<strong>Nútíminn</strong> Svona lítur „bóndabær“ út í dag, hvergi belju að sjá en þær eru líklega í þúsundatali í girðingu fyrir utan.
Nútíminn Svona lítur „bóndabær“ út í dag, hvergi belju að sjá en þær eru líklega í þúsundatali í girðingu fyrir utan.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Robert Kenner. Handrit: Robert Kenner, Elise Pearlstein og Kim Roberts. Bandaríkin. 2008. 94 mín.

Í Food, Inc . fjallar kvikmyndagerðarmaðurinn Robert Kenner um landbúnaðariðnaðinn í Bandaríkjunum, með stórri áherslu á iðnaður . Í upphafi myndarinnar er áhorfandinn minntur á þá staðreynd að þrátt fyrir að margar landbúnaðarvörur séu merktar og auglýstar með því að vísa í bóndann og bóndabæinn; gömlu rauðmáluðu hlöðuna og flekkóttu kýrnar á beit í skærgrænu túni, er sannleikurinn sá að örfá stórfyrirtæki eiga nánast allan markaðinn og uppruni varanna og framleiðsluhættirnir eru ekkert í líkingu við það sjónarspil sem sett er upp fyrir neytendur.

Myndin sýnir og segir frá því hvernig kjöt, korn og grænmeti er ræktað við vafasamar aðstæður og fjallar um framleiðsluferlið út frá ýmsum sjónarmiðum, t.d. hvernig farið er með dýrin, hvernig þau eru ræktuð og hvernig þeim er slátrað, hvernig allt ferlið við landbúnaðarframleiðslu virðist hafa hraða og magn að höfuðmarkmiðum og hvernig ítök stórfyrirtækjanna hafa stórkostleg áhrif á lagasetningar sem virðast ekki lengur miða að þörfum og velsæld almennings, heldur fjárhagslegum hagsmunum fyrirtækjanna.

Það vill oft há heimildarmyndum að ekki er farið nógu ítarlega í hlutina og í Food, Inc . er í sjálfu sér stiklað á stóru. En það á vel við hér, í myndinni er leitast við að gefa áhorfandanum einhvers konar yfirsýn, á yfirvegaðan og rökvissan hátt. Í myndinni eru t.d. sýnd myndbrot af illri meðferð dýra, en bara af því að svona er þetta; maður fær það ekki á tilfinninguna að þau séu þarna til að sjokkera áhorfandann og fá hann á sitt band með áróðri, eins og gjarnt er um heimildarmyndir. Annað dæmi er umfjöllunin um þessi örfáu stórfyrirtæki sem virðast stjórna bransanum; það er fjallað um þau og sagt frá tölfræðinni og talað við fólk sem hefur átt samskipti við þau, en það er enginn gegndarlaus áróður í gangi um að öll stórfyrirtæki séu á samningi í neðra. (Stór hluti kostnaðarins við myndina fór víst engu að síður í lögfræðinga til að vernda kvikmyndagerðarfólkið frá lögsóknum stórfyrirtækjanna.)

Í Food, Inc . er m.a. talað við Eric Schlosser, höfund Fast Food Nation , og Michael Pollan, sem einnig hefur skrifað um matvælaiðnaðinn í Bandaríkjunum, og báðir hafa ákveðnar skoðanir en setja sjónarmið sín fram á yfirvegaðan og rökrænan hátt og gefa tóninn fyrir myndina; það er ekki verið að bölva stórfyrirtækjum í sand og ösku en það sem þeir vilja er að hulunni verði svipt af landbúnaðariðnaðinum og það verði skoðað hvernig þessi svokallaða hagkvæmni við fjöldaframleiðsluna, að stóru fyrirtækin sjái bara um þetta, hefur raunverulega haft áhrif á fólkið í landinu.

Food, Inc . er mjög áhugaverð mynd, vekur margar spurningar og þá kannski ekki síst hvernig mál standa annars staðar í heiminum.

Hólmfríður Gísladóttir

Höf.: Hólmfríður Gísladóttir