ísinn hefur breiðst út eftir mikla bráðnun hans á árinu 2007 þegar hann var minni en nokkru sinni fyrr frá því að mælingar hófust.

„Þetta er ekki nein vísbending um að hlýnun jarðar sé lokið,“ hefur The Daily Telegraph eftir Serreze. „Ef við lítum á norðurskautssvæðið sem heild getum við komist að því að stærð íssins er í meðallagi miðað við árstíma. En ísinn er þunnur og veikur og getur bráðnað mjög hratt.“

Nokkrir vísindamenn sögðu eftir bráðnunina árið 2007 að hafísinn kynni að hverfa að mestu á sumrin innan fimm til tíu ára, eða á árunum 2013-2018. David Whitehouse, fræðimaður í ráðgjafarnefnd hugveitunnar Global Warming Policy Foundation, segir að stækkun íssins nú sýni að sú spá sé „mjög óraunhæf“.

„Raunveruleikinn er sá að jörðin hefur hlýnað vegna gróðurhúsalofttegunda en það væri rangt að líta á skammtímabreytingar á veðurfari, straumum og ísþekjunni á norðurskautssvæðinu sem vísbendingu um það,“ hafði The Daily Telegraph eftir Vicky Pope, vísindamanni bresku veðurstofunnar. bogi@mbl.is