[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
2,0 Skuldir fyrirtækjahóps Exista námu tveimur milljörðum evra við hrun

Eftir Þórð Gunnarsson

thg@mbl.is

EXISTA skuldaði stóru bönkunum þremur um það bil tvo milljarða evra við fall bankakerfisins í lok september 2008. Exista var stærsti hluthafi Kaupþings og hafði greiðan aðgang að lánafyrirgreiðslu hjá bankanum. Lán Kaupþings til Existu jukust jafnt og þétt frá byrjun árs 2005 og fram að hruni. Í lok janúar 2005 námu skuldir Existu við Kaupþing um 28 milljónum evra, en við hrun voru þær tæpar 670 milljónir evra. Hluti þeirrar aukningar er þó yfirtaka á eignum og skuldum fjármögnunar- og eignaleigufyrirtækisins Lýsingar. Það fyrirtæki telst þó tengst Existu, þannig að þær skuldir voru einfaldlega færðar úr einum vasa yfir í annan og áhættan svo til hin sama fyrir Kaupþing.

Meðal helstu fyrirtækja sem eru flokkuð inn í Exista-hóp rannsóknarnefndar Alþingis eru Síminn og móðurfélags hans Skipti, Kista fjárfestingafélag og eignarhaldsfélag Ágústs og Lýðs Guðmundssonar, Bakkavör Holding BV. Tvö síðastnefndu félögin voru stærstu hluthafar Existu.

Stór hjá Kaupþingi og Glitni

Exista og tengd félög voru meðal stærstu áhættuskuldbindinga hjá tveimur af stóru bönkunum. Kaupþing átti mest allra banka undir fyrirtækjahópnum, en útlán þangað námu þegar mest lét um 32% af eiginfjárgrunni bankans. Stærstan hluta þess tímabils sem skýrslan tekur til var áhætta gagnvart Exista og tengdum félögum ívið lægri, eða í kringum 25% af eiginfjárgrunni bankans.

Lán Glitnis til Exista og tengdra félaga námu 27% þegar mest lét, en lækkaði niður í 17% fram til loka september 2008. Existahópurinn kemst ekki í hóp stærstu áhættuskuldbindinga Landsbankans, en hópurinn skuldaði bankanum tæpar 170 milljónir evra við hrun bankakerfisins.

Exista fjármagnaði sig einnig hjá dótturfélögum Kaupþings víða um heim. Þannig var félagið meðal stærstu áhættuskuldbindinga dótturfélaga bankans í Lúxemborg, á Mön og hjá Kaupþing KSF.

Hröð skuldaaukning

Frá ársbyrjun 2007 og fram undir hrun jukust skuldir Existahópsins um 115 milljarða króna. Bankarnir endurfjármögnuðu fyrirtækið einnig um sem nemur 105 milljörðum króna á tímabilinu sem um ræðir. Athygli vekur að lán á sérstakra trygginga námu alls 160 milljörðum króna samkvæmt mati rannsóknarnefndar. Alls námu lán bankans til Existu án trygginga um 144 milljörðum króna.

Framlengt og veðsett í lokin

Svo virðist sem Exista hafi strax í lok árs 2007 átt í miklum lausafjárvandræðum. Félagið sótti oft um og fékk fyrirgreiðslu hjá Kaupþingi. „Á árunum 2007 og 2008 voru félaginu iðulega veittar framlengingar á lánum, auk viðbótarlána, eða lán um skuldbreytt og veðum aflétt eða breytt eftir þörfum Exista hverju sinni,“ segir í skýrslu rannsóknarnefndar.

Fram kemur í skýrslunni að félagið hafi sótt um víkjandi lán upp á 20 milljarða króna í árslok 2007. Tilgangur lánveitingarinnar var sagður að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækisins. Fram kemur í fundargerð lánanefndar bankans í lok árs 2007 að ákveðið hafi verið að bæta um betur, og veita Existu allt að 30 milljarða króna lán. Skömmu síðar fékk félagið aflétt handveði í innistæðu sinni hjá Kaupþingi gegn veðum í Bakkavararbréfum. Síðar óskaði Exista eftir að þeirri veðstöðu í Bakkavararbréfum yrði aflétt, gegn sjálfskuldarábyrgð félagsins, sem áhættunefnd bankans samþykkti.

Sem stendur eiga stjórnendur Exista í nauðasamningum við kröfuhafa félagsins. Þar til fyrir skömmu leit allt út fyrir að þeir samningar yrðu samþykktir, þar til skilanefnd Kaupþings lagði fram nýja 100 milljarða kröfu sem setti vinnu stjórnenda með kröfuhöfum í uppnám.