21. apríl 1648 Svo mikil snjókoma var á Suðvesturlandi að snjór var „í mitti á sléttlendi,“ eins og sagt var í Setbergsannál. 21.

21. apríl 1648

Svo mikil snjókoma var á Suðvesturlandi að snjór var „í mitti á sléttlendi,“ eins og sagt var í Setbergsannál.

21. apríl 1919

Sænsk kvikmynd um Fjalla-Eyvind, eftir sögu Jóhanns Sigurjónssonar, var frumsýnd í Gamla bíói, á annan í páskum. „Eru sýningarnar mjög skrautlegar,“ sagði í Lögréttu. „Yfirleitt er mesta ánægja að myndinni,“ sagði í Tímanum.

21. apríl 1951

Mikil snjóþyngsli voru á Eskifirði. Tíminn sagði frá því að sum hús hefðu verið alveg á kafi og margir hefðu grafið göng gegnum skaflana

21. apríl 1971

Fyrstu handritin komu til landsins frá Danmörku með herskipinu Vædderen. Þetta voru Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða. Alls voru afhent 1.807 handrit, þau síðustu í júní 1997.

21. apríl 2002

Íslenska ríkið festi kaup á Gljúfrasteini og listaverkunum sem prýddu heimili Halldórs og Auðar Laxness. Ekkja Nóbelsskáldsins gaf ríkinu allt innbú, bókasafn, handrit o.fl.

21. apríl 2003

Ýmsir lykilstarfsmenn Búnaðarbankans sögðu upp og réðu sig til Landsbankans, þeirra á meðal Sigurjón Þ. Árnason.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson