Glæsilegur Jónsi, með indjánahattinn, séður frá risaskjá.
Glæsilegur Jónsi, með indjánahattinn, séður frá risaskjá. — Ljósmynd/Gunnar Valgeirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Þór Birgisson og félagar gerðu það gott á Coachella tónlistarhátíðinni á sunnudag en þeir voru ein af 128 hljómsveitum og öðru listafólki sem lék á þessari þriggja daga hátíð í eyðimörkinni í Kaliforníu. Gunnar Valgeirsson var á staðnum.

Eftir Gunnar Valgeirsson

gval@mbl.is

Þetta var fjórða heimsókn undirritaðs á Coachella hátíðina – sú síðasta 2007, þegar Björk Guðmundsdóttir sló í gegn á aðalsviðinu í lok fyrsta dagsins. Á fyrstu tveimur dögum hátíðarinnar í ár voru það rapparinn Jay-Z, rokkararnir Public Image Limited, Vampire Weekend, Muse, Faith No More og Devo, og loks hollenski tekknósnúðurinn Tiesto sem vöktu mesta athygli. Það var hinsvegar sunnudagurinn sem vakti mestu athygli mína í ár enda stoppuðu Jónsi og félagar þar á miðju tónleikaferðalagi sínu um Kanada og Bandaríkin.

Ekkert eitt hljóðfæri

Jónsi hóf leik um sexleytið þegar sólin var lágt á himni og héldu þeir félagar firnagóða tónleika, þótt stuttir væru þeir. Kapparnir léku 6-7 lög af nýju plötunni, Go á 40 mínútum við góð viðbrögð áhorfenda sem fylltu svæðið fyrir framan smærra útisviðið. Allir tónlistarmennirnir eiga hrós skilið fyrir afburðaspilamennsku og líflega sviðsframkomu. Mestu athygli mína vakti frábær trommuleikur Samuli Kosminen, auk falsetturaddar Jóns Þórs.

Kappinn sjálfur gaf sig allan í söng og leik sinn, klæddur litríkum búningi svipuðum þeim sem sjá má á myndum sem fylgt hafa viðtölum vegna nýju plötunnar. Í seinni hlutanum setti Jónsi stórt indjánahöfuðfat á haus sinn og það jók einungis á andrúmsloftið á sviðinu.

Lög Jónsa af Go voru oft í svipuðum stíl og það sem hann hefur gert með Sigur Rós, en það er einnig munur hér. Lögin bera oft keim af hinum rísandi dampi þeirrar hljómsveitar en í stað strengjasveitar sem fylla rísandi lög Sigur Rósar er það rödd Jónsa sem einkenndi þessa tónlist. Önnur hljóðfæri vöfðust skemmtilega inn og út úr tónlistinni. Ekkert eitt hljóðfæri yfirgnæfði lögin og fiðluboginn á Les Paul gítar Jónsa – sem einkennir svo hljómleika Sigur Rósar – var fjarri og þetta eru poppaðri lög á köflum.

Ég sá til hans...

Jónsi og félagar héldu sjö tónleika á fimm stöðum á vesturströnd Kanada og Bandaríkjanna áður en þeir lentu á Coachella. Hljómsveitin virtist vel samæfð og var mikil leikgleði meðal tónlistarmannanna á sviðinu.

Því miður náði ég ekki í Jón Þór eftir tónleikana enda kappinn með stranga dagskrá samkvæmt fjölmiðlafulltrúa hans. Ég sá til hans þegar hann var að skrifa á diska og skyrtur fyrir aðdáendur sína í listafólkstjaldinu en maður vill ómögulega trufla aðdáendur sem beðið hafa í langri röð með Moggaspurningar. Í stað þess rakst ég á Alex Somers, kærasta Jóns Þórs, sem leikur á gítar í hljómsveitinni. „Þetta hefur gengið vel það sem af er og við erum ánægðir með þróunina eftir því sem við höfum farið suður vesturströndina. Þetta voru fyrstu tónleikar okkar á tónleikahátíð á ferðinni og þeir eru alls ekki gott dæmi um hvernig venjulegir tónleikar okkar eru í þessari ferð.“ Undir þetta tóku aðrir meðlimir hljómsveitarinnar sem ég rakst á eftir tónleikana. Þeir voru hinir hressustu og hlökkuðu til að sjá aðra tónleika seinna um kvöldið.

Vegna stutts tíma á milli listafólks á hinum ýmsu sviðum hátíðarinnar, er erfitt fyrir hljómsveitir að setja upp allan sinn umbúnað og hér spilaði Jónsi án sérstakrar sviðsuppsetningar sem breska fyrirtækið 59 Productions hannaði fyrir hljómsveitina fyrir tónleikaferðalagið. Það gerði þessa tónleika sérstaka.

Dansandi á borðum

Eftir tónleika Jónsa eyddi ég mestum tíma mínum í Sahara-tjaldinu, en þar er öll teknótónlist hátíðarinnar. Infected Mushroom hafði ég ekki séð eða heyrt áður en sú sveit náði góðum takti á mannfjöldanum. Bræðurnir í Orbital fylgdu þar á eftir með gott klukkutíma sett en það var Plastikman sjálfur – Richie Hawtin – sem lauk tónleikahaldinu í tjaldinu á sunnudagskvöld. Það þykir heiður í teknóheiminum að ljúka tónleikahaldinu í Sahara-tjaldinu á lokakvöldinu.

Hawtin er vel þekktur teknóplötusnúður en hann hefur endurvakið þá tónlist sem hann hefur þróað undir listamannsnafninu Plastikman. Sú tónlist er mjög mínímalísk og er langt frá því að vera auðmelt. Plastmaðurinn eyddi fyrstu 20 mínútunum í að vefja saman nýbreytilegri ljósasýningu og einföldum töktum en til að ná upp stemmingu í tjaldinu tók hann smám saman að fylla inn í kröftuga takta sem féllu vel í kramið hjá fólki sem komið var til að dansa og hoppa. Hann hélt því út það sem eftir lifði af 90 mínútna tónleikum sínum við mikinn fögnuð.

Ég fékk óvænt tækifæri til að tala einslega við Hawtin í tíu mínútur fyrr um daginn sem var gaman fyrir undirritaðan, enda ég aðdáandi Plastikman tónlistarinnar í gegnum árin. Eitt það sem einkennir marga teknólistamenn er hversu aðgengilegir og hæverskir þeir eru. Hawtin er dæmi um það og hann sagði mér sögu af einu heimsókn sinni til Íslands. „Það sem stendur fastast í minningu minni frá þeirri heimsókn – fyrir utan fallegt landslag – var kvöld eitt sem ég rataði inn á bar þar sem fólk var dansandi á borðum. Klisjukennt, en satt,“ sagði hann.

Coachella-hátíðin

Þetta var ellefta Coachella-tónlistahátíðin í eyðimörkinni, um tveggja tíma akstur vestur af Los Angeles.

Hátíðin er haldin um miðjan aprílmánuð ár hvert á stórum pólóvelli sem umkringdur er af pálmatrjám og tveimur fjallgörðum. Eins og geta má er oft heitt um miðjan dag á hátíðinni en um leið og sólin sest handan fjallgarðsins vestan megin svæðisins breytist andrúmsloftið – ekki aðeins hitinn, heldur og hópandinn sjálfur – um leið og ljósakerfi sviðanna og hinna ýmsu uppákomusvæða lýsa upp umhverfið. Hátíðarsvæðið sjálft samanstendur af tveimur stórum útisviðum, þremur stórum tjöldum með svæði fyrir allt að þrjú þúsund áhorfendur, auk nokkurra smærri staða þar sem fólk getur kælt sig og notið margs konar afþreyingar.

Coachella-hátíðin vekur meiri athygli í fjölmiðlum í Los Angeles ár hvert, enda sóttu 75 þúsund manns hátíðina dag hvern um helgina – alls staðar að úr heiminum. Hluti af fjörinu fyrir marga er á stóru tjaldstæði rétt við hátíðarsvæðið, en þar er oft mikið líf um miðjan dag og eftir að tónleikum er lokið. Forráðamenn hátíðarinnar seldu 15 þúsund fleiri miða inn á hátíðarsvæðið en undanfarin ár og það sást vel þegar maður mætti á staðinn í ár en svæðið rétt þolir þennan mannfjölda.

Paul Tollett, aðalforsvarsmaður hátíðarinnar, sagði að hún hefði verið í hættu í ár vegna efnahagsástandsins, en eftir svipaða stöðu fyrir ári lét hann til skarar skríða síðastliðið haust. „Þessar stóru útihátíðir virðast dafna vel þrátt fyrir efnahagsörðugleikana og er ég jafn hissa á því og flestir í tónlistarbransanum.“ Tollett og félagar hans í Goldenvoice-umboðsskrifstofunni gerðu meginbreytingu í ár með því að selja einungis miða á alla þrjá dagana, en Coachella hefur verið eina stórútihátíðin hér í Bandaríkjunum sem selt hefur dagsmiða. Þrátt fyrir að miðaverðið væri yfir þrjú hundruð dölum seldist upp á hátíðina í ár.

Ástæða þess að svo margir koma hingað ár eftir ár er einfaldlega sá fjöldi listafólks sem þar kemur fram. Maður finnur ávallt eitthvað fyrir sinn smekk. Stundum eru hljómsveitir sem maður bíður eftir að sjá, eða maður rekst á aðrar þegar maður er á gangi frá einum stað til annars. Oft koma hljómsveitir eða plötusnúðar manni á óvart og þá er bara að fara og athuga tónlist þeirra betur.