Eftir Sigurð Boga Sævarsson sbs@mbl.is NEYÐARFUNDIR voru í stjórnsýslunni og hjá ferðaþjónustunni í gær vegna ummæla forseta Íslands í fréttaþætti á BBC í fyrrakvöld. Þar sagði hann gosið í Eyjafjallajökli lítið annað en æfingu.

Eftir Sigurð Boga Sævarsson

sbs@mbl.is

NEYÐARFUNDIR voru í stjórnsýslunni og hjá ferðaþjónustunni í gær vegna ummæla forseta Íslands í fréttaþætti á BBC í fyrrakvöld. Þar sagði hann gosið í Eyjafjallajökli lítið annað en æfingu. Sagan sýndi að búast mætti við fleiri gosum. Fyrirspurnum rigndi inn til almannavarna vegna ummælanna, m.a. frá erlendum vísindastofnunum. Margir afbókuðu Íslandsferðir og sala datt niður. Aðgerðir miðuðust við að lágmarka skaða.

„Það var erfitt að gera sér grein fyrir því að viðbrögð yrðu svona sterk, því hugsanlegt Kötlugos hafði verið rætt í BBC og fleiri erlendum fjölmiðlum,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

„Einn meginlærdómurinn af rannsóknarnefnd Alþingis er að við þurfum að ræða hættur sem eru fyrir hendi. Og ég tel að við Íslendingar eigum að hafa lært þá lexíu á undanförnum árum að við eigum að vera vakandi fyrir hættum, hvort sem þær eru efnahagslegar eða af náttúrunnar hálfu,“ sagði forseti Íslands.

„Framsetningin er ekki í anda þess sem við höfum lagt áherslu á sem eru hlutlausar upplýsingar og að láta vísindamenn um að tjá sig um það sem snýr að jarðvísindum,“ segir Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri.

Í hnotskurn
» Ferðaþjónusta í uppnámi vegna ummæla forseta um líklegt Kötlugos.
» Við eigum að vera vakandi fyrir hættunum, segir forsetinn.

  • Ekki rétta boðleiðin | 2