Alda Þórarinsdóttir fæddist í Norðfirði 31. desember 1935. Hún lést á krabbameinsdeild Landsítalanum 11E að morgni 9. apríl síðastliðins. Hún var dóttir hjónanna Þórarnis Guðmundssonar vélvirkjameistara, f. í Túninu á Ketilstöðum í Mýrdal 7.8. 1896, d. 7.3. 1985, og Guðrún Sigmundsdóttur, f. á Hjarðarhóli í Nesi í Norðfirði 18. júlí 1908, d. 16. apríl 2008. Foreldrar Þórarins voru hjónin Guðmundur Guðmundsson, bóndi á Syðri-Brekkum í Mýrdal, f. á Ytri-Brekkum í Mýrdal 18.8. 1867, d. 10.3. 1964, og Rannveig Guðmundsdóttir, f. á Ketilsstöðum í Mýrdal 2.12. 1871, d. 30.7. 1956. Foreldrar Guðrúnar voru hjónin Sigmundur Stefánsson, skósmíðameistari í Neskaupstað, f. á Hólum í Norðfirði, 5.11. 1875, d. 18.2. 1953, og Stefanía Árnadóttir, f. í Grænanesi í Norðfjarðarhreppi 6.2. 1886, d. 1.6. 1960. Tvíburaystir Öldu er Bára Þórarinsdóttir, gift Eggert Kristjáni Kristmundssyni, f. á Rauðbarðaholti í Dalasýslu 1929. Hálfsytkini samfeðra, Lilja Gréta, f. 1922, d. 2005, og Hallgrímur, f. 1925, d. 2007.

Hinn 7. maí 1955 giftist Alda Kópi Kjartanssyni, f. í Fremri-Langey á Breiðafirði 24. maí 1933. Foreldrar Kóps voru hjónin Kjartan Eggertsson, Fremri-Langey, f. 16. maí 1898, d. 29. júlí 1992, og Júlíana Silfá Einarsdóttir, f. í Bíldsey á Breiðafirði 5. apríl 1896, d. 8. mars 1999. Alda og Kópur eignuðust fjögur börn. Börn þeirra eru: 1) Ægir, f. 19.9. 1955, sambýliskona Margrét Karlsdóttir, f. 21.10. 1955, börn hans og fv. maka Stefaníu Margrétar Jónsdóttur eru: a) Alda, f. 10.4. 1980, sambýlismaður Brynjar Þorgeirsson, dætur þeirra eru Halla Margrét, f. 2004, og Harpa Lind, f. 2006, b) Harpa, f. 26.4. 1984, sambýlismaður Benedikt Þorgeirsson. Dóttir Stefaníu er Helena Lind Svansdóttir, f. 19.6. 1975, sonur hennar er Alex Birgisson, f. 2003. 2) Kolbrún, f. 5.11. 1957, sambýlismaður Guðjón Magnússon, f. 21.6. 1959, börn þeirra a) Rósa, f. 13.3. 1981, sambýlismaður Björn Már Jakobsson, dætur þeirra Katrín Rós, f. 2004, og Kolbrún, f. 2008, b) Kópur, f. 10.8. 1987, c) Birna, f. 26.11. 1990, sambýlismaður Gunnar Andri Kristinsson. 3) Þórarinn, f. 24.4. 1960, maki Edda Maggý Rafnsdóttir, f. 13.10. 1958, börn þeirra a) Benedikt Þorri, f. 5.3. 1994, b) Alda Þyri, f. 18.8. 1996. 4) Kjartan, f. 12.10. 1968, maki Birna Guðrún Sigurðardóttir, f. 5.11. 1970, börn þeirra a) Fannar, f. 24.10. 1993, b) Eva, 20.4. 2000.

Alda ólst upp hjá foreldrum sínum á Norðfirði, ásamt tvíburasystur sinni. Hún sótti húsmæðraskólann á Staðarfelli þar sem hún kynntist eiginmanni sínum. Fyrstu búskaparárin vann hún samhliða húsmæðrastarfinu ýmis þjónustustörf, hún var mörg ár verkstjóri á prjónastofu Álafoss, seinna vann hún við skrifstofustörf hjá Reiknistofunni og VÍS, ásamt því var handavinnan alltaf innan seilingar.

Alda verður jarðsungin frá Hallgrímskirkju í dag, 21. arpíl 2010, og hefst athöfnin kl. 15.

Góð vinkona okkar, Alda Þórarinsdóttir, lést á Landspítalanum 9. apríl sl. eftir erfið veikindi. Nú þegar vorið er komið erum við ferðafélagar hennar til nokkurra ára farin að huga að ferðabílunum okkar og þegar við leggjum af stað í ferðir sumarsins verður einum færra í hópnum. Alda okkar er farin á vit nýrra ævintýra.

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum;

á sjónum allar bárur smáar rísa

og flykkjast heim að fögru landi ísa,

að fósturjarðar minnar strönd og

hlíðum.

(Jónas Hallgrímsson)

Þau hjón Alda og Kópur voru góðir vinir og ferðafélagar. Það var fyrir um það bil átta árum að þau eignuðust húsbíl og þá tókust kynni með okkur sem eigum sama áhugamál og þau, þ.e. að ferðast um landið. Þetta er skemmtilegur hópur þar sem eiginmennirnir spila á hljóðfæri og konurnar syngja með og prjóna þar sem prjónaáhuginn er mikill og er það ekki síst Öldu að þakka.

Alda var kát og hress kona, vel gefin, listakona sem allt lék í höndunum á. Margar eru flíkurnar sem hún saumaði eða prjónaði um dagana, hún málaði á postulín og margir eiga fallega hluti eftir hana. Hún var kona sem aldrei féll verk úr hendi. Alda var skapmikil kona og hreinskilin og gat sagt fólki til syndanna ef henni mislíkaði við það, en hún var líka vinur vina sinna. Þau hjón voru skemmtileg heim að sækja hvort sem var í húsbílinn eða heim til þeirra í Drekavoginn og alltaf var boðið upp á kaffi og meðlæti og einstakar voru kleinurnar og ástarpungarnir hennar Öldu.

Minnisstæðar eru margar góðar stundir úr ferðalögum með þeim, ferð í Þrastaskóg þegar þau hjón héldu upp á gullbrúðkaup sitt ásamt fjölskyldu og vinum í glampandi sól og blíðu. Og einnig þegar Kópur varð 75 ára. Þá var fjölskyldu og vinum boðið að koma í útilegu og síðan var boðið til veislu á Hótel Hvítá og þar var að sjálfsögðu spilað, sungið og dansað fram á nótt. Þetta eru ógleymanlegar stundir. Þau hjón höfðu mjög gaman af að dansa og ferðuðust með Húsbílafélaginu og einnig var ferðast á harmonikumót víða um land. Hvað er yndislegra en að njóta landsins okkar og náttúrunnar í góðra vina hópi.

En nú er komið að leiðarlokum. Við þökkum Öldu samfylgdina og biðjum góðan Guð að geyma hana.

Vorboðinn ljúfi, fuglinn trúr, sem fer

með fjaðrabliki háa vegaleysu

í sumardal, að kveða kvæðin þín,

heilsaðu einkum, ef að fyrir ber

engil, með húfu og rauðan skúf, í peysu;

þröstur minn góður, það er stúlkan mín.

(Jónas Hallgrímsson)

Kæri Kópur, við vonumst til að þú haldir áfram að ferðast með okkur þrátt fyrir þinn mikla missi, og vottum þér og börnum ykkar, þeim Ægi, Kolbrúnu, Þórarni og Kjartani, og fjölskyldum, og Báru, systur Öldu, innilega samúð og biðjum Guð að styrkja ykkur í sorginni.

Fyrir hönd ferðahópsins,

Jóhanna Haraldsdóttir.

Hinsta kveðja

Takk fyrir að vera amma okkar.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Sofðu rótt, elsku amma,

Rósa, Kópur og Birna.