Kapp Samnorræna könnunin, sem landsnefndir UNICEF létu gera, bendir m.a. til þess að íslensk börn og unglingar vilji eins og félagarnir annars staðar á Norðurlöndum geta haft áhrif á það sem sé gert í skipulögðu tómstundastarfi.
Kapp Samnorræna könnunin, sem landsnefndir UNICEF létu gera, bendir m.a. til þess að íslensk börn og unglingar vilji eins og félagarnir annars staðar á Norðurlöndum geta haft áhrif á það sem sé gert í skipulögðu tómstundastarfi. — 24stundir/Árni Sæberg
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

ÍSLENSKIR og finnskir unglingar eru ekki jafn andvígir „vægum, líkamlegum refsingum“ af hálfu foreldranna og jafnaldrar þeirra á hinum Norðurlöndunum, að því er fram kemur í samnorrænni könnun sem gerð hefur verið fyrir landsnefndir Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF. Ekki er alveg ljóst hvað átt er við með „vægum“ refsingum en blaðamaður ímyndar sér rassskellingar og löðrunga sem skilji a.m.k. ekki eftir sig marbletti.

Nær 5.800 börn á aldrinum 12-16 ára tóku þátt í könnuninni og voru 16,5% íslensku barnanna „alveg“ eða „nokkurn veginn“ sammála því að foreldrar mættu beita líkamlegum refsingum, vægum eða hörðum. Hlutfall þeirra sem voru „alveg ósammála“ var 63%, í Finnlandi var það 48% en 71-75% í hinum löndunum. Heildarmarkmiðið með könnuninni er að reyna að sjá að hvaða marki hlustað sé á börn og í hvaða málum þau vilji helst að hlustað sé á sig. Um 15-21% voru algerlega sammála því að lækka ætti kosningaaldur en á Íslandi voru 23% alveg ósammála því.

Íslensku börnin vita minnst um réttindi sín

Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingar taka þátt í könnun af þessu tagi. Segir Bergsteinn Jónsson, starfsmaður UNICEF, að fróðlegt verði að sjá niðurstöður næstu kannana og hvernig viðhorfin þróist.

„Það sló mig dálítið að íslensku börnin telja sig vita minnst um réttindi barna,“ segir Bergsteinn. „Og þau sem eitthvað vita hafa oftast lært um þau í skólanum en samt eru 20% minni líkur á að fræðast um réttindi barna í okkar skólum en finnskum skólum sem standa sig best. Einnig er talsvert meira um að börn grannþjóða okkar fræðist um slík réttindi í fjölmiðlum.“

Fram kemur að norræn börn og unglingar vilja m.a. fá að móta skólareglur og koma með ábendingar um hegðun kennara og tilhögun kennslunnar. Bergsteinn segir að slík mál hljóti vissulega að vera viðkvæm og kennarar geti jafnvel verið hræddir um að missa alla stjórn ef orðið verði við öllum réttindakröfum. En samkvæmt nýjum grunnskólalögum eigi fulltrúi nemenda að sitja í skólaráði.

„Þannig að það er mikilvægt að horfa á alla réttindafræðslu framtíðarinnar með það fyrir augum að við verðum að kenna þeim um ábyrgð og skyldur á sama tíma og þau eru frædd um réttindi,“ segir Bergsteinn Jónsson.

S&S

Hvers vegna var þessi samnorræna könnun gerð?

Að sögn fulltrúa UNICEF í Reykjavík er heildarmarkmiðið að kanna að hvaða marki sé hlustað á sjónarmið barna. Einnig að ýta undir aukna þátttöku þeirra í daglegu lífi á heimilum, í skólum og tómstundastarfi.

Hvenær var hún gerð og hvaða aðferð var notuð?

Kannanafyrirtækið Innolink Research annaðist könnunina sem var gerð að mestu á netinu frá ágúst 2009 fram í janúar 2010. Íslenskir þátttakendur voru 827.

Hvað fannst þátttakendunum um fjölmiðla og afstöðu þeirra?

Spurt var hvort þeir birtu sjónarmið barna og unglinga. Minnst var ánægjan í Finnlandi, aðeins 13% voru mjög sátt við afstöðu fjölmiðla til ungmenna. Ívíð fleiri voru ánægðir á Íslandi eða um 15%.

En um jöfn réttindi allra án tillits til trúarbragða þeirra?

Athyglisvert var að í Finnlandi sögðust 16,6% vera ósammála því að allir ættu að hafa sömu réttindi. Hlutfallið var lægst í Svíþjóð, 6,6%, og næstlægst á Íslandi, 9,8%.