Vatnsbretti Blær frá Langárfossi fer nokkuð djúpt í vatnið til að taka vel á.
Vatnsbretti Blær frá Langárfossi fer nokkuð djúpt í vatnið til að taka vel á.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á fyrstu sjúkra- og þrekþjálfunarmiðstöð landsins fyrir hross, fara gæðingar á göngubretti í vatni, víbringsgólf og hringekju. Að þjálfa hest án þess að hafa knapa á baki, dregur mjög úr álagi á fætur og liði.

Á fyrstu sjúkra- og þrekþjálfunarmiðstöð landsins fyrir hross, fara gæðingar á göngubretti í vatni, víbringsgólf og hringekju. Að þjálfa hest án þess að hafa knapa á baki, dregur mjög úr álagi á fætur og liði. Á stöðina koma hestar með fótamein en einnig margir heilbrigðir hestar í þrekþjálfun og til að byggja upp hjá þeim vöðva svo þeir geti tölt og brokkað almennilega.

Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur

khk@mbl.is

Þetta er einskonar Reykjalundur fyrir hross. Þetta er fyrst og fremst sjúkra- og þrekþjálfunarmiðstöð en ekki tamningastöð,“ segir Ingimar Baldvinsson eigandi um 2.000 fermetra þjálfunarstöðvar fyrir hesta sem stendur rétt utan við Stokkseyri.

„Ég ætlaði aldrei út í þetta. Ég ætlaði að byggja hér hús sem væri bæði geymsla og verkstæði fyrir fornbíla, og þar ætlaði ég líka að hafa íbúð á efri hæðinni og 12 hesta hesthús í endanum. En það hefur ekki risið enn, því hugmyndin að þjálfunarstöðinni fór fram fyrir allt annað,“ segir Ingimar sem er mikill bílakarl en hann fékk hugmyndina að því að reisa þjálfunarstöðina þegar hann var á stórri hestasýningu úti í Ohio haustið 2007.

„Þegar ég sá þar hringekju fyrir hesta í notkun ákvað ég nánast á staðnum að gera eitthvað nýtt hérna heima í tengslum við þjálfun hesta,“ segir Ingimar sem stóð við ákvörðun sína og gekk í verkið.

Hesta vantar oft styrk í bak til að bera uppi knapa

Þó að stöðin hafi verið að mestu tilbúin í júní í fyrra var hún ekki formlega opnuð fyrr en í janúar á þessu ári. Pláss er fyrir 40 hross á stöðinni en Ingimar er þar með 10 hross sjálfur sem tilheyra ræktun hans og einnig er Jón Steinar bústjóri með tvö hross.

„Hingað koma fyrst og fremst kynbótahross og keppnishross, alls staðar að af landinu. Frá knöpunum á Hólum í Hjaltadal, frá Mette Manset, Þórarni Einarssyni heimsmeistara og Sölva Sigurðarsyni, svo einhverjir séu nefndir. Reyndar er stórknapinn Daníel Jónsson stórtækastur í því að koma með hesta hingað en hann eins og aðrir þjálfarar finnur mikinn mun á hrossunum eftir að þeir hafa verið hér.“

Ingimar segir að til hans komi á stöðina töluvert af hrossum sem eitthvað er að, eða eitthvað hefur komið fyrir. „Hér eru þau endurhæfð á þann hátt að þeim er ekki ofgert. Hingað koma verðmæt hross sem hafa lent í einhverjum slysum en við erum líka með helling af hestum sem er verið að þrekþjálfa og byggja upp hjá þeim vöðva. Til dæmis vantar hross oft styrk í bak til að bera vel uppi knapa.“

Hestur notar 300 vöðva á feti en fetþjálfun er vanmetin

Í hringekjunni eru fjórir hestar á hreyfingu í einu. Á vatnsbrettinu er einn hestur í einu. Í báðum tilvikum er aldrei mikið álag niður á liði og fót, því enginn knapi þarf að sitja á hestinum á meðan þjálfunin fer fram.

„Í þessari þjálfun sparast því álag á bönd og liði, sem er annars mikið þegar knapi situr á baki. Á vatnsbrettinu tekur hesturinn afturpartinn vel innundir sig, teygir afturlappirnar hátt upp og langt fram, en með því byggjast upp sterkari magavöðvar og einnig yfirlína í bak- og lærvöðva, en það er einmitt mótorinn sem heldur hestinum uppi þegar fólk horfir á hann á flottu tölti,“ segir Ingimar og bætir við að til hans komi ungir graðhestar í þjálfun til að byggja upp vöðva, því reglan sé: Sterkara bak = betra brokk.

„Hringekjan er aftur á móti notuð til að byggja upp þol, en hún snarbætir líka gangtegundirnar fet og brokk. Hesturinn notar 300 vöðva á feti en fetþjálfun er vanmetin þjálfun. Hestur sem kann ekki að feta getur ekki heldur brokkað almennilega.

Gömlu mennirnir vissu þetta hér áður og riðu mikið fet en nú nennir því enginn og þá kemur svona hringekja sér vel.“

Vatnsbrettið er stillt eftir þörfum hvers hests

Ingimar vill meina að við Íslendingar séum 50 árum á eftir í vitneskju um líkama hrossanna. „Við eigum að leggja meira í rannsóknir, það er engin spurning. Hringekja og vatnsbretti hefur verið notað í öðrum löndum í áratugi. En það er vissulega nýtt að vera með öll tækin á einum stað, eins og ég er með hér og það er líka nýtt hvernig við notum þau. Í Ameríku er til dæmis ekki hægt að hækka og lækka vatnsbrettið og þá er hesturinn settur strax á bólakaf og hann vinnur við hámarkserfiði allan tímann. Við höfum þetta aftur á móti stillanlegt og látum hestinn hita vöðvana upp í grunnu vatni áður en hann fer dýpra.“

Hestarnir eru í 20 mínútur í senn á vatnsbrettinu og það er stillt eftir hverjum hesti, látið snúast mishratt og hestarnir fara misdjúpt.

„Ef brettið er hækkað og vatnsmagnið lækkar, þá lyftir hesturinn fótunum hærra en þegar brettið er lækkað og hesturinn fer dýpra í vatnið, þá tekur hann lengri skref og mótstaða vatnsins er meiri.“

Víbringsgólf eykur blóðflæði og lagar bólgur í liðböndum

Víbringsgólf er þriðja tækið sem er á þjálfunarstöðinni, en þá standa hestarnir á gólfi sem víbrar. Tilgangurinn er að auka blóðflæði í fótum þeirra.

„Hestarnir eru á víbringsgólfinu í 30 mínútur í senn og hægt er að stilla á mismikinn styrk. Þetta hentar vel fyrir hesta sem hafa farið í aðgerð, til dæmis ef fjarlægð hafa verið úr fótum þeirra griffilbein. Víbringsgólfið er þá hluti af endurhæfingu þeirra. Á þetta gólf látum við líka hesta sem eru með sinaskemmdir og bólgur í liðböndum,“ segir Ingimar og bætir við að í vetur hafi þau endurhæft hesta sem búið var að afskrifa en nú sé stefnt með suma þeirra í keppni aftur.

Stirður uppáhaldsbarnahestur snarbraggaðist

Ingimar segir að stöðin hafi gengið vonum framar og að það hafi verið full nýting nánast alltaf.

„Hingað koma hestar á öllum aldri. Sá elsti sem hefur komið er 28 vetra hestur en hann var orðinn mjög stirður. Þetta er mikill uppáhaldsbarnahestur og eigendur hans vildu freista þess að liðka hann sem gekk svona líka vel. Hann snarbraggaðist á aðeins tíu dögum í þjálfun hérna hjá okkur og það færðist mikið líf í hann,“ segir Ingimar sem á um 60 hross en hann selur mest úr ræktun sinni til útlanda.

„Ég seldi vel árið 2008, en nú er lagerinn tómur og ég er að byggja hann upp. Það er endalaus sala í góðum hrossum núna.“

Vatnsbretti, hringekja og víbringsgólf

Heilbrigður hestur fer á öll tækin þrjú í röð, en með pásum á milli:

*Fyrst fer hann í hringekju, síðan á vatnsbretti og svo á víbringsgólfið. Það gera samtals um 100-110 mínútur á dag.

*Ef hestar eru með fótamein fara þeir tvisvar 30 mínútur á víbringsgólfið á dag og jafnvel á fet í hringekju eða á vatnsbrettið.