Kristján Guðmundsson
Kristján Guðmundsson
Frá Kristjáni Guðmundssyni: "EFTIR að gos hófst í Eyjafjallajökli hefur bulið á landslýð fáfræði íslenskra blaða- og fréttamanna. Á rúmum tveimur sólarhringum hefur yfir sjötíu sinnum bulið á landslýð orðið „strandaglópur“."

EFTIR að gos hófst í Eyjafjallajökli hefur bulið á landslýð fáfræði íslenskra blaða- og fréttamanna.

Á rúmum tveimur sólarhringum hefur yfir sjötíu sinnum bulið á landslýð orðið „strandaglópur“.

Svo virðist sem fréttamenn hafi ekki fullt vald á íslenskri tungu eða viti ekki hver merking felst í mörgum orðum í íslensku og eitt af þeim er orðið strandaglópur.

Orð þetta er allgamalt og er frá fyrri öldum þegar siglingar yfir höfin voru eini möguleikinn til að komast á milli landa sem haf aðskildi. Vegna strjálla ferða á milli gat það kostað ómæld óþægindi að verða af skipsferð, en þá þekktust ekki skipulagðar ferðir eins og í nútímasamfélögum. Það kom því fyrir að þeir sem ætluðu með skipi, hvort sem það voru farþegar eða skipverjar, voru ekki komnir um borð á þeim tíma þegar skipi skyldi siglt af stað. Slíkt henti alloft vegna afglapa eða aulaháttar skipverja eða farþega og var skipi siglt án þess að áhyggjur væru uppi vegna þeirra sem vantaði. Þörf var á að sigla skipi af stað á tilteknum tíma vegna sjávarstöðu og eins til tveggja tíma seinkun á glópunum gat þýtt 12 eða 24 klst. seinkun á burtför.

Þar af leiðandi var almennt ekki beðið eftir þeim glópum sem ekki mættu á réttum tíma. Voru slíkir aular kallaðir strandaglópar .

Strandaglópur merkir maður sem ætlaði með tilteknu flutningatæki (skipi) en skipið er farið þegar viðkomandi mætir á burtfararstað.

Í fréttaflutningi andlegra strandaglópa hefur aldrei verið hægt að sjá að það fólk sem fréttamenn kalla strandaglópa hafi ekki verið mætt á tilteknum stað til að fara með viðkomandi farartæki.

Fólk þetta hefur verið hindrað í að halda áfram för sinni af óviðráðanlegum orsökum og því ekki um aðra glópsku en blaða- og fréttamanna.

Því miður er þekkingu blaða- og fréttamanna á merkingu sumra orða og orðasambanda í íslensku mjög ábótavant. Má þar nefna orð og orðasambönd eins og ballarhaf, krummaskuð, að bjarga slysi, að forða slysi o.fl.

Væri æskilegt að blaða- og fréttamenn bættu úr slöku málfari sínu.

KRISTJÁN GUÐMUNDSSON,

f.v. skipstjóri.

Frá Kristjáni Guðmundssyni